Jæja, við höfum nú ákveðið að klára ferðasöguna frá Indlandsferðinni ... ágætt að skrásetja þetta meðan ferðin er okkur enn í fersku minni.
Síðustu tveir dagarnir okkar í Delhi gengu ágætlega. Við reyndum að taka því rólega á hótelinu og knúsast í gaurnum okkar. Ferðalagið til Delhi sló hann aðeins út af laginu, hann var frekar lítill í sér og var ekki alveg á því að leyfa pabba sínum að hugsa um sig. Sennilega hefur hann verið rétt að byrja að fóta sig í Kolkata þegar honum er skellt í annað ferðalag og á nýtt hótel. Hann borðaði samt alveg vel og svaf ágætlega og var alltaf meira en til í að fá pelann sinn...og setti svo upp svaka skeifu um leið og pelinn var búinn ;) Svo pöntuðum við bara hrísgrjón upp á herbergi fyrir hann...spurning hvort þjónarnir hafi nokkuð haldið að við værum svona nískir túristar sem eta bara hrísgrjón?
Á þriðjudeginum 20. jan. ákváðu Munda og Arnar að fara á Khan markaðinn, sem Arnar hafði farið á deginum áður og notuðust við sama fararmáta og hann gerði; tuk-tuk. Arnar ætlaði að athuga hvort hann fyndi ekki matvöruverslun þarna til að kaupa barnamat og aðrar nauðsynjar. Á Kahn market var að sjálfsögðu að finna verslun sem seldi barnamat og náðum við að birgja okkur vel upp af alskyns gúmmulaði fyrir matargatið.
Á meðan dunduðu mæðginin sér á hótelinu, stubburinn tók sér góðan lúr og var bara nokkuð sáttur. Þegar Arnar og Munda komu til baka fóru Magga og Munda á sama markað með tuk-tuk. Ég (Magga) hafði aldrei farið í svoleiðis, hvorki í fyrri Indlandsferð né núna, svo ég gat nú ekki látið það gerast að fara frá Indlandi í annað sinn án þess. Þetta var ákveðin stemmning og nokkuð hentugt að bruna um göturnar á þennan máta. Bílstjórinn reyndi auðvitað að segja okkur frá miklu betri markað heldur en Khan markaðnum (auðvitað ;) en við vorum harðákveðnar í að fara þangað svo hann skilaði okkur á réttan stað og fyrir það borguðum við heilar 10 rúpíur. Við röltum aðeins um en versluðum lítið enda er þetta meira svona nútímalegri og vestrænni markaður. En bókabúðin þarna er mjög flott og ef töskur og aukakíló hefðu ekki verið farartálmi hefðum við nú keypt slatta af bókum þarna. Svo skelltum við okkur upp á hótel og í þetta sinn borguðum við 50 rúpíur fyrir farið, sem er svo sem ekki mikið.
Um kvöldið fórum við að borða á Pickwicks, einum af veitingastöðunum á Claridges, sem býður upp á nokkuð hefðbundin mat. Það eru mjög flottir veitingastaðir þarna en við komumst bara ekki yfir að prufa þá alla. Það voru fáir á veitingastaðnum enda vorum við seint á ferðinni svo við höfðum svo til alla þjónana til að snúast í hringum okkur. Somdip var nokkuð sáttur, sat eins og fínn maður í barnastól. Þjónarnir voru mikið að kjá framan í hann og sýndu honum mikinn áhuga. Maturinn bragðaðist vel en þegar kom að eftirrétt var fyrrnefndur drengur búinn að baka sinn eigin eftirrétt, ef svo má að orði komast, og hann og móðir hans þurftu að bregða sér upp á hótelherbergi til að sinna þeirri aðgerð. Á meðan beið hennar gómsætur ís...já það er stuð að vera kominn aftur í kúkableyjubransann ;)
Miðvikudagurinn, síðasta deginum okkar í Delhi, leið alltof fljótt og að mörgu leyti vorum við ekki tilbúin til að kveðja Indland alveg strax en samt alveg meira en tilbúin til að komast heim...enda margt skemmtilegt sem beið okkar þar, eins og að knúsa stóra drenginn okkar, hefja nýtt líf sem fjögurra manna fjölskylda og njóta þess að vera saman.
Það lá vel á Somdip þennan dag og hann var nokkuð jákvæður í garð pabbakallsins síns...okkur grunar að þetta bakslag hafi verið til komið vegna þess að hann hefði aftur orðið svo óöruggur við flakkið og sett allt sitt traust á eina manneskju til að hafa einhverja festu. Það er ansi mikið á þennan litla kropp lagt. Við ákváðum að prufa að fara með hann í ríkisreknu minjagripabúðina og sjá hvernig hann höndlaði það. Það gekk eins og í sögu og hann var mjög rólegur allan tímann, fannst fínt að sitja í kerrunni sem við tókum með og endaði með að sofna í henni eftir að hafa fengið sér smá pelasopa. Við gátum nú eitthvað aðeins bætt í töskurnar þarna en sáum svo mikið af flottum hlutum sem myndu sóma sér vel í íbúðinni en flestir alltof þungir og stórir...ferlega svekkjandi að geta ekki verslað að vild ;)
Leigubílstjórinn sem keyrði okkur í minjagripabúðina var mjög fínn, en byrjaði auðvitað sama "ég-veit-um-betri-markað sönginn". Sagði okkur frá "fínum" markað sem heitir Mughal bazaar og þar væri fínt að versla og fullkomlega öruggt en hins vegar væri stórhættulegt að fara á markaðinn við Janpath (sama gata og ríkisrekna búðin stendur við). Þar yrði maður örugglega rændur og sennilega svindlað á manni í þokkabót ;) Þetta sagði hann okkur á leiðinni í ríkisreknu búðina en við héldum okkar striki og eftir að hafa verslað þar ákváðu Magga og Munda að prufa að labba smá á Janpath á meðan Arnar, Somdip og bílstjórinn fóru í bílinn. Þetta reyndist nú bara fínindis markaður, sennilega rétt samt hjá honum að þarna væru vasaþjófar þó við rækjumst ekki á þá. En það var hægt að gera kostakaup þarna ef maður prúttaði. Við keyptum ekkert en sáum margt flott og þegar við spurðum út í verð á einhverju og hristum höfuðið yfir uppsettu verði var kallað á eftir okkur "Any prize you like madam!" Nú sjáum við líka mikið eftir að hafa ekki farið fyrr þangað og verslað þar áður en við fórum í ríkisbúðina. Við sáum flottar grímur á veggina sem hefðu fengist á slikk en keyptum ekki...og nú dauðsjáum við eftir því. Ekki í fyrsta inn sem við sjáum það að ef maður sér eitthvað í útlöndum sem manni langar í á bara að skella sér á það.
En já Magga og Munda sluppu sem sagt inn í leigubíl aftur heilar á húfi, reyndar eitthvað af betlurum og götusölufólki á leiðinni en nú erum við orðin svo sjóuð í þessu að það er hætt að bögga okkur eins mikið. Götusölufólkið er assgoti þrautseigt, reyndi að selja okkur hálsfestar og bara hætta ekki að bjóða heldur suða og suða í manni...og staðsetningin hjá þeim var ansi góð: Sátu við götuna þar sem við þurftum að bíða eftir grænu ljósi til að komast yfir og það tók langan tíma að fá græna kallinn...úff. Þegar við komum til baka voru þau enn þarna og héldum áfram, ungur strákur hékk næstum á Mundu með hálsfestarnar þar til hún sagði ákveðið "No, thank you!", þá sagði hann bara "Yes, thank you!" en gafst svo upp.
Á meðan Magga og Munda börðu frá sér unga drengi var Arnar að gera voða góðan díl við leigubílstjórann okkar, sem í ljós kom að hét Satnam. Hann sagðist myndi keyra okkur á flugvöllinn fyrir miklu minni pening en hótelið myndi rukka. Það varð úr að munnlegur samningur var gerður og hann myndi vera klár kl. 10 um kvöldið. Hann vildi einnig endilega koma okkur á Mughal bazaar og eftir að hann skutlaði okkur á hótelið ákváðum við að hann mætti sækja okkur kl. 5 til að fara þangað. Í millitíðinni slöppuðum við af uppi á hóteli og tróðum í ýstruna á barninu.
Stundvíslega kl. 5 var haldið áleiðis á Mughal bazaar sem við héldum að samanstæði af sölubásum þar sem fólk væri að selja alskyns muni. Í ljós kom að þetta var bara minjagripabúð þar sem þeir sem koma með ferðamenn þangað fá einhverja greiðslu fyrir. Við gengum inn í gin ljónsins, vorum þau einu þarna inni og voru sirka 5 sölumenn á hvert okkar. Og byrjaði þá showið. Tínt var úr öllum hillum og okkur margbent á alla hluti. Þetta var í raun svo fyndið að á einum tímapunkti flissaði Arnar og sagði við einn: "You never stop do you ?" ... Ekki stóð á svarinu: "No, thats bad for business!"
Við enduðum náttúrulega á því að kaupa svolítið hjá þeim en einsettum okkur að prútta sem mest við gætum. Þessi búð var mjög svipuð þeim sem við höfðum lent í í fyrri Indlandsferðinni, þangað sem leiðsögumennirnir okkar fóru með okkur og við fengum hvert teppasjóvið á fætur öðru. Þetta var þó öllu léttari upplifun þar sem við ákváðum bara að vera hörð við þá og láta ekkert spila með okkur...en óneitanlega svimar manni dulítið þegar hverju sjalinu, dúknum, o.s.frv., er veifað framan í mann af ca. 10 sölumönnum. Þegar við sluppum út mættum við tveimur vestrænum túristum sem voru að renna í hlað með tuk-tuk bílstjóra og Arnar stóðst ekki mátið að segja við þá "Good luck in there". Við það kom smá hik á mennina og þeir brostu kindarlega áður en þeir hurfu inn í stuðið.
Eftir þessa kaupraun báðum við Satnam um að fara með okkur á markað sem heitir Dilli Haat. Þar safnast saman handverksfólk frá öllum héruðum Indlands og selur handverk sitt. Þetta reyndist vera hinn ágætasti markaður, hann er lokaður og maður borgar 15 rúpíur inn á hann og fær því smá pásu frá betli. Við náðum að kaupa svolítið af handverki en þegar þarna var komið var svo stutt í að við þyrftum að fara út á flugvöll að við urðum að drífa okkur upp á hótel.
Satnam keyrði okkur upp á hótel og sagðist myndi bíða fyrir utan kl. 10 til að fara með okkur á flugvöllinn. Þegar við vorum á fullu gasi að pakka niður í töskurnar áttuðum við okkur á því að við vorum bara með tvær bleyjur eftir fyrir Somdip. Því hljóp Arnar af stað og fékk Satnam, sem var jú að bíða eftir okkur, til að keyra með sig á Kahn Market til að kaupa bleyjur. Þessi bleyjukaupaferð var farin á algjörri ofurkeyrslu, hlaupið inn og út úr búðinni og keyrt með pinnan í botni (eða eins og hægt er í umferðinni í Delhi). Talandi um reddingu á síðustu stundu ;) Þegar upp á hótel var komið áttum við eftir að ganga frá síðustu spjörunum ofan í töskur og Arnar átti eftir að fara í sturtu og því fór svo að við vorum um 15 mínútum á eftir áætlun niður í lobbý.
Satnam var klár með bílinn og skutlaði þremur risatöskunum upp á þakgrind bílsins og batt smásnæri í kringum til málamynda. Svo var keyrt út af hótellóðinni og stuttu síðar hittum við bróður Satnam á sínum leigubíl og hann tók farangurinn af þakinu og skellti í bílinn hjá sér. Þetta var einhver barbabrella hjá þeim bræðrum, því samkvæmt Satnam vildi hann ekki að hótelið sæji að við værum að nota tvo bíla ... eitthvað með að þeir yrðu svo fúlir með að missa viðskiptin við hótelbílana. Annað hvort heldur þessi skýring vatni eða þá að bræðrunum leist betur á að við borguðum tvo bíla á flugvöllinn frekar en einn! Hins vegar vorum við ekkert að stressa okkur á þessu, við vorum ekkert sérstaklega spennt yfir því að hafa farangurinn hossandi uppi á bílþaki alla leið á völlinn.
Við kvöddum svo þá bræður með virktum á flugvellinum og héldum okkar leið í innritun og í gegnum öryggistékk. Ekki var nú mikið mál að fara í gegnum vegabréfaeftirlitið með Somdip, vörðurinn fletti til málamynda í gegnum dómspappírana, geispaði og stimplaði okkur svo út úr landi.
Flugferðin með KLM gekk afskaplega vel, við fengum að færa okkur í lausa sætaröð og litli kútur fékk sér sæti þar sem hann svaf vært, með smá góli vegna þrengsla af og til, nánast alla leiðina til Amsterdam. Eftir lendingu þar tók við löööööng bið í 8 klukkutíma. Sem betur fór er aðstaðan á Schiphol flugvelli betri en á ýmsum öðrum flugvöllum sem við höfum komið á. Það reyndi samt svolítið á að bíða í alla þessa tíma enda vorum við illa sofin. Munda var með aðgang að priority lounge og þar var voða notalegt að vera, hlýtt og gott og ókeypis drykkir og hressing. En þar sem stubbur var ekki alveg á því að lúra sig strax ákváðum við að fara með hann út svo fólk gæti hvílt sig þarna inni. Við ákváðum því að tékka á barnaherbergjunum sem við höfðum lesið um á síðu flugvallarins. Á labbinu þangað sofnaði drengurinn og við gátum lagt hann beint í rimlarúmið í þessu herbergi...afskaplega hentugt allt saman...en hins vegar voru sætin fyrir foreldrana algert grín. Þetta var í raun eitt stórt herbergi með nokkrum rimlarúmum og skilrúmið á milli þeirra var bara efnislufsa. Þarna geta sem sagt foreldrar setið hjá börnum sínum á meðan þau sofa í almennilegu rúmi en gallinn er sá að fyrir þreytta foreldra er nær ógerningur að koma sér vel fyrir á nútímalegum sætunum. Við náðum að tildra annarri rasskinninni í sætin og leggja bífurnar ofan á kerruna og dormuðum þarna í nokkrar mínútur...eða þar til barnið í næsta bás fór að gráta og barnið í þarnæsta bás fór að leika sér með hávaðadótið sitt (ath. þegar hér var komið við sögu vorum við orðin verulega geðill af þreytu og þessi skrif einkennast aðeins af því ;). Jæja eftir þessa raun þrömmuðum við aftur til Mundu og reyndum að eyða síðustu klukkutímunum í að halda okkur vakandi.
Það voru því verulega þreyttir ferðalangar sem skriðu um borð í Icelandairþotuna og aldrei höfum við verið eins glöð að komast um borð í flugvél. Og Icelandair á skilið mikið hrós fyrir breytingarnar á sætunum og afþreyingakerfinu, ansi þægilegt að fljúga með þeim. Flugferðin heim gekk mjög vel og Somdip svaf næstum alla leið og foreldrar og amma gátu hvílt sig vel og horft á bíómynd :) Það var góð tilfinning að lenda á Keflavíkurflugvelli eftir langt ferðalag og enn betra að sjá fjölskylduna okkar sem kom að taka á móti nýjasta fjölskyldumeðlimnum. Sérstaklega gott var nú að sjá stóra strákinn okkar sem beið spenntur eftir langþráðum litla bróðir.
Þar sem þessari ferðasögu lýkur hér með langar okkur til að þakka ykkur enn og aftur fyrir allar kveðjurnar og hlýhuginn á meðan á ferðalaginu stóð. Gaman að sjá hversu margir lögðu með okkur í langferð í huganum :)