
Þessi dagur er búin að vera ótrúlegur...vægast sagt...og við erum búin að upplifa svo mikið af Kolkata á stuttum tíma. Anup hefur aldeilis staðið sig vel við að hjálpa okkur að sjá sem mest.
Eftir morgunmat í morgun kom Anup og fór með okkur í skoðunarferð um borgina. Hann byrjaði á því að fara með okkur til að skoða Victoria Memorial, sem er minnismerki um Viktoríu Bretadrottningu. Þetta er í raun stór og mikil marmarahöll og safn umkringd miklum garði. Við löbbuðum hring um garðinn og skoðuðum höllina frá ýmsum sjónarhornum. Ákváðum að sleppa því að skoða hana að innan þar sem við getum víða séð málverk og skúlptúra frá Evrópu. Það var mjög gaman að hlusta á Anup, sem er fullur af fróðleik, enda búinn að vera leiðsögumaður í Kolkata í 25 ár. Það sem kom okkur helst á óvart við að skoða breska hluta Kolkata var hversu skekkta mynd við höfum af veru Breta hér. Samkvæmt Anup eiga indverjar Bretum margt að þakka og þeir áttu sinn þátt í að varðveita hina fornu menningu Indlands, ólíkt öðrum þjóðum sem komu hingað til að valta yfir menninguna og trú innfæddra.
Næst héldum við í kirkju, sem er víst ekki lengur kirkja sem slík. Hún var byggð árið 1783 og hefur að geyma marga áhugaverða muni. Við fengum að fara óáreitt þangað inn til að skoða og taka myndir. Inni í kirkjunni er lítið herbegi sem hefur að geyma myndir og muni frá þeim mönnum sem stjórnuðu breska Indlandi, m.a. 250 ára gamlan stól sem tilheyrði Warren Hastings, fyrsta ríkisstjóra breska Indlands.
Kirkjunni er haldið við af fjölskyldu sem býr þar rétt við hliðina. Við eyddum smá tíma í að taka myndir af fjölskyldunni, sérstaklega heilluðu okkur tveir litir gaurar sem voru meira en til í að stilla sér upp fyrir okkur. Við gáfum þeim nammi þegar við fórum og sáum þá rífa utan af því þegar við keyrðum í burtu. Svo var brunað af stað áður en þeir trylltust úr sykursjokki ;)
Því næst fór Anup með okkur í smá göngutúr til að skoða mannlífið. Við keyptum hálsfestar af götusala og löbbuðum meðfram langri runu af mönnum sem sátu og pikkuðu á ritvélar eins og vitlausir væru. Anup sagði að þetta væru lögskjalaritarar og þangað kæmi fólk með afsöl og lögfræðingar með dómsskjöl til að fá lögleg afrit. Í þessari götu stoppuðum við einnig og fengum okkur te að drekka hjá götusala einum. Teið er drukkið úr leirbollum sem maður hendir svo í götuna, svo leirinn sem notaður í bollana skili sér aftur út í náttúruna.
Því næst var haldið á mjög sérstakan stað þar sem pílagrímar höfðu safnast saman vegna trúarhátíðar sem hafði verið tveimur dögum áður. Hingað kemur fólk víðsvegar að einu sinni á ári, 14 janúar, til þess að baða sig upp úr hinni heilögu á Ganges. Þetta er eitthvað sem allir hindúar verða að gera einu sinni á lífsleiðinni og við sáum að það var sérstaklega mikið af eldra fólki. Anup sagði okkur að um 1 milljón manns kæmi á þessa hátíð og hefst fólkið við m.a. í tjöldum sem við fengum að skoða. Pílagrímarnir þurfa ekkert að borga fyrir þjónustuna sem þarna er boðið upp á, þarna fá þeir að sofa, borða og geta fengið læknisráð.
Þarna voru einnig heilagir menn, hinir svonefndu nöktu Sadu, þeir sem eru ekta Sadu´s hafa algerlega skorið á öll tengsl við jarðbundna hluti...eða svo til. Þeir koma lengst innan úr skóglendum Indlands til að taka þátt í trúarhátíðinni. Anup sagði okkur að þetta væri "once in a lifetime experience", að sjá þessa menn og við erum alveg sammála því. Við gáfum nokkrum þeirra pening, og í staðinn fékk Magga m.a. blessun frá einum þeirra. En þeir biðja ekki um neitt, þæÍ kaupunum fylgdi einnig typpatogunarsýning frá einum (sjá myndir). Að labba þarna um meðal fólksins var ótrúleg upplifun, allir voru svo áhugasamir um okkur á sama tíma og við vorum sem áhugasömust um alla aðra. Fólkið var svo jákvætt og glatt og ...
Eftir þessa upplifun fór Anup með okkur í "gáfumannahluta" Kolkata. Þar eru ótal básar sem selja bækur af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Við fórum einnig á eitt frægasta kaffihús í Kolkata þar sem fólk kemur til að ræða saman yfir kaffibolla. Þó ekkert okkar drykki í raun kaffi gátum við ekki setið kaffilaus við borðið og litið út eins og illa gerðir og illa gefnir hlutir. Kaffið reyndist í raun hið besta og einnig voru pakoras bögglarnir sem við fengum hinir ljúffengustu. Eftir þetta skoðuðum við fleiri bókabása og keyptum m.a. Tinna bækur sem þýddar hafa verið á Hindi.
Næst lá leiðin að heimili frægasta og virtasta rithöfundar Indverja, Rabindranath Tagore, sem vann til Nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1913, fyrstur Asíubúa. Inverjum finnst mikið til hans koma og er heimili hans og fjölskyldunnar vel varðveitt. Þarna voru ýmsir áhugaverðir munir og myndir af Tagore með m.a. Albert Einstein, því karlinn ferðaðist víða um heim. Held að það sé nauðsynlegt að kynna sér betur verk þessa mikla hugsuðar og rithöfundar.
Eftir rólegheitin og kyrrðina í húsi Tagore var aftur haldið út á götur Kolkata í brjálaða umferðina og hávaðann. Leiðin lá í hverfi þar sem 300 fjölskyldur hafa það að aðalvinnu að útbúa leirstyttur af guðunum til að nota við hinar ýmsu trúarhátíðir.
(Þetta er orðin mikil langloka hjá okkur, spurning hvort einhver endist við lesturinn ;) Og enn er eftir að segja frá fleiru sem gerðist þennan dag.)