05 október 2009

Tveggja ára gormur!

Þá er búið að halda upp á tveggja ára afmælisveislu Hauks Mána með pompi og prakt. Afmælissnúðurinn stóð sig bara vel í veislunni þrátt fyrir að vera stútfullur af kvefi en hann tók upp á því að krækja sér í pest fyrir helgina. Hann virtist skemmta sér nokkuð vel, fylgdist vel með afmælissönginum og reif upp fyrstu pakkana en svo hætti hann alveg að spá í þessu dóti...restin var svo rifin upp af stóra bróðir eftir veisluna :) Sem sagt góður dagur þetta með góðu fólki og frábært að fá loks að halda upp á afmæli fyrir litla manninn okkar því ekki fékk hann neina eins árs veislu greyið.

Á sunnudaginn höfðum við það bara notalegt hér heima og dunduðum okkur við að ganga frá eftir stuðið. Elvar Orri fór svo að verða frekar ólíkur sjálfum sér, hafnaði meira segja að fara í bíó með pabba...sagðist bara vilja slappa af! Elvar Orri...slappa af...??? Gerist ekki oft ;) En ástæðan reyndist líka vera sú að hann var orðinn veikur og kominn með hita. Hitinn hækkaði svo bara eftir því sem leið á daginn og var hann alveg við suðumark í nótt, grey kallinn okkar. Þegar múttan hringdi svo í læknavaktina eldsnemma í morgun lýsti hjúkrunarfræðingurinn því yfir að þetta væri að öllum líkindum svínaflensan. Ja hérna hér, ekki alveg það sem manni langar að heyra en við sjáum hvað setur hann er allavega drulluslappur, með háan hita og höfuðverk.

Haukur Máni er enn að ná kvefinu úr sér en hefur sem betur fer ekki fengið þennan háa hita og sleppur vonandi við það. Hann má eiginlega ekkert vera að þessu veikindastússi því við erum búin að vera að fara í heimsókn á leikskólann og ætluðum að byrja á fullu í aðlögun í þessari viku. Við mættum fjóra daga í síðustu viku og honum virðist lítast vel á...varð meira að segja alveg brjálaður við múttu sína þegar hún tók hann út úr hvíldarherberginu. Hann svoleiðis gargaði yfir þessu óréttlæti, þarna voru líka krakkar að fara að kúra og höfðu það svo notalegt...og hann var kominn í kúrustuð :) Það er óhætt að segja að það sé skap í litla kroppnum og hann gerði nokkrar tilraunir til að æða inn í herbergið. En nei, mútta var þver og fór með hann heim að lúlla enda ekki kominn tími á að fá sér lúllara í leikskólanum strax. Vonandi man hann bara þessa ákefð þegar kemur að því að lúlla með krökkunum án múttu og lubbans hennar ;)

Annars hefur allt verið gott af okkur, þ.e. þar til þessi veikindi bönkuðu upp á. Elvar Orri stendur sig vel í skólanum og er orðinn vel læs, rífur í sig bækurnar sem hann kemur með heim og hefur mikinn áhuga á þessu öllu. Hann kvartar reyndar stundum á morgnanna þegar hann er illa sofinn...þá er skólinn hundleiðinlegur og hann HATAR að læra ;) Hann þarf greinilega sinn svefn og ef hann er vel úthvíldur er allt annað hljóð í skrokknum.

Jæja látum þessum veikindapistli lokið, segjum vonandi fréttir af tvíeykinu fljótlega og skellum inn myndum af afrekum þeirra.