21 apríl 2009

Aftur í bústað...

..já við skelltum okkur aftur í Húsafellið um síðustu helgi. Vorum svo heppinn að bústaðurinn losnaði skyndilega og við stukkum bara á tækifærið...enda hafið hin fyrri bústaðaferð svolítið litast af veikindum litla mannsins og vondu veðri. En í þetta sinn voru allir hressir og veðrið yndislegt. Þvílíki vorfiðringurinn sem kom í okkur við þetta :) Við buðum Hössa afa og Mundu ömmu með okkur og fengum svo Stínu, Mumma, Emblu Ýr og Höskuld Ægi í heimsókn á laugardeginum. Við nýttum pottinn til fullnustu, grilluðum góðan mat og fengum okkur gönguferð upp í Bæjargilið og sáum þar steinlistaverkin. Allt í allt frábær helgi...og okkur langaði eiginlega ekkert heim ;) En við erum búin að fá bústaðin í heila viku í sumar og hlökkum mikið til. Þegar heim var komið fengum við góða gesti í kvöldmat, Rósa og ungarnir hennar tveir kíktu á okkur en þeim kynntumst við í Edinborg (tja nema þeim minnsta sem var ekki fæddur þá ;))Við áttum góða kvöldstund með þeim og Elvar og Bjarnheiður léku sér vel saman enda gamlir og góðir vinir. Hauki Máni leist nú vel á Gunnlaug litla sem er rétt um 8 mánaða og reyndi nú aðeins að pota í hann og setjast á hann ;) Honum leist hins vegar ekkert á það þegar mútta hélt á Gunnlaugi...þá varð minn maður bara abbó! Og þegar mútta setti Gunnlaug í fangið á pabba og tók Hauk upp varð hann líka abbó og vildi komast í pabbafang...greinilega ekki sama um að foreldrarnir máti önnur börn. Það er óhætt að segja að þetta litla atvik hafi glatt foreldrana, því eins og allir þeir sem hafa ættleitt kannast við erum við alltaf að leita eftir þessum merkjum frá börnunum okkar sem sýna okkur að við séum á réttri braut í tengslamynduninni :)

Hér á bæ standa yfir smá breytingar. Við ákváðum að "ræna" svítunni af erfðaprinsinum! Hann hefur verið í stærsta svefnherberginu síðan við fluttum inn en ekki alltaf sofið þar. Það rann svo þetta ljós upp fyrir okkur að það væri í raun út í hött að láta stærsta svefnherbergið standa að mestu autt (fyrir utan það þegar drengirnir æða þangað inn og snúa öllu á hvolf) og sofa fjögur í lítilli skonsu. Því var hafist handa í gær við að færa allt hafurtaskið á milli herbergja og sváfum við í svítunni síðustu nótt. Það er nú töluverður munur að geta gengið meðfram hjónarúminu án þess að þurfa að skáskjóta sér og einnig töluverður munur á loftinu, það var stundum ansi loftlaust hjá okkur hinu meginn :) Elvar Orri ætlaði nú ekki að samþykkja þetta í fyrstu en lét svo undan...allavega til að prufa ;)

Jæja segjum það gott í bili, vorum að setja inn nokkrar páskamyndir og erum að vinna í bústaðamyndum.

15 apríl 2009


Vorum að setja inn fyrsta skammt af páskamyndum. Áttum alveg yndislegt páskafrí...borðuðum, hittum skemmtilegt fólk, borðuðum súkkulaði, kíktum í bíltúr með enn fleira skemmtilegu fólki...og borðuðum svo aðeins meira af súkkulaði :) Eina sem vantaði kannski var afslappelsi..það var svo mikið að gera í súkkulaðiátinu og svo er bara lítið um afslappelsi þegar maður á tvo ferska grallara (og annar í sykurvímu).

Bestu kveðjur frá nammigrísunum í skaftó :p

06 apríl 2009

Nýjar myndir...

...vorum að setja inn myndir af orkuboltunum tveimur.


Drengirnir eru hressir að vanda og sá stærri er farinn að hlakka mikið til páskanna. Hann er nú þegar komin með 2 egg upp í skáp, fær eitt frá foreldrunum og svo komu Steinunn amma og Siggi afi með Marsbúaegg handa gaurnum í gær...svo það er komið súkkulaðiblik í brúnu augun ;) Helgin okkar var ansi góð, byrjuðum hana á að fara í bíó með Stínu, Emblu Ýr og Höskuldi Ægi og sáum Monsters vs. Aliens...mælum sko með henni! Á laugardaginn komu Óli og Þórunn og Stína, Mummi og Embla Ýr í mat til okkar og fullorðna fólkið spilaði á meðan Elvar og Embla höfðu það kósí með snakk, nammi og mynd. Svo fékk Embla Ýr að gista...fínt að hafa lausa koju til að bjóða gestum :) Elvar Orri er nefnilega kominn með þessar líka fínu kojur í herbergið sitt. Á sunnudaginn fengum við líka fína gesti. Siggi afi, Steinunn amma, Árni og Giada, Hildur og strákarnir komu í sunnudagskaffi til okkar. Elvari finnst nú ekki leiðinlegt að hafa stóru frændurna hjá sér og tókst að fá þá með sér út í fótbolta.

Elvar Orri gerir sitt besta þessa dagana til að sofa í nýju kojunum. Hann er voðalega ánægður með þær og finnst mikið sport að sofa í efri kojunni. Múttunni fannst svoldið erfitt að hafa hann svona hátt uppi fyrstu nóttina og var alltaf að kíkja á hann en hann fer varlega. Eitt kvöldið bað hann þó um að sofa í neðri kojunni og þegar mútta kíkti á hann rétt fyrir miðnætti lá hann á gólfinu...þannig að hann dettur ekki úr efri kojunni, bara þeirri neðri ;) Honum gengur svona upp og ofan að sofa í sínu bæli alla nóttina...það er bara svo gott að koma upp í og kúra ;)


Litli snúðurinn er nú ekkert að pæla í páskum né súkkulaðiáti. Foreldrarnir eru nú svo leiðinlegir að ætla ekkert að kynna hann fyrir páskaeggjum þetta árið :) Hann skellti sér svo í 18 mánaða skoðunina fyrir helgi og stóð sig vel...grét nú samt aðeins þegar læknirinn og hjúkkan fóru að kíkja á hann og varð ægilega sár þegar sprautan kom en niðurstaðan er þessi: snáðinn er 77,3 cm langur og 9,53 kg að þyngd. Þannig að eitthvað hefur tognað á honum og þyngst í honum síðan hann kom heim :)

Segjum það gott í bili, farið varlega í páskaeggin :)