...hefur verið mikið að gera hjá Sköftunum. Skagamótið og afmælisundirbúningur lögðu meirihlutann af júní undir sig og hefur því verið mikið stuð á okkur síðustu vikur.
Elvar Orri stóð sig vel á Skagamótinu og foreldrunum fannst virkilega gaman að fylgjast með fótboltaguttanum sínum. Hann vann líka sína persónulegu sigra þessa helgi; að sofa í skólanum með strákunum...án þess að sjúga puttann fyrir svefninn ;) Það hafði nefnilega valdið honum þó nokkrum áhyggjum að gert yrði grín að honum fyrir að sjúga puttann. Það var því stoltur strákur sem tilkynnti foreldrunum að hann hefði ekkert þurft að sjúga puttann!
Svo varð okkar maður sjö ára, þann 21. júní og við héldum auðvitað upp á það með pompi og prakt. Fyrst var haldið bekkjarafmæli og síðan voru vinum og fjölskyldumeðlimum skipt upp í tvö holl og haldin sitt hvor veislan :) Það hefur því verið mikið um bakstur og afmælispælingar hjá okkur. Elvar Orri var líka með ákveðnar skoðanir á því hvernig afmæliskakan ætti að vera; hann langaði í Joe Boxer köku...sem sagt broskalla-köku. Hún tókst nú bara ljómandi vel og vakti lukku hjá pilti. Foreldrarnir fengu svo aðeins að ráða því hvernig næstu kökur yrðu...nema þegar kom að því að baka kökuna fyrir síðustu veisluna, þá var hann harðákveðinn í því að hann vildi fá mynd af sér...hann hafði séð þetta í einhverri veislunni og fannst þetta afskaplega sniðugt :)
Foreldrunum finnst voða gaman að undirbúa og halda afmælin fyrir ungana sína en eftir þessar þrjár veislur í júní finnst þeim bara ágætt að næsta barnaafmæli sé ekki fyrr en í október ;)
Haukur Máni hefur nú verið nokkuð rólegur yfir þessu stússi...hefur þó reyndar tekið fullan þátt í afmælisfjörinu en hann á það til að vírast allverulega upp þegar mikið er af krökkum í kringum hann. Hann fær líka töluverða athygli frá krökkunum og stundum jaðrar það við áreiti...hann er bara svo ómótstæðilegur ;)...en þetta getur verið of mikið fyrir litlu jarðýtuna okkar, sem bregst þá því miður við með því að klípa og slá. Hann kann nú bara langbest við sig í rólegheitunum heimavið, það var t.d. ósjaldan sem heyrðist í honum "heim" á skagamótinu...var ekkert að nenna þessum þvælingi :) Nú er bara spurning hvernig hann tekur því þegar við bregðum undir okkur ferðalagafætinum...
Haukur Máni hefur sýnt miklar framfarir í málinu undanfarið, er farin að setja saman þriggja orða setningar og er mikið að þreifa sig áfram. Margt af því sem hann segir er alger "Hauk-íska"...en foreldrarnir skilja nú sinn mann.
Elvar Orri og mútta eru saman í sumarfríi þessa dagana og bíða spennt eftir því að pabbi og Haukur Máni fari í frí því þá ætlum við í paradísina okkar: Dýrafjörðinn! Elvar Orri er orðinn óþreyjufullur að komast þangað...sagði meira að segja við foreldrana að hann myndi bara fara með ömmu og afa ef foreldrarnir myndu ekki drífa sig af stað ;) En við stefnum nú á að fara í byrjun júlí, þá er pabbinn kominn í frí...svo Elvar Orri getur vonandi beðið rólegur þangað til.
Jæja, segjum það gott í bili...erum að dunda við að setja inn myndir.
Njótið sumarsins!
1 ummæli:
Hæ hæ alltaf gaman að skoða myndirnar ykkar, verið dugleg að setja inn myndir í sumar :-)
Knús Stína frænka
Skrifa ummæli