Það eru aldeilis bjartir og fagrir dagar hjá okkur þessa dagana og vonandi verður bara framhald á því. Stóri prinsinn á bænum nýtir þessa daga líka til fulls og vill helst bara vera úti allan daginn. Helstu vandræðin eru þó þau að fá hann til að vera almennilega klæddur því hann og móðirin eru alls ekki sammála um hvort það sé kalt úti eður ei ;)
Foreldrarnir hér á bæ eru afar upprifnir yfir barnaóperunni sem Háteigsskóli setti upp með 1. - 4. bekk og var sýnd í Hallgrímskirkju á miðvikudaginn. Heilmikil vinna sem allir hafa lagt á sig og útkoman frábær. Ömmurnar komu með að sjá og Hössi afi og ekki var laust við að við hefðum þurft að hafa vasaklúta með okkur. Það er bara svo gaman að fylgjast með svona flottum og hæfileikaríkum börnum...sérstaklega sínu eigin ;) Elvar Orri hafði líka svo gaman af þessu og stóð sig svo vel. Það var líka gaman að sjá hversu alvarlegur hann var þar sem hann stóð í hópnum og fylgdist vel með öllu. Eina sem hann kvartaði undan áður en hann fór í skólann um morguninn var að hann fengi ekki að segja neitt einn, bara með hópnum. Já menn hafa sko metnað ;)
Sumardagurinn fyrsti var góður hjá Skaftahlíðarfjölskyldunni. Pabbinn var reyndar á næturvakt og fékk að lúra fram á hádegi en Embla Ýr frænka fékk að gista hjá Elvari og þau tvö eru nú alltaf í stuði. Enda voru þau vöknuð fyrir klukkan sjö um morguninn sem þykir nú frekar óguðlegt hér á bæ ;) Þau voru svo komin út að leika um tíuleytið og fengust rétt svo inn til að fá sér eitthvað í gogginn um eittleytið. Haukur Máni og mútta röltu út til þeirra til að viðra sig aðeins og múttan var að frjósa allan tímann þrátt fyrir að vera vel klædd. Ungviðið hins vegar hamaðist og hamaðist húfulaust og á peysunni og kunni því bara vel ;)
Við fórum svo niður á Miklatún um miðjan daginn en þar var sumargleði í gangi, hoppukastalar (sem Elvari Orra þótti nú frekar litir), andlistmálning og fleira. Þar var líka hægt að taka þátt í Unicef hlaupinu og gerðu frændsystkinin það. Eftir góðan tíma þar var haldið heim á leið. Stína frænka og Mummi (foreldrar Emblu Ýrar) tóku svo öll börnin með sér og foreldrasettið nýtti tímann í að gera reddí fyrir svakalega grillveislu...fyrstu grillveislu sumarsins.
Svo fylltist húsið af góðum gestu, afi og amma og systkini múttunnar, þeirra makar og börn. Á boðstólum voru Gordon Ramsay borgarar, laukhringir, franskar og ostakaka...og tilbehor. Við borðuðum auðvitað á okkur gat...en ekki hvað?...og áttum góða kvöldstund saman.
Helgin sem framundan er er velþétt eins og þær vilja oft verða, en í þessum skrifuðu orðum er Elvar Orri að keppa í fótbolta í Keflavík. Framundan er svo Indlandsvina hittingur, en það er orðið svo langt síðan Elvar Orri fékk að hitta þær vinkonur sínar Maríu og Sigrúnu. Svo á að skella sér á Hamborgarafabrikkuna í kvöld í tilefni af afmæli Hössa afa. Á morgun er pabbakallinn að vinna en rétt sleppur af vaktinni til að mæta í fermingarveislu. Alltaf nóg að gera hér á bæ :)
Segjum þetta gott í bili, reynum að skella inn myndum fljótlega.
Eigið góða helgi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli