09 ágúst 2010

Ferðalög og flakk...

Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið síðan síðast enda fjölskyldan búin að vera í fríi saman. Við höfum verið dugleg að flakka og erum tiltölulega nýkomin úr tveggja vikna vist í Dýrafirðinum. Við vorum búin að skjótast þangað fyrr í sumar í smá skreppu...til fylgjast með framkvæmdunum í Gröf. Það var því ansi spennandi að koma aftur og sjá hvernig þessu miðaði. Við erum ansi lukkuleg með nýbygginguna...nú "eigum" við okkar eigið herbergi á þessum dásemdarstað og ekki laust við að maður fái víðáttubrjálæði við þessa stækkun :)



Við tókum með okkur fellihýsið í ferðalagið og dóluðum okkur á leiðinnin vestur, með Mundu ömmu og Hössa afa. Stoppuðum á Tálknafirði á flotta tjaldsvæðinu þar, mælum hiklaust með því. Þar gátum við nú skoðað ýmislegt og gátum nú loks merkt við að hafa séð Rauðasand...var búin að vera lengi á listanum ;) Sá staður stóð alveg undir væntingum og verður pottþétt heimsóttur aftur.

Eftir tveggja nátta stopp á Tálknafirði héldum við svo í fjörðinn okkar og fylgdumst með smiðunum klára sitt verk, sváfum bara í fellihýsinu á meðan en gátum svo loks flutt inn í svítuna. Fyrir verslunarmannahelgina byrjuðu svo ættingjar og góðvinir fjölskyldunnar að þyrpast að og saman áttum við frábæra helgi. Elvar Orri var búinn að bíða spenntur eftir þessari helgi og það fyrsta sem hann sagði þegar hann vaknaði á laugardagsmorguninn var "Gleðilega verslunarmannahelgi!"...og hann naut sín sko í botn, lék sér við krakkana og saman voru þau öll eins og villibörn sem hurfu inn í skóginn og sáust bara til að sækja sér fæðu endrum og eins.

Á meðan dundaði sá yngri sér vel, var eins og kóngur í ríki sínu þar sem hann dubbaðist á milli sandkassans og rólunnar...stundum með smá viðkomu hjá bílunum eða fjórhjólunum, enda þurfti stundum að skella sér á bak við stýrið og brumma smá. Hann eignaðist líka góða vinkonu þessa helgina, Mandý vinkona Halldóru frænku heillaði hann upp úr skónum og sáust þau leiðast um svæðið. Mandý er að vísu aðeins eldri en Haukur Máni svo óvíst er hvort um frekari samband verði að ræða en við dáðumst að því hvað hún nennti að stjana við prinsinn og ýta honum í rólunni...en Haukur Máni getur setið tímunum saman í rólu ef einhver nennir að ýta ;)

Á þessu litla árlega ættarmóti okkar hefur tíðkast börnin fái að koma upp og syngi eða dansi á kvöldvöku og þetta árið ákvað Elvar Orri að syngja lagið Wavin´Flag og gerði það með prýði...hann var alveg á mörkunum með að þora en ákvað að ögra sjálfum sér og stökkva upp á "svið" og voru foreldrarnir mikið stoltir af sínum manni.

Þetta er nú bara brotabrot af öllu því sem dundað var í þessari ferð og eftir að í bæinn kom þurfti pabbakallinn að fara að vinna. Mútta og snáðarnir eru því búin að hafa það rólegt heima við...ja rólegt og ekki rólegt...synirnir eru nú svo sem ekki þekktir fyrir neina lognmollu ;) Einnig var þvottafjallið dálaglegt eftir þessa ferð og það tekur nú tíma að vinna á því...Nú og svo er verið að plana að skella sér bara aftur vestur á næstu dögum, enda er bara frábært að vera í dalnum okkar og þar viljum við eyða sem mestum tíma, frábært að fylla aðeins á tankana fyrir haustið.

Skellum myndum inn fljótlega...það vantar sko ekki að það hafi verið teknar myndir :)

Bestu kveðjur frá Sköftunum

Engin ummæli: