03 mars 2009

Þá er sælan búin í bili hjá pabbanum á bænum en hann byrjaði að vinna á mánudaginn. Hann á samt eftir að taka hluta af fæðingaorlofinu sínu en við eigum eftir að ákveða hvernig það verður skipulagt. Okkur finnst við nú hálfpartinn hafa verið snuðuð með þetta allt saman...þetta leið alltof fljótt! Við erum bara "nýkomin" heim og vildum sko hafa kallinn lengur í orlofi ;) En það þýðir nú ekki að tuða yfir því, þetta er búið að vera frábær tími...að geta átt þessar fyrstu vikur í rólegheitum að kynnast hvert öðru.

Við áttum annars mjög góða helgi og hittum fullt af skemmtilegu fólki. Helgin byrjaði á því að við fengum Friðrik Daða Deb og foreldra í heimsókn. Þau komu til að sjá nýja prinsinn okkar og svo fórum við öll saman að sjá vin Hauks Mána frá Kolkata, hann Alexander Karl sem er nýkomin heim. Þar áttum við yndislega kvöldstund í góðum félagsskap og það var frábært að sjá öll þessi yndislegu börn þarna samankomin. Elvar Orri, Arndís Ísabella (stóra systir Alexanders Karls) og Friðrik Daði léku sér svo fallega saman og litlu guttarnir dunduðu sér á milli þess sem þeir kíktu á stóru krakkana. Þeir veittu nú hvor öðrum ekki mikla athygli þrátt fyrir að hafa eytt tíma saman í sama rúmi úti á Indlandi, enda kannski ekki við því að búast af svona ungum krílum, en það verður gaman að sjá þá grallarast saman þegar þeir stækka.

Laugardagurinn var sannkallaður letidagur og vorum við flest enn á náttfötunum kl. 17 þann daginn en þá drifum við okkur út að versla og kíktum svo við í Ólafsgeislann til Óla og Þórunnar. Þar biðu börnin spennt eftir að sjá Hauk Mána í fyrsta sinn og vakti hann mikla lukku. Á sunnudaginn var Elvari Orra boðið í keilu með Stínu og kó og Óla og kó og hann þáði það nú með þökkum. Þegar keilan var búin fékk Elvar að fara og leika við Emblu Ýr og Höskuld Ægi og múttan fékk nú að fljóta með. Á meðan dunduðu pabbinn og Haukur Máni sér heima. Karlinn var með smá tilraunamennsku í eldhúsinu, eldaði lambalæri að marókóskum hætti. Það tókst með eindæmum vel hjá honum og buðum við Steinunni ömmu og Sigga afa að njóta með okkur.

Haukur Máni stendur sig afskaplega vel þegar gesti ber að garði og eins þegar við bregðum okkur af bæ með hann. Hann er alveg hættur að vera hræddur við fólk en sýnir það klárlega að mamma og pabbi eru best ;) og auðvitað stóri bróðir. Það er gott að sjá hversu öruggur hann er með sig, sérstaklega hér heima og okkur langar til að skrifa það á það að honum líði vel hér og sé smátt og smátt að átta sig á að þessir skrýtnu foreldrar séu komnir til að vera. Við erum samt enn mjög meðvituð um að tengslamyndunin er flóknara ferli en svo að allt sé bara klappað og klárt nú þegar...en við erum mjög þakklát fyrir hversu vel hefur gengið hingað til.

Við erum líka alltaf að sjá betur og betur hvern mann þessi litli moli hefur að geyma og erum auðvitað fyrir löngu orðin gersamlega heilluð af honum. Hann er mjög glaðlyndur og tekur á móti okkur með breiðu brosi, bæði þegar við sækjum hann inn eftir lúrinn og eins þegar annað okkar hefur brugðið sér af bæ. Þá stekkur hann að hurðinni um leið og hann heyrir hana opnast og brosir breitt til mömmu eða pabba. Hann tekur líka vel á móti brósa sínum þegar hann kemur heim og er oftast sæmilega sáttur við það þegar sá eldri knúsast í honum. Hann virðist því bara vera nokkuð sáttur við lífið þessa dagana: hann elskar sinn mat, elskar að fara í bað (má ekki heyra í krananum án þess að kasta frá sér því sem hann var að gera og æða af stað) og elskar að fara út í göngutúr og í bíltúra. Hann er líka alger svefnpurka og finnst mjög gott að kúrast og knúsast. Svo reynir hann meira að segja að syngja, þ.e. ef við höfum sungið eitthvað fyrir hann reynir hann líka. Þá kemur ægilega krúttlegur innlifunarsvipur á manninn og hann syngur/raular smá :) En þessi ungi maður hefur líka skap og sýnir það óspart...lætur heyra vel í sér ef honum mislíkar eitthvað eða ef hann er stoppaður í príli og fikti. Þar er hann nú svoldið ólíkur bróðir sínum sem var nú mjög "passífur" framan af og lét ekki mikið í sér heyra ef verið var að bögglast með hann

En maður getur nú ekki bara talað um litla manninn, það má nú ekki gleyma að segja fréttir af stóranum okkar sem er svo duglegur. Það helsta af honum að segja er að hann er svo til orðin læs! Foreldrarnir er agalega stoltir af honum og hann hefur sýnt miklar framfarir á örskömmum tíma. Hann byrjaði bara allt í einu að hafa afskaplega mikinn áhuga á stöfunum og var farin að þylja stafrófið fljótlega eftir áramót. Nú getur drengurinn lesið löng orð eins og andarungar og vetrarblóm. Hann var svo heppinn að fá Geitungur 2 frá Friðrik Daða vini sínum fyrir helgi og erum við búin að lesa hana spjaldana á milli. Það er bara yndislegt að fylgjast með unganum sínum ná svona þrepi og sjá hversu stoltur hann verður þegar honum er hrósað fyrir árangurinn...ljómar eins og sólin :)

Jæja nú ætlar ritarinn að reyna að hafa vit fyrir sjálfri sér og skella sér í bælið. Foreldrarnir hér á bæ hafa nefnilega þá tilhneigingu að fara alltof seint að sofa, gleyma sér í sjónvarpsglápi eða tölvuhangsi þegar ró er loks komin á húsið....en stuðboltar tveir spyrja nú ekkert að því þegar þeir vakna endurnærðir eftir sinn fegurðarblund á morgnana.


Segjum það því bara gott í bili...

p.s. enn fleiri febrúarmyndir í nýju albúmi :)

1 ummæli:

Hlíðarásinn sagði...

Elsku Elvar Orri minn!! Til hamingju með að vera orðinn læs!!! :-D rosalega ertu duglegur snúðurinn minn, ég er rosa stolt af þér.. ekki amarlegt að byrja í skóla læs! þú ert æði :-) knús knús þín Hrefna og co

---

Gaman að lesa um ykkur elskurnar, æðislegt hvað Haukur Máni er orðinn öruggur lítill maður.. þetta kemur allt smátt og smátt. Bara æðislegt hvað þetta hefur gengið vel! Enda fínt eintak af foreldrum sem hann fékk ;-) heppinn!

Sjáumst fljótt,
ykkar vinir Hrefna, Þröstur og börn