19 desember 2008

Er þetta sætt eða er þetta sætt ?




....þennan sæta jólaglaðning vorum við að fá ásamt þeim upplýsingum um að hann væri orðin 8kg og 250gr og 73cm langur.

Við erum í skýjunum og eigum bágt með okkur að rjúka ekki bara beint upp í flugvél og sækja hann....

16 desember 2008

Jibbíjeiii....

...við erum loks orðin löglegir forráðamenn Hauks Mána Somdips! Fengum þær fréttir á föstudaginn að dómur væri fallinn. Þetta var sem sagt síðasta skrefið í ferlinu...tja svona næstum því...nú á bara eftir að útbúa vegabréf fyrir herra litla prins og drífa sig út að sækja hann! Ef allt gengur að óskum ættum við að vera á leið til Indlands um miðjan janúar...þannig að nú þarf að fara að bretta upp á ermarnar í undirbúningnum. Mömmunni á þessum bæ langar eiginlega hlest til þessa að vera bara að dunda sér við að þvo barnafötin frekar en að baka fyrir jólin :)

Annars hefur það sem af er aðventunar algerlega þotið hjá og við höfum notið hennar vel. Elvar Orri nýtur þess að baka með okkur, eða öllu heldur að eta deigið, og hann er líka mjög hrifinn af öllu jóladótinu. Hann fékk að hjálpa mömmu að taka upp jólasveinasafnið og grátbað mömmu að gefa sér eitthvað af þessu fínerí...honum fannst það frekar ósanngjarnt að hún ætti svona mikið en ekki hann ;) Síðan hefur nú eitt og annað bæst í safnið hans og hann er svo ánægður með sitt eigið skraut. Hann fékk rosalega fínan hnotubrjót frá Steinunni ömmu og Sigga af þegar þau komu heim frá Þýskalandi og átti hann þá tvo slíka. Hinn fékk hann í Edinborg og þegar hann fékk þennan nýja gekk hann með þá tvo um allt hús eins og þetta væri fjársjóður....ægilega krúttlegt.

Nú og svo var Stekkjastaur svo sætur að gefa honum jóla-snjókúlu og hún vakti mikla lukku. Það varð því mikil sorg þegar hún datt í gólfið og brotnaði. Við brugðum því á það ráð að skrifa bréf til Þvörusleikis og athuga hvort hægt væri að fá nýja....bréfið skrifaði pabbi eftir Elvari Orra:

Kæri Þvörusleikir
Jólakúlan brotnaði! Mér fannst leiðinlegt að hún brotnaði. Geturðu gefið mér aftur svona? Ég lofa að passa að hún brotni ekki. Lofa þú að missa hana ekki í snjóinn! Þú verður að fara varlega.
Þinn vinur,
Elvar Orri

Og viti menn, þetta virkaði! Þvörusleikir hefur greinilega beðið bróðir sinn, Pottaskefil, um að koma kúlunni til skila því í morgun þegar prinsinn vaknaði beið hans afskaplega falleg kúla. Reyndar ekki alveg eins....en flott engu að síður. Þetta er svo sannarlega skemmtilegur tími fyrir smáfólkið, ekki leiðinlegt að fá gott í skóinn á hverjum degi frá sveinunum...það er verst með hana mömmu þeirra. Hún er ekki mjög vinsæl á þessu bæ...þrátt fyrir að hún búi til góð grýlukerti! Það kemur þvílíkur skelfingarsvipur á okkar mann ef minnst er á hana og kvöldið sem fyrsti jólasveinninn átti að koma þorði Elvar ekki inn í herbergið sitt og þurfti helst að fá fylgd um allt hús ;) Hann tók það samt fram að hann væri ekki hræddur við jólasveinana...bara mömmu þeirra! Það þarf varla að taka það fram að hann hefur ekki sofið í sínu herbergi síðan 11. desember ;)

Hér eru svo jólalögin sungin út í eitt, þ.e. þessi týpísku jólaballslög. Elvar Orri er mjög duglegur að syngja og kann þau vel flest. Enda var rosalega gaman að fara á fyrsta jólaballið okkar þetta árið. Við fórum á nefnilega á jólaball leikskólans um síðustu helgi og buðum Emblu Ýr og Stínu með. Elvar hafði rosalega gaman af því að dansa í kringum jólatréið og syngja með jólasveinunum....ólíkt fyrri jólaböllum þar sem hann var meira fyrir að renna sér á maganum niður stigann og bara almennt að tröllast ;)

Jólakveðjur úr Skaftó...hó hó hó :)


29 nóvember 2008

"Ég trúi á Grýlu á jólunum!" segir lítill snúður um leið og hann bryður grýlukerti sem hann hafði krækt sér í. Þegar móðir hans hváir við kemur útskýringin: "Já af því hún býr til svo góð grýlukerti!". Já Grýla er greinilega tekin í sátt á þessum árstíma....yfirleitt má nú ekki minnast á hana án þess að það komi skelfingarsvipur á snúðinn :)

Jólaskapið er svona að færast yfir mannskapinn þessa dagana...Elvar hefur reyndar spurt í hvert sinn sem það hefur snjóað hvort það séu komin jól. Hann var búin að bíta í sig að snjórinn kæmi á sama tíma og jólin og fannst þetta nokkuð ruglandi :)

Hann var nú líka ansi glaður þegar mamma og pabbi drifu upp seríur í herbergið hans, enda hafði hann tilkynnt mömmu sinni það nokkrum dögum áður að það væri ekki orðið neitt jólalegt í sínu herbergi. Snúðurinn ljómaði því jafn fallega og seríurnar þegar foreldrarnir voru búin að skella seríunum upp og nú sofnar hann vært í birtunni frá ljósunum.

Ásamt því að vera byrjuð að undirbúa jólin erum við á fullu við að finna út hvernig best er að koma sér út til Indlands þegar kallið kemur...og við vonumst til að það komi í fyrripart janúar. Það er alger frumskógur að finna út hvaða leið sé hentugust, bæði peningalega og tímalega séð, og hvar sé nú best að millilenda...en það er nú líka gaman að dúlla sér við þetta og láta sig dreyma um að hitta loks litla prinsinn sinn :)

Jæja, segjum þetta gott í bili. Ritarinn ætlar að halda áfram að setja upp jólaljós í barnlausu húsi. Elvari Orra var boðið að gista hjá Höskuldi Ægi og Emblu Ýr og hann þáði það med det samme!

08 nóvember 2008

Einu skrefi nær...

....því að fá litla molann heim! Við fengum loks þær langþráðu fréttir að við værum búin að fá svokallað NOC-bréf (No objection certificate). Næst fer svo málið fyrir dóm og því næst verður lagt í að útbúa vegabréf fyrir Hauk Mána Somdip Arnarsson :) Þetta lítur sem sagt allt saman vel út en líkurnar á að fara út fyrir jól eru ekki miklar. Hins vegar er mjög líklegt að við leggjum í hann fyrripart janúar. Nú bíðum við eftir að fá jafnvel nýjar myndir af litla stubb, gæti gerst á næstu vikum. Við fengum eina mynd af honum í október en megum í raun ekki setja myndir af honum á netið strax...best að fylgja öllum reglum varðandi það :) En það var æðislegt að sjá svona nýja mynd og sjá hvernig hann dafnar...afskaplega flottur drengur með falleg forvitin augu...

Við erum sem sagt ansi kát þessa dagana og erum handviss um að tíminn fram að jólum eigi eftir að líða hratt eins og venjan er með þessa mánuði. Við erum svona aðeins að byrja á jólaundirbúningi, ágætt að vera snemma í því (erum samt kannski ekkert rosa snemma í því?). Lífið gengur að öðru leyti sinn vanagang hér í Skaftahlíðinni, pabbinn stundar sína vinnu, mamman tók að sér forfallakennslu fram að fæðingarorlofi og stóri gaurinn okkar (ekki hægt að kalla hann litla barnið lengur ;) er ánægður í sínum leikskóla ásamt því að stunda fimleika og fótbolta. Við erum líka að reyna að vera dugleg að bjóða vinum heim og einnig er Elvar farinn að fara í heimsókn sjálfur til vinkonu sinnar sem býr í næsta stigagangi.

Svo kom nú að því að drengurinn færi loks í 5 ára skoðunina...það dróst aðeins hjá okkur :o) Hann mælist nú 107 cm og er 16,6 kíó...nettur drengur...en samsvarar sér vel. Að lokum þurfti svo að sprauta stubbinn...hann varð aðeins skelkaður en stóð sig eins og hetja...heyrðist ekki í honum þegar stungan kom og bara eitt "Áiii" þegar vökvanum var dælt inn. Menn voru líka svoldið ánægðir með sig eftir þetta...að hafa farið í gegnum sprautu án tára ;)

Segjum þetta gott í bili og sendum bjartsýniskveðjur til ykkar allra :)

p.s. vorum að bæta við myndum í októberalbúmið...héldum smá hrekkjavökuteiti og þetta eru myndir frá því...mikið stuð :)

14 október 2008

Nýjar (gamlar) myndir...


...við erum enn að reyna að ná skottið á okkur með myndirnar og vorum að setja inn myndir frá verslunarmannahelginni. Settum líka inn myndir frá Edinborgarferðinni og mömmunni á þessum bæ finnst sko ekkert leiðinlegt að fara í gegnum þessar myndir...léttir lundina á þessum síðustu og verstu :)

Við erum annars nokkuð hress, reynum bara að einbeita okkur að því sem við eigum og okkur finnst dýrmætast, nefnilega fjölskyldu og vinum og af þeim eigum við nóg. Svo finnst okkur líka bara afskaplega kósí að hreiðra um okkur í Skaftahlíðinni okkar, kveikja á kertum (snáðinn hjálpar mömmu við það) og hafa huggulegt í haustinu :)

Snáðinn fór í gistingu um helgina, fékk að gista hjá ömmu og afa í Bogahlíðinni. Það gekk bara vel, þrátt fyrir smá "lítið hjarta" og hann svaf bara vel. Það skiptir okkur miklu máli að hann plumi sig vel þegar hann fer í gistingar og passanir af því það styttist jú með hverjum deginum að litli brósi verði sóttur og þá þarf nú stóri bró að vera nokkuð marga daga í pössun. Á meðan hann var í pössuninni fóru foreldrarnir í óvissuferð...enduðu í Borganesi þar sem snæddur var fínindis matur og farið á leiksýninguna Brák. Mælum eindregið með henni, alveg frábær skemmtun og afbragðs leikur. Ekki leiðinlegt að eyða laugardagskveldinu svona með skemmtilegu fólki :)

Segjum það gott í bili...hafið það gott og verið góð við hvort annað :*
Skaftahlíðargengið

02 október 2008

Haukur Máni Somdip er 1 árs í dag!

Við verðum víst að bíða enn um sinn eftir að fá að knúsa hann og kreista en hugsum hlýtt til hans á afmælisdaginn. Elvar Orri vildi helst fá brjálaða afmælisveislu fyrir hann, og helst strax í morgun ;) en sannfærðist um að halda frekar bara almennilega upp á 2 ára afmælið...þá væri allavega afmælisbarnið á staðnum! Við ætlum samt að gera okkur glaðan dag, baka eins og eina köku og senda honum hlý hugskeyti :)

01 október 2008


"Það er að snjóa hjá ömmu hans pabba!" segir Elvar Orri einn morguninn eftir að hafa heyrt veðurfréttamanninn segja að það mætti búast við snjó á Akureyri. Okkur fannst þetta svoldið skondin athugasemd hjá honum, en hann er mikið að spá í ættartengslum þessa dagana.

Svo kom nú önnur skemmtileg athugasemd frá honum þegar hann og pabbi hans voru að horfa á sjónvarpið og eitthvað er minnst á Indland. Þá segir hann, uppveðraður: "Indland! Kannski kemur mynd af litla bróðir!" ...svo setti hann sig í stellingar og horfði stíft á sjónvarpið. Því miður kom ekki mynd af litla bróðir, en maður má nú vona ;)

Annars löllar lífið sinn vangagang hjá okkur þessa dagana og stubburinn unir sér vel í leikskólanum og stundar svo fimleikana og fótboltann af krafti. Það er ótrúlegt að það sé kominn október strax...meira hvað tíminn líður...sem er bara fínt því þá styttist í heimkomu litla mannsins okkar. Við höfum ekkert heyrt meira en gleðjum okkur við þá tilhugsun að gögnin séu loks farin út (eftir alltof langan tíma) og að vonandi fáum við myndir á næstu vikum. Það væri æðislegt að fá að sjá hvernig hann dafnar...

Erum á fullu (ja svona næstum því ;) að henda inn myndum á myndasíðuna, við erum reyndar enn að setja inn sumarmyndirnar... sem nóg er til af. Það er ekki slæmt að ylja sér við hressilegar sumarmyndir svona þegar farið er að kólna ískyggilega mikið :)

Bestu kveðjur
Elvar Orri og fylgihlutir

15 september 2008

Þá er annasöm en skemmtileg helgi að baki. Þetta var sannkölluð afmælishelgi því okkur var boðið í hvorki meira né minna en þrjár afmælisveislur. Á laugardaginn fórum við til hennar Rebekku Lífar, fjögurra ára skottu, og þaðan lá leið okkar beint til Arons Atla sem hélt upp á sex ára afmælið sitt. Svo tókum við Elvar Orri sunnudaginn snemma og brunuðum í átta ára afmælið hennar Andreu Sifjar. Pabbagreyið missti af þeirri veislu þar sem hann þurfti að vinna...en við borðuðum bara fyrir hann ;)

Annars er lífið bara ljúft þessa dagana, þ.e. eftir að við jöfnuðum okkur á pestarstússinu sem hrjáði okkur í næstum 3 vikur! Elvar Orri er byrjaður að æfa fótbolta með Val og fimleika með Ármanni, nóg að gera hjá ungum manni. Foreldrarnir höfðu nú smá áhyggjur af því að þetta væri of mikið fyrir hann en sannfærðumst síðan um að svo er ekki...einn daginn kom hann heim, eftir að hafa verið fullan dag á leikskóla og farið svo í fótboltann, og tók nokkrar hressandi æfingar í stofunni ;)

Svo fórum við nú í leikhús um daginn og sáum Gosa með Stínu og Emblu Ýr. Þetta var í fyrsta sinn sem Elvar Orri fór í leikhús með okkur en hann fór einu sinni með leikskólanum sínum í Edinborg. Hann var afskaplega prúður á Gosa og þau frændsystkinin skemmtu sér vel. Og ekki var vera að fá að hitta þá félaga, Gosa og Tuma, eftir sýninguna!

Elvar Orri er búinn að ákveða að verða listamaður, "eins og Erró", þegar hann verður stór. Þetta tilkynnti hann Mundu ömmu í gærkvöld. Hann hefur mikinn áhuga á Erró og Kjarval (sem er kannski ekki skrýtið þar sem móðir hans vinnur á Listasafni Rvk og hann hefur nokkrum sinnum komið í heimsókn). Þegar amma hans spurði svo hvort hann ætlaði ekki að verða flugumferðastjóri eins og pabbi svaraði hann: "Jú, smá"...framtíðarplönin eru sem sagt listamaður og smá flugumferðastjóri ;)

Litli bróðir ber oft á góma hér á bæ og Elvar Orri spáir mikið í því hvenær hann komi og hvort hann þurfi ekki að læsa herberginu sínu fyrir honum. Hann vill samt að hann sofi upp í hjá sér...hefur bara smá áhyggjur af legóinu, það er nefnilega allt of lítið fyrir svona smábörn ;) Það er bara yndislegt að fylgjast með honum í þessum pælingum og heyra hann tala fallega um litla bróðir og við erum öll vægast sagt óþolinmóð eftir komu hans :/ En þolinmæðin þrautir allar vinnur...segja þeir sem allt vita ;)

Segjum þetta gott í bili úr Skaftahlíðinni

03 september 2008

Gestabók...

Vorum að prufa að setja upp gestabók, vonandi virkar það allt saman. Þannig að endilega sendið okkur línu :)

01 september 2008

Myndir myndir...


Erum sko alveg að standa okkur í þessu ;) Vorum að dúndra inn myndum á myndasíðuna....

29 ágúst 2008

Síðan síðast...

...hefur nú aldeilis margt gerst hjá okkur. Það sem ber langhæst er að Elvar Orri er orðinn stóri bróðir, fengum loks að vita að lítill drengur biði okkar úti á Indlandi. Hann heitir Somdip, er fæddur 2. október 2007 og við höfum ákveðið að gefa honum nafnið Haukur Máni.

Okkur finnst hann alveg yndislegur og eigum erfitt með að bíða eftir því að fá hann í fangið. Elvar Orri tók þessum fréttum frábærlega vel, það var mjög gaman að sjá svipinn á honum þegar við sögðum honum frá Somdip litla. Hann talar mikið um litla bróðir og er strax farinn að gera plön fyrir þá bræður ;)

Annars hefur þetta sumar liðið ansi hratt...eins og þau gera nú oft. Á milli þess að stússast hér heima við höfum við verið dugleg að flakka og njóta góða veðursins. Við fórum tvisvar sinnum vestur í Dýrafjörð og það var bara yndislegt...enda finnst okkur vart hægt að finna betri stað en Keldudalinn okkar. Svo fórum við líka til Akureyrar að heimsækja Fanneyju langömmu og vorum rosalega heppin með veður þar. Og enn meira var flakkað því við skelltum okkur í stutta ferð til Edinborgar, vorum komin með smá "heimþrá" þangað. Sú ferð var heldur stutt og eiginlega bara til þess að minna okkur á hversu yndisleg borgin er.

Rútínan hjá okkur var rétt byrjuð að rúlla eftir sumarfrí þegar Elvar Orri tók upp á því að ná sér í pest. Hann var heima í fimm daga í síðustu viku, náði svo að fara í þrjá daga í leikskólann og veiktist aftur...og er búinn að vera heima alla þessa viku. Það er óhætt að segja að stuðboltinn sé búinn að fá nóg af inniverunni, og reyndar líka búinn að fá nóg af því að hanga með foreldrunum. Hann kvartar sáran yfir því að vera einmanna og að sér leiðist, greykallinn. En nú hlýtur þetta að vera búið í bili og við krossleggjum fingur um að stubbur komist í leikskólann á mánudaginn.

Látum þetta gott heita, erum að dunda við að henda inn myndum sumarins :)

25 júní 2008

5 ára gaur!

Þá er gormurinn orðinn 5 ára...að hugsa sér! Þetta litla prik er allt í einu orðið að 5 ára töffara. Bara yndislegt ;) Hér í Skaftahlíðinni höfum við af þessu tilefni staðið í stórræðum og haldið hvorki meira né minna en 3 veislur. Sú fyrsta var haldin á fimmtudaginn 19. júní og í hana komu leikskólavinirnir...allir af deildinni. Við foreldrarnir stóðum því á haus í 2 tíma þar sem grillaðar voru pylsur ofan í 15 hungraða úlfa og eftir það fengu þau geimveruköku (mikið búið að pæla í þessu, þ.e. hvernig afmæliskakan ætti að vera). Svo var spilað og leikið og Elvar Orri var alsæll með daginn.

Á afmælisdaginn sjálfan, laugardaginn 21. júní, voru svo 2 veislur, þ.e. 2 holl og það var allt saman vel lukkað og skemmtilegt. Í fyrra holið komu vinkonur mömmu með ungana sína og eiginmenn, sumar voru reyndar út á landi svo þetta varð fámennt hjá okkur en engu að síður afskaplega notalegt. Að lokum fylltist hér allt húsið seinnipartinn af ættingjum og vinum og fögnuðu með prinsinum...engu líkara en hér væri verið að ferma drenginn ;) Ja, það er allavega frábært að vera loksins komin í nógu stóra íbúð til þess að geta haldið svona veislur og vonandi verða þær sem flestar í framtíðinni. Um kvöldið kíktu svo Árni frændi og Giada við og færðu drengnum svakalega flott Jack Sparrow dót OG settu það saman með honum....enda ætlaði hann varla að sleppa þeim ;)

Elvar Orri varð nú aðeins "ruddlaður" (ruglaður) af þessu stússi öllu og rétt fyrir veislu númer 2 spurði hann mömmu og pabba hvort hann væri þá núna að verða 6 ára??? Honum fannst það bara rökrétt að aldurinn hækkaði með öllum þessum afmælum ;)

Það er ekki lítið mál að vera orðinn 5 ára og vera farinn að sofa einn í eigin herbergi. Strákurinn okkar bara næstum fullorðinn, hehe. Hann er svo duglegur þessi elska, unir sér svo vel á leikskólanum og vill helst alltaf vera úti að hjóla eða að leika sér við hressa krakka. Þess á milli er hann samt alveg sáttur við að leika með allt fína dótið sitt...og heldur betur bættist nú við af flottu dóti um helgina!

Vorum að enda við að setja inn myndir af stuðinu.

Bless í bili!

08 júní 2008

"Nýjar" myndir...


...voru að detta inn á myndasíðuna.

Annars er allt gott að frétta af okkur, erum alveg að verða búin að koma okkur vel fyrir í Skaftahlíðinni. Elvar Orri unir sér vel á nýja staðnum og við höfum tekið eftir því að hann er einhvern veginn svo "content" eða ánægður...sennilega er það sambland af ánægju yfir nýju húsnæði og ánægju yfir því að þetta flutningsvesen sé yfirstaðið, enda reynir það nú aðeins á svona litla kalla að standa í svoleiðis veseni.

Þegar loks var búið að gera herbergið hans íveruhæft var hægt að byrja átakið ógurlega "Elvar að sofa í eigin rúmi-í-eigin-herbergi" og það er í mjög góðum farveg. Drengurinn er að safna sér stigum fyrir hverja nótt sem hann sofnar góður inn í herbergi og þetta hefur bara gengið eins og í sögu. Stundum kemur hann upp í um miðja nótt, en þá gerir hann það bara hljóðlega og jafnvel án þess að vekja foreldrana, en stundum tekst honum að sofa alla nóttina í eigin bæli. Þetta finnst okkur mikið afrek...enda vorum við aðeins farin að finna fyrir því að næstum-því-fimm-ára sparkari lægi á milli ;)

Síðan við fluttum inn í lok maí hafa dagarnir að mestu farið í að vinna og leikskólast og í að taka upp úr kössum. Nú er næstum allt að verða klárt og það er nú ekki seinna vænna enda styttist í afmæli drengsins. Hann er að vonum orðinn spenntur og við erum nokkrum sinnum búin að ræða hugmyndir að afmæliskökum...og alls kyns hugmyndir komið upp: geimverukaka, risaeðlukaka, sjóræningjakaka, turtleskaka...o.s.frv. Við sjáum hvað setur :p

01 maí 2008

Sveitaferð

Þá er lítill snáði sofnaður eftir fjör dagsins. Við fórum nefnilega í sveitaferð með leikskólanum í dag, fórum alla leið upp í Hvalfjörð. Þetta var velheppnuð ferð...fyrir utan brjálaða rokið sem blés okkur næstum því um koll. En Elvar naut sín í botn, fékk að djöflast í heyinu í hlöðunni og skoða öll dýrin. Svo vorum við svo heppin að ein kindin bar á meðan heimsókninni stóð. Það vakti nú aldeilis lukku að sjá lambið koma í heiminn..."úr rassinum á henni" eins og Elvar tók til orða ;) Honum fannst það ansi merkilegt og einnig hve þetta var subbulegt, þ.e. blóðið og slímið. Lambið fékk nafnið Sóley, svona af því leikskólinn heitir Sólhlíð og krakkarnir voru að vonum ánægðir með það. Eftir þetta voru grillaður pylsur og því næst haldið ofan í fjöru...eða öllu heldur fokið ofan í fjöru enda stóð norðanvindurinn svoleiðis í bakið á okkur. Foreldrarnir voru nú heldur hressari en sonurinn þegar rútan kom í fjöruna að sækja okkur, hann hefði viljað vera þarna miklu lengur.

Þegar heim var komið tók við smá kósístund eftir ferðalagið en svo drifu pabbi og Elvar sig út í hjólreiðatúr. Elvari fannst mikið sport að þeir væru á sitt hvoru hjólinu því hann var nú orðinn frekar þreyttur á stólnum sem þeir feðgar hafa notast við á hjólreiðatúrum. En nú er hann orðinn stór strákur og getur hjólað sjálfur án hjálpardekkja. Þeir fóru alla leið ofan í Nauthólsvík og ekki skemmdi fyrir að rekast á einn leikskólafélagann sem var í sömu erindagjörðum með sínum pabba ;)

Og enn var hjólað því við vorum boðin í Bogahlíðina í kvöldmat og auðvitað þurfti að hjóla þangað. Það kemst sem sagt fátt annað að en hjólreiðar hjá snáðanum þessa dagana. Enda kom það í ljós þegar heim skyldi halda og hjólið átti að fara í bílskottið...þá upphófst ægilegt frekjugól sem endaði ekki fyrr en heim var komið. Það er nefnilega stundum erfitt að hemja sig þegar maður er fjögurra ára...langskemmtilegast þegar allt gengur eftir eigin höfði ;)

En jæja, eftir gott bað (til að skola fjárhúslyktina úr hárinu) sofnaði hjólreiðagarpurinn svo við tásunudd frá mömmsu...góður endir á góðum degi.

21 apríl 2008

Velkomin á nýju síðuna mína...

Þar sem gamla síðan er búin að liggja í lamasessi í óratíma tókum við það til ráðs að setja upp síðu hér. Hitt systemið var alltof flókið og óskilvirkt þannig að nú er stubburinn bara kominn með bloggsíðu...enda enginn maður með mönnum nema hann bloggi ;) Hérna ætlum við sem sagt að segja frá því sem á daga snáðans drífur og hér til hliðar má finna krækju inn á myndasíðu. Þar er einnig krækja inn á gömlu síðuna, sem er nú víst enn "host-uð" í netheimum, við tímum ekki alveg að henda henni út þar sem ferðasagan okkar frá Indlandi er þar...og hver veit nema að einhver hafi gaman af því að lesa hana. Allavega fannst okkur, sem væntanlegum Indlandsförum og verðandi foreldrum, voðalega gaman að skoða samskonar síður. Og ef einhvern langar til að senda okkur kveðju er hægt að gera það með því að setja inn komment...og hver veit nema að pabbinn á heimilinu skelli upp einhvers-lags gestabók þegar fram líða stundir. Hún verður þá vonandi skemmtilegri en gestabókin á gömlu síðunni því það gengur ekki að fólk sé farið að reyta hár sitt við það eitt að senda okkur kveðju ;)

En svo maður segi nú eitthvað frá drengnum (síðan síðast) þá er hann er hann alltaf jafn sprækur. Hann unir sér vel í leikskólanum innan um álíka spræka gutta og skemmtilegar stelpur. Afmælisboðunum rignir yfir hann þessa dagana og stundum er hann jafnvel tvíbókaður...já manni leiðist ekkert þessa dagana ;) Það er skemmtileg stemmning að fara með hann í leikskólaafmælin hér í hlíðunum því þegar við röltum af stað í afmæli má yfirleitt rekast á einhverja af krökkunum í sömu erindagjörðum. Og svo gala þau yfir götuna á hvert annað, yfir sig spennt að vera að fara í afmæli. Svo er þrammað í röð í partýið og leikið og trallað í tvo tíma...ægilegt stuð ;)

En merkilegustu fréttirnar af gaurnum er sennilegast þær að hann er farinn að hjóla...ÁN hjálpardekkja!!! Það gerðist ansi fljótt, sá stutti var ekki lengi að ná þessu. Ein ferð út á Miklatún með pabba og hjálpardekkinn fengu að fjúka. Það er voðalega gaman að fylgjast með honum æða áfram á hjólinu og nú síðast fórum við niður á Ægisíðu og leyfðum honum að bruna á göngustígnum þar. Svo gengu stoltir foreldrarnir á eftir snáðanum sem brunaði fram og til baka. Ótrúlegt hvað það gefur lífinu mikið gildi að horfa á afkvæmið sitt taka þessi þroskaskref...hjartað fyllist hamingju af því einu að sjá hann þeytast áfram. Verst að hann er alger ofurhugi og er strax farin að reyna að gera "trix", reynir að stökkva og hvaðeina...og endar yfirleitt utan í kyrrstæðum bílum eða á ruslatunnum. Hann er ekki ofurhugi fyrir ekki neitt ;)