"Ég trúi á Grýlu á jólunum!" segir lítill snúður um leið og hann bryður grýlukerti sem hann hafði krækt sér í. Þegar móðir hans hváir við kemur útskýringin: "Já af því hún býr til svo góð grýlukerti!". Já Grýla er greinilega tekin í sátt á þessum árstíma....yfirleitt má nú ekki minnast á hana án þess að það komi skelfingarsvipur á snúðinn :)
Jólaskapið er svona að færast yfir mannskapinn þessa dagana...Elvar hefur reyndar spurt í hvert sinn sem það hefur snjóað hvort það séu komin jól. Hann var búin að bíta í sig að snjórinn kæmi á sama tíma og jólin og fannst þetta nokkuð ruglandi :)
Hann var nú líka ansi glaður þegar mamma og pabbi drifu upp seríur í herbergið hans, enda hafði hann tilkynnt mömmu sinni það nokkrum dögum áður að það væri ekki orðið neitt jólalegt í sínu herbergi. Snúðurinn ljómaði því jafn fallega og seríurnar þegar foreldrarnir voru búin að skella seríunum upp og nú sofnar hann vært í birtunni frá ljósunum.
Ásamt því að vera byrjuð að undirbúa jólin erum við á fullu við að finna út hvernig best er að koma sér út til Indlands þegar kallið kemur...og við vonumst til að það komi í fyrripart janúar. Það er alger frumskógur að finna út hvaða leið sé hentugust, bæði peningalega og tímalega séð, og hvar sé nú best að millilenda...en það er nú líka gaman að dúlla sér við þetta og láta sig dreyma um að hitta loks litla prinsinn sinn :)
Jæja, segjum þetta gott í bili. Ritarinn ætlar að halda áfram að setja upp jólaljós í barnlausu húsi. Elvari Orra var boðið að gista hjá Höskuldi Ægi og Emblu Ýr og hann þáði það med det samme!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli