..já við skelltum okkur aftur í Húsafellið um síðustu helgi. Vorum svo heppinn að bústaðurinn losnaði skyndilega og við stukkum bara á tækifærið...enda hafið hin fyrri bústaðaferð svolítið litast af veikindum litla mannsins og vondu veðri. En í þetta sinn voru allir hressir og veðrið yndislegt. Þvílíki vorfiðringurinn sem kom í okkur við þetta :) Við buðum Hössa afa og Mundu ömmu með okkur og fengum svo Stínu, Mumma, Emblu Ýr og Höskuld Ægi í heimsókn á laugardeginum. Við nýttum pottinn til fullnustu, grilluðum góðan mat og fengum okkur gönguferð upp í Bæjargilið og sáum þar steinlistaverkin. Allt í allt frábær helgi...og okkur langaði eiginlega ekkert heim ;) En við erum búin að fá bústaðin í heila viku í sumar og hlökkum mikið til. Þegar heim var komið fengum við góða gesti í kvöldmat, Rósa og ungarnir hennar tveir kíktu á okkur en þeim kynntumst við í Edinborg (tja nema þeim minnsta sem var ekki fæddur þá ;))Við áttum góða kvöldstund með þeim og Elvar og Bjarnheiður léku sér vel saman enda gamlir og góðir vinir. Hauki Máni leist nú vel á Gunnlaug litla sem er rétt um 8 mánaða og reyndi nú aðeins að pota í hann og setjast á hann ;) Honum leist hins vegar ekkert á það þegar mútta hélt á Gunnlaugi...þá varð minn maður bara abbó! Og þegar mútta setti Gunnlaug í fangið á pabba og tók Hauk upp varð hann líka abbó og vildi komast í pabbafang...greinilega ekki sama um að foreldrarnir máti önnur börn. Það er óhætt að segja að þetta litla atvik hafi glatt foreldrana, því eins og allir þeir sem hafa ættleitt kannast við erum við alltaf að leita eftir þessum merkjum frá börnunum okkar sem sýna okkur að við séum á réttri braut í tengslamynduninni :)
Hér á bæ standa yfir smá breytingar. Við ákváðum að "ræna" svítunni af erfðaprinsinum! Hann hefur verið í stærsta svefnherberginu síðan við fluttum inn en ekki alltaf sofið þar. Það rann svo þetta ljós upp fyrir okkur að það væri í raun út í hött að láta stærsta svefnherbergið standa að mestu autt (fyrir utan það þegar drengirnir æða þangað inn og snúa öllu á hvolf) og sofa fjögur í lítilli skonsu. Því var hafist handa í gær við að færa allt hafurtaskið á milli herbergja og sváfum við í svítunni síðustu nótt. Það er nú töluverður munur að geta gengið meðfram hjónarúminu án þess að þurfa að skáskjóta sér og einnig töluverður munur á loftinu, það var stundum ansi loftlaust hjá okkur hinu meginn :) Elvar Orri ætlaði nú ekki að samþykkja þetta í fyrstu en lét svo undan...allavega til að prufa ;)
Jæja segjum það gott í bili, vorum að setja inn nokkrar páskamyndir og erum að vinna í bústaðamyndum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli