Við höfðum fyrr um daginn sagt Anup að okkur langaði að skoða myndlist eftir heimamenn. Þegar við komum aftur í bílinn hringdi Anup eitt símtal og sagði okkur svo að hann hefði verið að tala við góðan vin sinn sem væri listamaður og að hann væri að klára að mála myndir fyrir sýningu sem hann ætlaði að halda eftir tvær vikur. Hann vildi endilega fá okkur í heimsókn og sýna okkur myndirnar sínar. Bílstjórinn okkar hann Rabi átti nú ekki erfitt með að finna heimili listamannsins, sem heitir Nitai Saha og er víst frekar vel þekktur hér á Indlandi og reyndar víðar. Hann tók mjög vel á móti okkur og við fengum að fara inn á heimili hans, konu hans og tveggja barna. Þau búa í litlu herbergi, fjögurra manna fjölskylda í plássi sem er ekki mikið meira en 20 fermetrar. Myndirnar hans eru mjög flottar og við ákváðum að kaupa eina af honum. Okkur leist best á þá sem hann var að klára, en vorum hálf hikandi og vorum ekki viss hvort við gætum keypt mynd sem hann væri að mála fyrir sýninguna. Það var nú ekki vandamál, hann sagðist nú vera listamaðurinn og réði því sjálfur hvaða verk færu á sýninguna. Hann bað okkur um að koma um klukkutíma síðar til að ná í myndina.
Til að “drepa tímann”, ef svo er hægt að komast að orði í þessari mögnuðu borg, fór Anup með okkur að skoða musteri sem tilkeyrir þeim sem aðhyllast Jain-isma. Musterið er í raun eins og risavaxið skartgripabox, allt skreytt með gleri og eðalsteinum, ótrúlega fallegt. Það var mjög notalegt að staldra þarna við og það var mikið líf í garðinum fyrir framan. Anup benti okkur á fallega klædda stúlku í fylgd með foreldrum sínum og sagði okkur að hún væri tilvonandi brúður og í þeim erindagjörðum að hitta vonbiðilinn. Þannig er fyrirkomulagið á þessu hjá þeim, unga parið hittist á einhverjum svona stað og athugar hvernig þeim líst á hvert annað. Ef áhugi er til staðar hittast þau aftur en annars ekki. Þegar Anup hafði bent okkur á þetta var auðvelt að spotta fleiri stúlkur í sömu erindagjörðum, sáum t.d. eina í sínu flottasta pússi og mömmuna vera að laga hana til áður en gæinn mætti á svæðið.
Þegar við höfðum skoðað musterið var komin tími til að fara aftur til listamannsins. Hann var akkúrat að klára myndina og við fengum að fylgjast með þegar hann lagið lokahönd á verkið. Á meðan sátum við á rúminu þeirra í litla herberginu og spjölluðum við litla strákinn hans sem talaði afbragðs ensku. Við gáfum honum póstkort frá Íslandi sem hann var hæstánægður með, sérstaklega kort með mynd af Geysir. Hann hafði einmitt verið að læra um hveri í skólanum en aldrei séð mynd af þeim. Jæja, þegar myndin var tilbúin gengum við frá kaupunum og kvöddum þessa indælu og nægjusömu fjölskyldu.
Því næst héldum við heim til Anups, með smá stoppi á Hyatt hótelinu sem er svakaflott og þar kíktum við aðeins á minjagripabúðina. Kona Anups tók vel á móti okkur og litlu strákarnir hans voru algerar perlur, annar lítill grallari og hinn ábúðafullur stóri bróðir. Maturinn sem við fengum var alveg fyrirtak og greinilega mikið fyrir okkur haft. Við borðum djúpsteikt eggaldin, rækjur og 2 tegundir af fiski sem við kunnum ekki að nefna. Allt var þetta gómsætt og að sjálfsögðu borðað með höndunum. Eftir að hafa spjallað við þau hjón um stund héldum við uppá hótel enda þurftum við að rísa snemma úr rekkju til að fara í siglingu um Ganges og að sjálfsögðu til að vera vel úthvíld þegar við myndum hitta litla prinsinn okkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli