16 desember 2008

Jibbíjeiii....

...við erum loks orðin löglegir forráðamenn Hauks Mána Somdips! Fengum þær fréttir á föstudaginn að dómur væri fallinn. Þetta var sem sagt síðasta skrefið í ferlinu...tja svona næstum því...nú á bara eftir að útbúa vegabréf fyrir herra litla prins og drífa sig út að sækja hann! Ef allt gengur að óskum ættum við að vera á leið til Indlands um miðjan janúar...þannig að nú þarf að fara að bretta upp á ermarnar í undirbúningnum. Mömmunni á þessum bæ langar eiginlega hlest til þessa að vera bara að dunda sér við að þvo barnafötin frekar en að baka fyrir jólin :)

Annars hefur það sem af er aðventunar algerlega þotið hjá og við höfum notið hennar vel. Elvar Orri nýtur þess að baka með okkur, eða öllu heldur að eta deigið, og hann er líka mjög hrifinn af öllu jóladótinu. Hann fékk að hjálpa mömmu að taka upp jólasveinasafnið og grátbað mömmu að gefa sér eitthvað af þessu fínerí...honum fannst það frekar ósanngjarnt að hún ætti svona mikið en ekki hann ;) Síðan hefur nú eitt og annað bæst í safnið hans og hann er svo ánægður með sitt eigið skraut. Hann fékk rosalega fínan hnotubrjót frá Steinunni ömmu og Sigga af þegar þau komu heim frá Þýskalandi og átti hann þá tvo slíka. Hinn fékk hann í Edinborg og þegar hann fékk þennan nýja gekk hann með þá tvo um allt hús eins og þetta væri fjársjóður....ægilega krúttlegt.

Nú og svo var Stekkjastaur svo sætur að gefa honum jóla-snjókúlu og hún vakti mikla lukku. Það varð því mikil sorg þegar hún datt í gólfið og brotnaði. Við brugðum því á það ráð að skrifa bréf til Þvörusleikis og athuga hvort hægt væri að fá nýja....bréfið skrifaði pabbi eftir Elvari Orra:

Kæri Þvörusleikir
Jólakúlan brotnaði! Mér fannst leiðinlegt að hún brotnaði. Geturðu gefið mér aftur svona? Ég lofa að passa að hún brotni ekki. Lofa þú að missa hana ekki í snjóinn! Þú verður að fara varlega.
Þinn vinur,
Elvar Orri

Og viti menn, þetta virkaði! Þvörusleikir hefur greinilega beðið bróðir sinn, Pottaskefil, um að koma kúlunni til skila því í morgun þegar prinsinn vaknaði beið hans afskaplega falleg kúla. Reyndar ekki alveg eins....en flott engu að síður. Þetta er svo sannarlega skemmtilegur tími fyrir smáfólkið, ekki leiðinlegt að fá gott í skóinn á hverjum degi frá sveinunum...það er verst með hana mömmu þeirra. Hún er ekki mjög vinsæl á þessu bæ...þrátt fyrir að hún búi til góð grýlukerti! Það kemur þvílíkur skelfingarsvipur á okkar mann ef minnst er á hana og kvöldið sem fyrsti jólasveinninn átti að koma þorði Elvar ekki inn í herbergið sitt og þurfti helst að fá fylgd um allt hús ;) Hann tók það samt fram að hann væri ekki hræddur við jólasveinana...bara mömmu þeirra! Það þarf varla að taka það fram að hann hefur ekki sofið í sínu herbergi síðan 11. desember ;)

Hér eru svo jólalögin sungin út í eitt, þ.e. þessi týpísku jólaballslög. Elvar Orri er mjög duglegur að syngja og kann þau vel flest. Enda var rosalega gaman að fara á fyrsta jólaballið okkar þetta árið. Við fórum á nefnilega á jólaball leikskólans um síðustu helgi og buðum Emblu Ýr og Stínu með. Elvar hafði rosalega gaman af því að dansa í kringum jólatréið og syngja með jólasveinunum....ólíkt fyrri jólaböllum þar sem hann var meira fyrir að renna sér á maganum niður stigann og bara almennt að tröllast ;)

Jólakveðjur úr Skaftó...hó hó hó :)


Engin ummæli: