25 júní 2008

5 ára gaur!

Þá er gormurinn orðinn 5 ára...að hugsa sér! Þetta litla prik er allt í einu orðið að 5 ára töffara. Bara yndislegt ;) Hér í Skaftahlíðinni höfum við af þessu tilefni staðið í stórræðum og haldið hvorki meira né minna en 3 veislur. Sú fyrsta var haldin á fimmtudaginn 19. júní og í hana komu leikskólavinirnir...allir af deildinni. Við foreldrarnir stóðum því á haus í 2 tíma þar sem grillaðar voru pylsur ofan í 15 hungraða úlfa og eftir það fengu þau geimveruköku (mikið búið að pæla í þessu, þ.e. hvernig afmæliskakan ætti að vera). Svo var spilað og leikið og Elvar Orri var alsæll með daginn.

Á afmælisdaginn sjálfan, laugardaginn 21. júní, voru svo 2 veislur, þ.e. 2 holl og það var allt saman vel lukkað og skemmtilegt. Í fyrra holið komu vinkonur mömmu með ungana sína og eiginmenn, sumar voru reyndar út á landi svo þetta varð fámennt hjá okkur en engu að síður afskaplega notalegt. Að lokum fylltist hér allt húsið seinnipartinn af ættingjum og vinum og fögnuðu með prinsinum...engu líkara en hér væri verið að ferma drenginn ;) Ja, það er allavega frábært að vera loksins komin í nógu stóra íbúð til þess að geta haldið svona veislur og vonandi verða þær sem flestar í framtíðinni. Um kvöldið kíktu svo Árni frændi og Giada við og færðu drengnum svakalega flott Jack Sparrow dót OG settu það saman með honum....enda ætlaði hann varla að sleppa þeim ;)

Elvar Orri varð nú aðeins "ruddlaður" (ruglaður) af þessu stússi öllu og rétt fyrir veislu númer 2 spurði hann mömmu og pabba hvort hann væri þá núna að verða 6 ára??? Honum fannst það bara rökrétt að aldurinn hækkaði með öllum þessum afmælum ;)

Það er ekki lítið mál að vera orðinn 5 ára og vera farinn að sofa einn í eigin herbergi. Strákurinn okkar bara næstum fullorðinn, hehe. Hann er svo duglegur þessi elska, unir sér svo vel á leikskólanum og vill helst alltaf vera úti að hjóla eða að leika sér við hressa krakka. Þess á milli er hann samt alveg sáttur við að leika með allt fína dótið sitt...og heldur betur bættist nú við af flottu dóti um helgina!

Vorum að enda við að setja inn myndir af stuðinu.

Bless í bili!

08 júní 2008

"Nýjar" myndir...


...voru að detta inn á myndasíðuna.

Annars er allt gott að frétta af okkur, erum alveg að verða búin að koma okkur vel fyrir í Skaftahlíðinni. Elvar Orri unir sér vel á nýja staðnum og við höfum tekið eftir því að hann er einhvern veginn svo "content" eða ánægður...sennilega er það sambland af ánægju yfir nýju húsnæði og ánægju yfir því að þetta flutningsvesen sé yfirstaðið, enda reynir það nú aðeins á svona litla kalla að standa í svoleiðis veseni.

Þegar loks var búið að gera herbergið hans íveruhæft var hægt að byrja átakið ógurlega "Elvar að sofa í eigin rúmi-í-eigin-herbergi" og það er í mjög góðum farveg. Drengurinn er að safna sér stigum fyrir hverja nótt sem hann sofnar góður inn í herbergi og þetta hefur bara gengið eins og í sögu. Stundum kemur hann upp í um miðja nótt, en þá gerir hann það bara hljóðlega og jafnvel án þess að vekja foreldrana, en stundum tekst honum að sofa alla nóttina í eigin bæli. Þetta finnst okkur mikið afrek...enda vorum við aðeins farin að finna fyrir því að næstum-því-fimm-ára sparkari lægi á milli ;)

Síðan við fluttum inn í lok maí hafa dagarnir að mestu farið í að vinna og leikskólast og í að taka upp úr kössum. Nú er næstum allt að verða klárt og það er nú ekki seinna vænna enda styttist í afmæli drengsins. Hann er að vonum orðinn spenntur og við erum nokkrum sinnum búin að ræða hugmyndir að afmæliskökum...og alls kyns hugmyndir komið upp: geimverukaka, risaeðlukaka, sjóræningjakaka, turtleskaka...o.s.frv. Við sjáum hvað setur :p