Við áttum annansaman en góðan dag í gær: Leikskóli, fimleikar, kíktum á Stínu frænku sem átti afmæli og fórum svo út að borða í tilefni af 70 ára afmæli Sigga afa. Það gekk vonum framar að fara með minnsta meðliminn svona út og hann stóð sig ansi vel. Við fórum á Alsælu út á Álftanesi og borðuðum frábæran tælenskan mat. Við höfðum staðinn alveg út af fyrir okkur en einungis er tekið á móti einum hóp í einu og það gerði það að verkum að við gátum verið nokkuð afslöppuð með litla manninn þarna. Enda naut hann sín vel að geta strumpast um og kíkt út um glugga, klifrað yfir þröskulda og mokað í sig. Við áttum því frábæra kvöldstund með Sigga afa og fjölskyldunni allri og nutum matarins sem var vægast sagt frábært.
Báðir drengirnir voru orðnir nokkuð þreyttir þegar heim var komið og því var bara stímað beint í bælin með þá. Hér þarf að vera verkaskipting á heimilinu og skiptast foreldrarnir á að svæfa gullin sín. Í gær svæfði pabbi Hauk og mamma lá hjá lestrarhestinum sínum...hann tók eftir því að aðeins er farið að halla á pabba greyið í þeim forréttindum að fá að lesa með honum því pabbi hefur verið á næturvöktum síðstu kvöldum. En úr því verður bætt í kvöld ;)
Við megum til með að láta smá gullkorn fljóta með frá stóranum okkar, höfum ekki verið nógu dugleg við að punkta þau hjá okkur.
Elvar og mamma voru að keyra heim frá Stínu í gær þegar Elvar segir: "Mamma, þegar fólk er dautt þá gerir Guð svona stærðfræði". Mamma var ekki alveg að átta sig á því hvað hann meinti og hváði. "Já hann gerir svona strik" ..."Ertu að meina að hann merki við þegar fólk mætir í himnaríki?" "Já, hann kíkir í gegnum skýin".
Já Guð er sem sagt með kladda og merkir við þegar fólk mætir á svæðið ;)
Við fengum aðra skemmtilega pælingu frá syninum þegar við vorum að keyra heim frá Álftanesinu í gær. Þá var verið að ræða um einn sem hafði sparkað í hið allra heilagasta á öðrum í leikskólanum. Mamman var eitthvað að reyna að útskýra fyrir Elvari hversu hættulegt það gæti verið fyrir drengi að fá spark þarna, m.a. að kúlurnar gætu skemmst og þá gætu þeir kannski ekki eignast börn þegar þeir yrðu stærri. Þá skellir Elvar uppúr: "Já en mamma, strákar eru ekki með börn í maganum!" (mamman greinilega ekki með þetta á hreinu). Nú var úr vöndu að ráða...hversu ítarlega ræðir maður við 5 ára um gang lífsins??? "Jú sko...uuu.strákar þurfa að nota "kúlurnar" til þess að búa til börn..." Við þetta verður Elvar mjööög forvitin og spyr ákveðið "HVERNIG!"...og þegar foreldrarnir eiga erfitt um mál vegna niðurbælds hláturs verður hann eiginlega fúll..."Ekki hlæja!!". Það er greinilegt að hann er eitthvað farin að velta þessu fyrir sér, eða þetta hefur borist í tal hjá vinunum á leikskólanum. Hann var allavega mjög áhugasamur um þetta. Endaniðurstaðan hjá foreldrunum var sú að segja bara við guttann hina týpísku setningu: "Þegar maður og kona elska hvort annað mjög mikið þá eignast þau barn saman...(og svo var klykkt út með einni belg og biðu setningu til að slíta umræðunni)...en þú lærir um þetta í skólanum, í kynfræðslu...þegar þú ert í ca. 6. bekk...nei sko sjáðu stjörnurnar, þessi heitir Venus..". Og málið var dautt...í bili :)
1 ummæli:
Það er alltaf gaman af pælingum hjá ungunum sínum. Ég hef þurft að fara í gegnum þessar pælingar með börnin með Guðjóni ... sáðfrumur og eggfrumur og allan pakkann - ég man ekki hvenær en alla vega í fyrra ef ekki fyrir tveimur árum þannig að það kemur að því ... það verður ekki í 6. bekki í skólanum því það er engin kynfræðsla þá! Hann verður búinn að læra allt þetta fyrir þann tíma. Gangi ykkur vel. knús og kyss Líney
Skrifa ummæli