02 desember 2009

Fréttir af stuðboltum...


Af dásamlegu Skaftahlíðarskelfunum er allt gott að frétta og eru þeir hinir hressustu. Elvar Orri er eins og blóm í eggi í skólanum og gormast þess á milli í fótboltanum. Hann er búin að eignast góða vini í bekknum og virðist bara vera afar sáttur með lífið. Haukur Máni er loks orðinn sáttur við leikskólann sinn en hann hóf störf á Stakkaborg í byrjun október. Þá vorum við mæðginin búin að taka langa aðlögun og vera eins og gráir kettir að þvælast fyrir starfsfólkinu. Svo þegar starfið átti loks að hefjast lagðist kappinn í tveggja vikna veikindastúss og setti það aðeins strik í reikninginn.

Það var ansi meyr mamma sem gekk í burtu frá leikskólanum sínum eftir að hafa skilið litla skriðdrekann sinn eftir grátandi. Þá vildi hún helst bara hætta við allt saman og vera heima með hann fram að fertugu! En sá stutti stóð sig vel og innan skamms var hann hættur að gráta á morgnanna, kveinkaði sér kannski aðeins, en fór nokkuð sáttur í fang fóstrunnar. Nú þegar hann er sóttur er hann hinn glaðasti og sýnir leikfimiæfingar af einskærri gleði. Við erum að vonum afar kát með þessa þróun og sjáum litla manninn bara blómstra þarna.

Hér heima fyrir eru guttarnir okkar tveir stundum á við heilan her og óhætt að segja að hér sé sjaldnast dauð stund..."Svona á þetta að vera, líf og fjör" segja foreldrarnir á góðum stundum en þess á milli reyta þeir hár sitt og ranghvolfa augum. Það kemur okkur enn jafn mikið á óvart hversu mikill rússíbani foreldrahlutverkið er og hversu mikið þessir molar geta brætt mann...þó þeir séu nýbúnir að brjóta kertastjaka. Nú í haust kvöddu okkur þrír kertastjakar; sá fyrsti fór þegar Elvar Orri var í fótbolta inn í stofu, annar mætti örlögum sínum þegar Haukur Máni barði honum í gluggakistuna og sá þriðji var ofan á kommóðu sem Elvari Orra tókst með dularfullum hætti að hvolfa yfir sig. Sem betur fer slösuðust engir drengir við útrýmingu fyrrnefndra kertastjaka...

Síðustu dagar hafa verið litaðir af jólafiðringi og við höfum dundað okkur við bakstur, jólaseríuuppsetningar og ýmislegt jólastúss. Elvar Orri er orðinn sæmilega spenntur en einbeitir sér mest að fótboltamyndum þessa dagana og einnig er hann að safna sér inn stigum til að geta fengið gullfiska. Hann stefnir á að eignast tvö stykki og hefur þegar ákveðið nöfnin: Yoko og Jökull skulu þeir heita...og þeir eru ekki par heldur tveir strákar. Haukur Máni hefur ekki hugmynd um tilganginn með öllu jólatilstandinu...en hann kann vel að meta kökurnar! Þessi jól verða fyrstu jólin okkar með kökugleypinum litla og jólatrés-stílistinn á heimilinu (móðirin) hefur tekið þá ákvörðun að ekkert brothætt fari á tréið þetta árið því barnið er eitt það handóðasta sem sögur fara af!

Segjum þetta gott í bili, njótið aðventunar :)