03 maí 2009

Ósköp er maður nú latur við að setja inn fréttir af dæmalausa dúóinu ;) ...það gæti samt haft einhver áhrif á afköstin að um leið og ritarinn sest niður við tölvuna er mættur á svæðið lítill gaur sem vill ólmur fá að berja lyklaborðið.

Þeir eru annars nokkuð ferskir, þessi litli gaur og bróðir hans ;) og sjá foreldrunum algerlega fyrir verkefnum og að þeim leiðist ekki. Enda sveiflast heimavinnandi húsmóðirin á milli örvæntingar og afslöppuðu kæruleysi vegna ástandsins á heimilinu (sem sagt: "Guð minn góður, ég á aldrei eftir að ná að þrífa hér allt!" og: "Isss, ruslið fer ekki neitt"). Til að bæta fjöri ofan á fjör er sá stutti farinn að komast upp á allt sem klifra má uppá...klósettið, eldhús- og borðstofustóla (og þar með þau borð sem þessir stólar standa við) og einnig kemst hann upp í gluggakistuna í stofuna. "Örvæntingafulla" húsmóðirin tekur því upp einn sokk/dót/eitthvað af gólfinu og þarf þá að taka hann ofan af stól, snýr sér við og tekur upp næsta sokk/dót/eitthvað af gólfinu og gaurinn er kominn upp á eitthvað annað. Stubburinn komst nú svo langt að príla upp á eldhúsbekkinn um daginn áður en faðirinn stoppaði hann. Og sá stutti hefur skap...ójá...svakaleg hljóðin sem heyrast úr litlu bollunni þegar foreldrarnir eyðileggja fjörið fyrir honum. Það reynir því aðeins á Hauk Mána Somdip Arnarsson prílara með meiru þessa dagana og ófá gremjutárin sem falla þessa dagana....það er erfitt að vera lítill maður með stórt skap ;)

En lífið er nú líka gott hjá honum og hann elskar að fara út að labba og stubbast...alger útikall. Og hann er alltaf jafnglaður þegar Elvarinn hans kemur heim úr leikskólanum og eltir hann út um allt og apar eftir honum. Af Elvarnum er það að frétta að hann er líka alger útikall og vill helst bara vera úti að leika þessa dagana. Hann á vinkonu í næsta stigagangi og foreldrunum finnst svoldið skrýtið að gormurinn okkar sé orðinn svona sjálfstæður, farinn að fara einn í heimsóknir og út að leika við krakkana í næstu blokk. Þá standa þessir foreldrar eins og kjánar úti í glugga og mæna á þetta litla prik (sem er samt svo stórt) hoppa og skoppa á trampólíninu. Eins gott að njóta þessa tíma sem hann er enn smá-svona-litli-gaurinn okkar...bráðum fer hann að skamma okkur fyrir að mæna á hann með foreldra-stolts-svip og segja okkur að hann sé ekkert barn lengur :)

Jæja þetta er fínt í bili...smá raus í ritaranum ;)

Engin ummæli: