19 febrúar 2009

Fjórar vikur!


Í dag eru fjórar vikur síðan við komum heim með lítinn mann. Þessi litli maður var óttalega mikil mús og var ekki alveg viss um hvað væri að gerast í lífinu. Nú er þessi sami litli maður búinn að bæta heldur betur á sig og virðist vera ansi sáttur með hið nýja líf. Það er ótrúlegt að það sé kominn mánuður síðan við komum heim frá Indland og einnig ótrúlegt hversu vel allt hefur gengið...7,9,13 ;)


Annars hefur verið smá ástand á heimilinu síðustu daga, sem byrjaði um síðustu helgi með því að Elvar Orri byrjaði að kvarta um í maganum og kastaði svo upp. Við héldum að þetta væri nú bara ósköp venjuleg ælupest en enduðum svo á mánudag upp á barnaspítala. Þá var hann búinn að vera mjög orkulítill, borðaði ekkert og hafði bara ælt tvisvar sinnum en emjaði hins vegar úr kvölum í maganum. Þeir vildu nú meina að þetta væri hægðatregða, sem okkur fannst skrýtið þar sem hann hefur aldrei átt við nein slík vandamál að stríða. Við fórum svo aftur um kvöldið á spítalann þar sem hann fékk mjög slæmt verkjakast þrátt fyrir hægðatregðumeðferðina fyrr um daginn. Þar var hann skoðaður í bak og fyrir, teknar alls kyns prufur og allt leit vel út. Nema hvað blóðþrýstingurinn var frekar hár, en það gæti hugsanlega verið vegna verkjanna. Við vorum svo send aftur heim með sömu svör, þ.e. að þetta væri líklegast hægðatregða. Hann er svo búinn að vera upp og ofan greyið þessa síðustu daga, fengið mjög slæma verki og verið mjög ólíkur sjálfum sér. Í gær lagðist hann upp í rúm um sex leytið vegna magaverkja og þurfti mamma að liggja hjá honum og strjúka bumbuna og á endanum sofnaði hann...og svaf til níu um morguninn! Okkur fannst þetta frekar óþægilegt...að sjá hann svona orkulítinn og veikan en sem betur fer er hann hressari í dag. Við vonum bara að þessu sé lokið og sennilegast hefur þetta verið rétt skýring á þessum veikindum....okkur datt bara ekki í hug að hægðatregða gæti verið svona erfið viðureignar.

Og svo maður segi nú aðeins fleiri fréttir af stóra stráknum okkar þá fór hann í málþroskapróf hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og kom rosalega vel út úr því, er fyrir ofan meðallag í málþroska. Við teljum nú að það sé að einhverju leyti því að þakka að hér á bæ er alltaf lesið fyrir svefninn og það skiptir greinilega miklu máli. Svo þurfti hann nú að fara í sneiðmyndatöku vegna heyrnaleysisins á öðru eyranu og stóð sig eins og hetja þar. Honum þótti nú bara spennandi að fara í svona geimfar og þegar kom að því að Raggi frændi sprautaði gaurinn kveinkaði hann sér ekkert (hafði reyndar fengið deyfiplástur en það er nú bara aukaatriði ;) Það kom hins vegar ekkert út úr myndunum sem varpar ljósi á heyrnaleysið og spurning hvort okkur tekst yfirleitt að komast að þeim orsökum.

Af hinum gorminum er allt gott að frétta og hann etur sem betur getur...ekkert nýtt þar ;) Hann hefur samt aðeins verið að stríða foreldrum sínum varðandi svefnmálin á kvöldin en það verður vonandi ekki mikið vandamál.

Jæja segjum þessum veikinda og læknasögupistli lokið í bili :) Höfum vonandi frá einhverju miklu skemmtilegra að segja frá næst...spennandi dagar framundan; bolludagur og öskudagur!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef tvisvar sinnum endað á barnaspítalanum með Astrid út af svona magaverkjum. Og viti menn það var hægðartregða. Þetta tók svakalega á okkur foreldrana og er ég orðin mikil "áhugamanneskja" um hægðir eftir þetta, heh ehheh. Nú er t.d. Ísabella að hætta með bleiu og þá fylgist ég extra vel með að það fari ekki allt í stopp hjá henni og heimta skýrslu á hverjum degi í leikskólanum:) Ótrúlega skrýtin mamma heh ehhe

Kv. Ásta

Elvar Orri sagði...

Hehe :) já maður verður extra áhugasamur um þessi mál eftir svona uppákomur. En þetta er ferlega erfitt að horfa upp á og okkur datt bara ekki í hug að þetta gæti verið svona alvarlegt...en alltaf lærir maður eitthvað nýtt.
Bestu kveðjur þín og þinna