29 ágúst 2008

Síðan síðast...

...hefur nú aldeilis margt gerst hjá okkur. Það sem ber langhæst er að Elvar Orri er orðinn stóri bróðir, fengum loks að vita að lítill drengur biði okkar úti á Indlandi. Hann heitir Somdip, er fæddur 2. október 2007 og við höfum ákveðið að gefa honum nafnið Haukur Máni.

Okkur finnst hann alveg yndislegur og eigum erfitt með að bíða eftir því að fá hann í fangið. Elvar Orri tók þessum fréttum frábærlega vel, það var mjög gaman að sjá svipinn á honum þegar við sögðum honum frá Somdip litla. Hann talar mikið um litla bróðir og er strax farinn að gera plön fyrir þá bræður ;)

Annars hefur þetta sumar liðið ansi hratt...eins og þau gera nú oft. Á milli þess að stússast hér heima við höfum við verið dugleg að flakka og njóta góða veðursins. Við fórum tvisvar sinnum vestur í Dýrafjörð og það var bara yndislegt...enda finnst okkur vart hægt að finna betri stað en Keldudalinn okkar. Svo fórum við líka til Akureyrar að heimsækja Fanneyju langömmu og vorum rosalega heppin með veður þar. Og enn meira var flakkað því við skelltum okkur í stutta ferð til Edinborgar, vorum komin með smá "heimþrá" þangað. Sú ferð var heldur stutt og eiginlega bara til þess að minna okkur á hversu yndisleg borgin er.

Rútínan hjá okkur var rétt byrjuð að rúlla eftir sumarfrí þegar Elvar Orri tók upp á því að ná sér í pest. Hann var heima í fimm daga í síðustu viku, náði svo að fara í þrjá daga í leikskólann og veiktist aftur...og er búinn að vera heima alla þessa viku. Það er óhætt að segja að stuðboltinn sé búinn að fá nóg af inniverunni, og reyndar líka búinn að fá nóg af því að hanga með foreldrunum. Hann kvartar sáran yfir því að vera einmanna og að sér leiðist, greykallinn. En nú hlýtur þetta að vera búið í bili og við krossleggjum fingur um að stubbur komist í leikskólann á mánudaginn.

Látum þetta gott heita, erum að dunda við að henda inn myndum sumarins :)