
Skaftarnir gerðu sér glaðan dag í dag en við höfðum ákveðið að hafa daginn í dag fjölskyldudag. Við byrjuðum daginn reyndar á að skella okkur í fótbolta og leyfa pabbanum að sofa úr sér næturvaktina en hann var að byrja á vöktum aftur. Mamma og Haukur Máni fylgdust með fótboltagaurnum okkar spila með strákunum og svo var haldið heim á leið. Þegar pabbi var ræs skunduðum við niður í bæ með Haukinn í vagninum, enda kominn tími á lúr hjá honum.
Fyrsta stopp var Eymundsson á Skólavörðustígnum, við ætluðum að hafa það huggó og fá okkur eitthvað gott í goggin en þar var alveg brjálað að gera svo við stoppuðum stutt við. Fórum þess í stað í næsta Eymundsson þar sem við náðum að koma okkur fyrir og gátum meira að segja brunað Hauki út á svalirnar hjá þeim. Þar sátum við um stund, múttan skoðaði blöð og Elvar Orri kíkti niður í barnadeildina. Því næst héldum við í Kolaportið en þangað höfum við ekki komið lengi. Það er nú alltaf ákveðin stemmning að koma þangað, þó ekki væri nema bara til að virða fyrir sér mannlífið. Við gátum týnt okkur þar í dágóða stund...og keyptum auðvitað eitthvað draslerí ;)
Haukur Máni vaknaði í miðri Kolaportsferðinni og sat voða góður í kerrunni, sennilega dáleiddur af öllu fólkinu og glingrinu :) Við ákváðum svo að taka bara strætó heim og litli bílakallinn var sko alveg að fíla það, sat eins og herramaður allan tímann.

Hér á bæ er mikill vorfiðringur í loftinu og Elvar Orri er endalaust að leika við vini sína úti í fótbolta og er orðinn svo sjálfstæður að foreldrunum finnst þau bara næstum því eiga ungling! Hann hringir í vinina, mælir sér mót við þá, lætur vita af sér og skellir sér jafnvel á listasöfn með þeim...já menn eiga sko sósíal líf í lagi ;)
Segjum þetta gott í bili, framundan er ný vika með nýjum viðfangsefnum. Þar á meðan má nefna að Elvar Orri er að fara að syngja með Háteigsskóla á Barnamenningarhátíðinni og foreldrarnir bíða spenntir eftir að sjá það :)
Bestu kveðjur
Skaftarnir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli