29 mars 2010

Páskafrí!

Þá eru Elvar Orri og múttan komin í langþráð páskafrí og ætla sko að hafa það huggulegt saman. Pabbi og Haukur Máni þurfa nú eitthvað að sinna sínum störfum en svo ætlum við að njóta helgidagana með tilheyrandi súkkulaðiáti ;)

Fjölskyldan skellti sér í ferðalag um helgina með stórfjölskyldunni og vinum, fórum í Ensku húsin við Langá. Þar var sko nóg pláss fyrir alla enda höfðum við húsið út af fyrir okkur. Krakkarnir kunnu nú vel að meta að geta leikið sér með látum í þessu gamla húsi...og fullorðna fólkið kunni líka meta að verða ekki gal í hávaðanum, enda húsið svo stórt að vel fór um alla. Veðrið var nú því miður ekki upp á marga fiska, sannkallað gluggaveður...sólskin en hvass norðanbelgingur svo varla var hundi út sigandi, ef einhvern hefðum við haft hundinn ;) En við höfðum það bara gott inni í staðinn, spiluðum, borðuðum góðan mat, spjölluðum, kellurnar prjónuðu og svo stýrði Halldóra bingóstjóri hörkuspennandi páskabingói. Í því bingói fengu allir vinning og vakti það mikla lukku. Ferðin heppnaðist svo vel hjá okkur að við erum að spá í að gera þetta að árlegum viðburði.

Framundan er svo nóg að gera; ferming, árlegur föstudags langa bíltúr, skírn, matarboð...og auðvitað að reyna að hitta skemmtilegt fólk og spila :)

Bestu kveðjur,
Skaftarnir

08 mars 2010

Stuð á kellu :)

Búin að dúndra inn febrúaralbúmi og hef þar með náð í skottið á sjálfri mér.


Nýtt albúm

Var að setja inn albúm úr sumarbústaðaferð okkar í Húsafell. Fórum með Sólu, Braga og börnum í lok janúar og áttum skemmtilega helgi saman :)

Nóg að gera...

...í Skaftahlíðinni sem endranær, enda sjá nú litlu skelfarnir til þess að engum leiðist hér á bæ ;) Elvar Orri er orðinn svo sjálfstæður að hann fór í fyrsta sinn einn í heimsókn til vinar síns, þ.e. hann fékk að labba heim til hans. Móðirin stóð í glugganum og horfði á litla stóra strákinn sinn arka upp Skaftahlíðina...nú þarf hún víst að sætta sig við að menn eru orðnir svoldið stórir :) Hann var líka afskaplega stoltur af þessu og bíður spenntur eftir að fara að geta labbað í skólann sjálfur, foreldrarnir eru nú samt á því að það megi nú aðeins bíða. Elvar Orri hefur alltaf verið félagsvera og nú er það svo að hann tollir ekki mikið heima við, vill helst vera einhvers staðar í heimsóknum eða með gesti hjá sér. Hann er farinn að hringja sjálfur í vini sína og fá að kíkja til þeirra eða bjóða þeim hingað. Þetta er nú svo sem allt gott og blessað en við foreldrarnir værum nú líka til í að hann gæti dundað sér aðeins sjálfur og erum við því eitthvað að þusa í drengnum yfir þessu. Hann svarar því nú bara að honum finnist bara svo gaman að hitta vini sína...og það er nú auðvitað skiljanlegt.

Litla músin á heimilinu hefur átt ósköp bágt síðustu daga, byrjaði á því að kasta upp á miðvikudagskvöldið en reyndist svo vera með streptókokka og skarlatssótt. Hann er enn heima við, var með háan hita í gær en enn sem komið er hitalaus í dag. Okkur finnst þetta nú nóg komið af veikindum þennan veturinn og múttan finnur nú aðeins fyrir því að vera orðin vinnandi móðir...ekki beint gaman að þurfa alltaf að vera frá úr vinnunni. En þetta fylgir víst og ekkert við því að gera. Haukurinn hefur nú verið ansi góður þrátt fyrir vanlíðanina en honum er farið að leiðast og langar mikið til að komast út.

Nú stefnir allt í hörku fótboltasumar hjá fjölskyldunni og fyrsta mótið staðfest en það verður á Akranesi 18. -20. júní. Fyrsta fjáröflun fyrir fótboltastússið er að baki og seldi pilturinn páskaegg, kleinur, flatkökur og snúða. Honum finnst þetta allt mjög spennandi og er búinn að fá flotta æfingatösku frá Landsbankanum til að geyma allt fótboltadótið í. Reyndar vill hann helst fá að druslast með hana í skólann en samþykkti nú með tregðu að hún væri kannski fullstór fyrir eitt handklæði og sundskýlur :)

Biðjum að heilsa í bili,
Skaftarnir