Þar sem gamla síðan er búin að liggja í lamasessi í óratíma tókum við það til ráðs að setja upp síðu hér. Hitt systemið var alltof flókið og óskilvirkt þannig að nú er stubburinn bara kominn með bloggsíðu...enda enginn maður með mönnum nema hann bloggi ;) Hérna ætlum við sem sagt að segja frá því sem á daga snáðans drífur og hér til hliðar má finna krækju inn á myndasíðu. Þar er einnig krækja inn á gömlu síðuna, sem er nú víst enn "host-uð" í netheimum, við tímum ekki alveg að henda henni út þar sem ferðasagan okkar frá Indlandi er þar...og hver veit nema að einhver hafi gaman af því að lesa hana. Allavega fannst okkur, sem væntanlegum Indlandsförum og verðandi foreldrum, voðalega gaman að skoða samskonar síður. Og ef einhvern langar til að senda okkur kveðju er hægt að gera það með því að setja inn komment...og hver veit nema að pabbinn á heimilinu skelli upp einhvers-lags gestabók þegar fram líða stundir. Hún verður þá vonandi skemmtilegri en gestabókin á gömlu síðunni því það gengur ekki að fólk sé farið að reyta hár sitt við það eitt að senda okkur kveðju ;)
En svo maður segi nú eitthvað frá drengnum (síðan síðast) þá er hann er hann alltaf jafn sprækur. Hann unir sér vel í leikskólanum innan um álíka spræka gutta og skemmtilegar stelpur. Afmælisboðunum rignir yfir hann þessa dagana og stundum er hann jafnvel tvíbókaður...já manni leiðist ekkert þessa dagana ;) Það er skemmtileg stemmning að fara með hann í leikskólaafmælin hér í hlíðunum því þegar við röltum af stað í afmæli má yfirleitt rekast á einhverja af krökkunum í sömu erindagjörðum. Og svo gala þau yfir götuna á hvert annað, yfir sig spennt að vera að fara í afmæli. Svo er þrammað í röð í partýið og leikið og trallað í tvo tíma...ægilegt stuð ;)
En merkilegustu fréttirnar af gaurnum er sennilegast þær að hann er farinn að hjóla...ÁN hjálpardekkja!!! Það gerðist ansi fljótt, sá stutti var ekki lengi að ná þessu. Ein ferð út á Miklatún með pabba og hjálpardekkinn fengu að fjúka. Það er voðalega gaman að fylgjast með honum æða áfram á hjólinu og nú síðast fórum við niður á Ægisíðu og leyfðum honum að bruna á göngustígnum þar. Svo gengu stoltir foreldrarnir á eftir snáðanum sem brunaði fram og til baka. Ótrúlegt hvað það gefur lífinu mikið gildi að horfa á afkvæmið sitt taka þessi þroskaskref...hjartað fyllist hamingju af því einu að sjá hann þeytast áfram. Verst að hann er alger ofurhugi og er strax farin að reyna að gera "trix", reynir að stökkva og hvaðeina...og endar yfirleitt utan í kyrrstæðum bílum eða á ruslatunnum. Hann er ekki ofurhugi fyrir ekki neitt ;)