30 desember 2010

Enn dælast inn myndir...

...og nú eru það aðventumyndirnar :)



Það er hægt að smella beint á myndina til að komast í albúmið :)

27 desember 2010



Skaftarnir hafa haft, og eru að hafa, það ofurgott yfir þessi jól. Allir saman í fríi og hugglegheit út í eitt...reyndar þurfti pabbinn að fara að vinna í dag en heldur svo áfram að frílista sig með okkur hinum.

Jólaundirbúningurinn gekk vel hjá okkur þrátt fyrir að leiðinda gubbupest hafi bankað upp á hjá okkur. Strákarnir fengu báðir góðan skammt af henni, sérstaklega þó Haukur Máni sem var lengi að jafna sig. Múttan fékk nú líka skammt af þessum skemmtilegheitum en pabbi slapp sem betur fer. Þetta setti nú aðeins strik í jólastússið en það hafðist þó allt að lokum.

Strákarnir voru að vonum spenntir fyrir öllu pakkastússinu á aðfangadag en það gekk þó furðulega vel fyrir sig. Elvar Orri var duglegur að lesa á og afhenda og Haukur Máni vildi helst bara fá að leika með það dót sem kom úr pökkunum í það sinnið. Elvar Orri var líka rosa duglegur að hjálpa honum að opna. Það var nú líka aldeilis margt fínt sem þeir fengu og allir meir en sáttir þar.

Tíminn okkar yfir þessa helstu jóladaga hefur svo bara farið í að hitta ættingjana og borða góðan mat...og meir af honum...hangsast á náttfötunum...allt eins og það á að vera ;)

Við náðum nú að rífa af okkur letina í smástund á jóladag og skunduðum út á Miklatún í sleðaferð, eins gott að nýta snjóinn áður en hann hvarf. Þar skemmtum við okkur vel og strákarnir skiptust á að renna sér niður á sleðanum hans Elvars....þ.e.a.s. Elvar Orri var meira en til í að deila sleðanum með þeim litla en hann var ekki mikið fyrir það sjálfur. Í hvert sinn er komið var að Elvari upphófust mikil mótmæli og gól...sem linnti ekki fyrr en Elvar Orri var búinn með sína salíbunu og komið að Hauki Mána...gaman a´ssu ;)

Jæja þá í þetta sinn, ritarinn ætlar að halda áfram að liggja í leti en er svona að dunda við að setja inn myndir af jólagormunum, svona á milli konfektáts og lesturs ;)

Hafið það gott yfir hátíðirnar!

15 desember 2010

Jóla jól...

...nú er jólaskapið komið á blússandi ferð hér í Skaftahlíðinni og sjá þeir bræður að mestu um að halda því gangandi ;)



Það sem hefur komið í skóinn hingað til hefur vakið mikla lukku og það er virkilega gaman að sjá hvernig Haukur Máni er að fatta allt þetta jólasveinasystem. Hann er alveg búinn að átta sig á því að hann vill ekki kartöflu...helst nammi en dót er í lagi líka. Elvar Orri tók sig til og skrifaði Giljagaur bréf og bað hann um að gefa sér Bakugan í skóinn...menn farnir að vera með kröfur á skógjafirnar ;)


Um síðustu helgi var svo jólatréið valið en við vorum svo heppin að fá að fljóta með Hildi frænku og vinnunni hennar upp í Kjós. Þar fengum við heitt súkkulaði og fínerí með því, hittum jólasvein og sprelluðum með honum...og fundum svo hið eina rétta tré. Það er samt óhætt að segja að pabbinn á bænum hafi "púllað" smá Chevy Chase á þetta þar sem jólatréið er dulítið hærra en lofthæðin í íbúðinni leyfir. En við tökum bara aðeins neðan af því.

Haukur Máni var alveg dáleiddur af sveinka og reyndi að komast sem næst honum og svaraði öllu sem hann sagði með jái, voða krúttlegt ;) Elvar Orri var valinn til að leika prinsinn í Þyrnirósa og Hildur frænka var galdrakerlinginn. Þau stóðu sig bæði ansi vel en Elvar Orri var þó aðeins kraminn yfir athyglinni og vildi helst ekki sitja of nálægt Þyrnirósinni..hvað þá að kyssa hana!

Nú er verið að dunda sér að skreyta og ætlar Elvar að sjá um að finna sínu jóladóti pláss. Þá er líka búið að föndra heilan helling og er drengurinn ansi flinkur með skærinn þegar kemur að því að búa til stjörnur og snjókorn. Haukur Máni er líka hrifinn af klipperíinu og vill vera með, setur á sig naglbítasvipinn og rífur og klippir með mestu ró :)Hann er líka alveg með á hreinu að skæri eru ó ó....en bara fyrir mömmur. Hann var ekkert á því að lána kellu skærin og sagði henni bara að þetta væri ó ó og bara hann mætti nota þau ;)

Jæja, reynum nú að dúndra inn myndum af jólasveinunum okkar fljótlega.
Bestu kveðjur frá Sköftunum :)

08 desember 2010

Allt gott að frétta af sköftum..

