Nú eru liðnir rúmlega fjórir mánuðir síðan við komum heim með Hauk Mána og í gær varð hann tuttugu mánaða. Af því tilefni var múttan að renna í gegnum myndir frá fyrstu dögunum hér heima...og þvílíkur munur á barninu! Hann hefur heldur betur braggast og fyllt út í tilveruna...á fleiri en einn hátt ;)

Við erum búin að reyna að vera dugleg njóta vorsins svona inn á milli veikindastússins, stóri gaurinn er búin að vera nokkuð hress og nennti sko ekki að hanga inni þó sá litli hafi verið lasinn. Hann Elvar Orri hefur sko endalausa orku á fallegum sólardögum (reyndar á flestum dögum ;) en hann vill bara helst vera úti í sólinni að leika við krakka. Hann vill líka bara helst vera í stuttermabol og stuttermabuxum (eins og hann segir sjálfur ;)) og finnst mikið sport að fá að velja þennan fatnað sjálfur.
Það hefur margt á daga okkar drifið síðan síðast og þar sem við erum nú oftast með myndavélina við höndina er kannski best að láta bara myndirnar tala? Við reynum að dæla þeim væna skammti af myndum, sem teknar hafa verið, sem fyrst inn. En svona til að nefna eitthvað þá fórum við m.a. á vorhátíð Háteigsskóla þar sem væntanlegir 1. bekkingar voru boðnir sérstaklega velkomnir. Elvari fannst æðislegt að fá að sjá skólann sinn og er ansi spenntur. Svo fengum við nú annað boð frá þeim og í þetta sinn fékk Elvar að hitta væntanlegan umsjónakennara sinn og fara inn í stofu með hinum krökkunum að vinna verkefni. Á meðan fengu foreldrarnir kynningu á skólanum og því starfi sem þar fer fram. Það er skemmst frá því að segja að bæði Elvar Orri og hans foreldrar eru afar spennt fyrir Háteigsskóla og getum varla beðið eftir að takast á við þessa lífsreynslu.
Svo eru hér nokkrar myndir að norðan en við fórum til Akureyrar um miðjan maí til þess að vera við útför langömmu strákanna, ömmu Arnars. Við höfum reynt að fara norður á hverju sumri til þess að heimsækja hana en nú verður tómlegt að geta ekki rennt við í Þingvallastrætinu eins og venjan hefur verið. Akureyrin skartaði þó sínu fegursta fyrir okkur í þessari ferð og við fengum þar fyrsta sumarveðursskammtinn þetta árið.
Hér var svo haldið Eurovisionpartí með góðum gestum og góðum mat, eins og vera ber, og áttum við hið besta kvöld þrátt fyrir að Haukur Máni væri frekar kraminn af mislingabróðurnum sem þarna var í fullu fjöri. Við höfum líka verið að hitta góða vini undanfarið, hittum t.d. Hörpu Rós og Hrefnu sem kíktu til Hauks og múttu. Og indlandsvinina okkar höfum við líka hitt á fallegum maídögum en við fórum í pikknikk á Miklatúnimeð Alexander Karli, Arndísi Ísabellu og Helgu mömmu þeirra. Þar léku Elvar og Arndís sér fallega saman á meðan litlu félagarnir gæddu sér á nestinu og mútturnar spjölluðu :)
Uppstigningadagur var vel pakkaður hjá okkur þetta árið enda fínt að nýta svona auka frídaga vel :) Elvar og mammsa byrjuðu daginn á að fara í afmæli til Kristófers vinar okkar og áttu þar skemmtilega stund með hressum krökkum og síðan hittum við Indlandsvinkonur Elvars Orra seinnipartinn. Það er svo gaman að sjá þessi þrjú flottu börn saman sem komu frá Kolkata sumarið 2004. Þau ná svo vel saman þegar þau hittast og Elvari Orra finnst frábært að hitta vinkonurnar sínar tvær :)

Þessi listi er engan veginn tæmandi yfir allt það skemmtilega sem við erum búin að brasa í maí mánuði og okkur finnst við bara hafa verið nokkuð aktíf við að hitta skemmtilegt fólk og njóta vorsins. Hvítasunnuhelgin var til dæmis þéttpökkuð af matarboði hjá afa og ömmu í Bogahlíð, afmæli hjá Hlíðarásgenginu og gönguferð í Lamafellsgjá. Nú vonum við bara að sumarveðrið verið frábært því við erum sko alveg komin í ferðalaga gírinn...okkur klæjar alveg hreint í puttana eftir að leggja land undir fót :)
Framundan er svo útskrift úr leikskólanum, nánar tiltekið á morgun. Elvar Orri sofnaði spenntur í kvöld eftir að taka til sparifötin fyrir útskriftina. Hann er líka búinn að tilkynna foreldrum sínum að Linda deildarstjóri hafi sagt að foreldrarnir þyrftu að hafa með sér vasaklúta og múttunni hér á bæ grunar að þeir eigi eftir að koma að góðum notum...Elvar Orri hefur verið spar á sönginn heima fyrir en einstaka sinnum fengist til að syngja þau lög sem sunginn verða á morgun og það kallaði nú fram tár í mömmuaugu ;) Svo styttist nú í 6 ára afmælið og planleggingarnar eru á fullu gasi...Monsters kaka, Zoo-dýra kaka og ég veit ekki hvað og hvað. Og ekki má gleyma því að ungprinsinn verður skírður í Hraunskirkju í Keldudal þann 27. júní :) Sem sagt nóg að gera í júnímánuði...
Jæja segjum þetta gott í bili, orðin ansi mikil langloka...þökkum þeim sem hlýddu ;)
Sumarkveðjur úr Skaftó!
2 ummæli:
Flottir strákar
Yndislegar myndir! ég hló nú af "pricless" svipnum hans Elvars Orra :-) snillingur.
ooo gaman að það sé búið að ákveða skírn og ekki leiðinlegt að hafa hana fyrir vestan :-)
Takk fyrir snúlluna okkar eldri ekkert smá ánægð með afmælisgjöfina, ég ætla að prufa þetta einn daginn ;-) mikið gaman að sjá ykkur og hafa**
Bestu kveðjur frá okkur til ykkar og sjáumst svo very súúún*
Knúses
Hrefna, Þröstur og börn
Skrifa ummæli