Þá er lítill snáði sofnaður eftir fjör dagsins. Við fórum nefnilega í sveitaferð með leikskólanum í dag, fórum alla leið upp í Hvalfjörð. Þetta var velheppnuð ferð...fyrir utan brjálaða rokið sem blés okkur næstum því um koll. En Elvar naut sín í botn, fékk að djöflast í heyinu í hlöðunni og skoða öll dýrin. Svo vorum við svo heppin að ein kindin bar á meðan heimsókninni stóð. Það vakti nú aldeilis lukku að sjá lambið koma í heiminn..."úr rassinum á henni" eins og Elvar tók til orða ;) Honum fannst það ansi merkilegt og einnig hve þetta var subbulegt, þ.e. blóðið og slímið. Lambið fékk nafnið Sóley, svona af því leikskólinn heitir Sólhlíð og krakkarnir voru að vonum ánægðir með það. Eftir þetta voru grillaður pylsur og því næst haldið ofan í fjöru...eða öllu heldur fokið ofan í fjöru enda stóð norðanvindurinn svoleiðis í bakið á okkur. Foreldrarnir voru nú heldur hressari en sonurinn þegar rútan kom í fjöruna að sækja okkur, hann hefði viljað vera þarna miklu lengur.
Þegar heim var komið tók við smá kósístund eftir ferðalagið en svo drifu pabbi og Elvar sig út í hjólreiðatúr. Elvari fannst mikið sport að þeir væru á sitt hvoru hjólinu því hann var nú orðinn frekar þreyttur á stólnum sem þeir feðgar hafa notast við á hjólreiðatúrum. En nú er hann orðinn stór strákur og getur hjólað sjálfur án hjálpardekkja. Þeir fóru alla leið ofan í Nauthólsvík og ekki skemmdi fyrir að rekast á einn leikskólafélagann sem var í sömu erindagjörðum með sínum pabba ;)
Og enn var hjólað því við vorum boðin í Bogahlíðina í kvöldmat og auðvitað þurfti að hjóla þangað. Það kemst sem sagt fátt annað að en hjólreiðar hjá snáðanum þessa dagana. Enda kom það í ljós þegar heim skyldi halda og hjólið átti að fara í bílskottið...þá upphófst ægilegt frekjugól sem endaði ekki fyrr en heim var komið. Það er nefnilega stundum erfitt að hemja sig þegar maður er fjögurra ára...langskemmtilegast þegar allt gengur eftir eigin höfði ;)
En jæja, eftir gott bað (til að skola fjárhúslyktina úr hárinu) sofnaði hjólreiðagarpurinn svo við tásunudd frá mömmsu...góður endir á góðum degi.