...og jólafiðringurinn farinn að gera vart við sig. Elvar Orri elskar jólin og segist löngu kominn í jólaskap. Haukur Máni er svona að átta sig á öllu þessu stússi en skellir stundum á sig jólasveinahúfu og gólar "hóólaseeinn, hóólaseeinn" ...enda leitun að öðrum eins jólasveini ;)

Það er mikið um að vera í leikskólanum og skólanum þessa dagana. Haukur Máni er búinn að baka piparkökur og verður fjölskyldunni boðið að koma og smakka á fimmtudaginn. Hann fékk að taka með sér svuntu og kökukefli og var voða ánægður með sig. Hjá Elvari Orra er ekki byrjað mikið jólastúss í bekknum enda hafa þau verið á kafi í spennandi verki um líkamann...og ljúka því verkefni í dag. Foreldrasettið ætlar að arka í Háteigsskóla í dag og snæða hangiket með syninum og fá svo að sjá sýningu á flotta verkefninu.

Pabbinn á bænum er búinn að standa sig vel í jólabakstrinum, með dyggri aðstoð sonanna...sérstaklega við smakkelsið. Þeir feðgar bökuðu og skreyttu piparkökur og einnig var skreytt forláta piparkökuhús sem við keyptum í Kosti, en það finnst Elvari Orra vera besta búðin í bænum ;)

Nú er hafinn sá tími sem í gegnum tíðina hefur valdið eldri syninum dulitlu svefnleysi og síðustu tvær nætur hefur hann vaknað eftir martröð og vill koma upp í. Hann viðurkennir reyndar ekki að það sé Grýla sem skelfir hann heldur sé það einhver vera í Simpsons sem Hómer var að hræða börnin sín með. Jammm, hvað sem það er þá er litla hjartað allavega ansi hrætt...

Segjum það gott í bili og gangi ykkur vel í jólastússinu!

22 október 2010

Hér er nú bara orðið rykfallið...

...það er orðið svo langt síðan eitthvað gerðist á síðunni ;)

Spurning um að skella inn smá fréttum af dýnamíska dúóinu í Skaftahlíðinni. Þeir bræður eru ferskir sem endranær og eru báðir lukkulegir í sínum skóla og leikskóla. Haukur Máni færðist upp á eldri deild í haust og er nú á Kattholti og er bara alsæll þar. Elvar Orri stundar námið í 2. bekk og fótboltann af fullu kappi. Hefur verið ansi duglegur að æfa þrusufótinn undanfarið og er duglegur að setja inn mörkinn ;)

Bræðurnir fóru í pössun í byrjun september, þegar foreldrasettið skellti sér til New York, og var það í fyrsta skiptið sem Haukur Máni var án foreldrana lengur en eina nótt. Það var því svoldið erfitt fyrir gamla settið að kveðja en ungherrann stóð sig eins og hetja, undi sér bara mjög vel hjá Stínu frænku og hennar fjölskyldu.

Um mánaðarmótin sept.-okt. var heimilið undirlagt af afmælisundirbúningi og afmælishaldi, það dugði nú ekkert minna en tvær veislur fyrir þriggja ára snúðinn. Hann var náttúrulega ægilega montinn með sig og ánægður með allar fínu gjafirnar sem hann fékk.

Í þessum rituðu orðum er hafið vetrafrí hjá Elvari Orra og múttunni og ætla þau að njóta þess að dúllast saman í dag. Embla Ýr frænka er líka í vetrarfríi og fékk að gista í nótt og nú dunda þau frændsystkinin við að byggja púða/sængurhús í stofunni....mikið stuð ;)



Fyrsti dagurinn í vetrarfríinu var reyndar í gær hjá Elvari og áttu þeir pabbinn góðan dag saman...fóru í klippingu, skelltu sér í keilu og höfðu það huggulegt. Á mánudaginn er svo ætlunin að gefa Hauki Mána frídag og þá ætlar fjölskyldan að dúllast saman allan daginn :) Yndislegt að fá svona frí til þess að hlaða batteríin.



Segjum þetta gott í bili, vonum nú að hér kíki enn einhver inn ;)

Knús úr Skaftahlíðinni :*

13 ágúst 2010

Stubbafréttir...

Það var stoltur lítill kall sem sofnaði með kisu-límmiða á höndinni áðan...búinn að pissa tvisvar sinnum í klósettið í dag og fékk límmiða fyrir frammistöðuna. Og svo talar hann og talar eins og hann fái borgað fyrir það...mjög mikið að gerast í málþroskanum þessa dagana. Hann verður fermdur áður en við vitum af ;)

Nýtt júlí-albúm:


p.s. endilega kvittið í gestabókina, okkur finnst svo gaman að sjá hverjir eru að kíkja á okkur :)