28 janúar 2009

Myndir!



Vorum að dúndra inn vænum skammti af uppáhaldsmyndefni okkar þessa dagana: Brodrene Arnarssen :)

Allt rólegt á heimavígstöðvum :)


Hér á bæ var ræs klukkan 8.30 og hafði sá minnsti þá sofið í einum dúr alla nóttina frá kl. 21...foreldrarnir nokkuð ánægðir með það :) Stóri bróðir rumskaði við hjalið í þeim minni og þeir lágu um stund hlið við hlið bræðurnir og horfðu á hvern annan, klöppuðu og potuðu...bara yndislegt að horfa á þá saman.

Við fórum til Gests Pálssonar barnalæknis á mánudaginn og það var þraut fyrir litla kallinn okkar. Elvar Orri fékk að koma með af því var svo spenntur að hitta Gest og var handviss um að það væri betra fyrir Hauk Mána að hafa hann með ;) Eftir að hafa togað og teygt og stungið og mælt litla manninn sagði Gestur okkur að honum litist afskaplega vel á þetta eintak. Hann virðist vera hraustur og ekkert sjáanlegt sem er mikill léttir þar sem skýrslan hans var nú svolítið áhyggjuefni í fyrstu. Við eigum nú samt að koma aftur á fimmtudaginn til að lesa úr berklaprufunni og svo aftur á næsta mánudag. Þá ætlar Gestur að láta óma hrygginn á gaurnum, bara til að vera alveg viss um að allt sé í góðu.

Þessa dagana tökum við því bara rólega með gaurunum okkar. Við ætlum að halda Hauk Mána eitthvað inn, Gestur ráðlagði okkur að vera ekkert að æða af stað með hann strax, sagði okkur að það væri margt í gangi þessa dagana þ.á.m. RS-vírusinn. Elvar Orri fór í leikskólann í gær, en hann hafði fengið frí á föstudaginn og mánudaginn. Hann er mjög spenntur að koma heim og hitta litla brósa og sá stutti er glaður að sjá hann. Nú eru þeir feðgar frammi í stofu, nýbúnir að fá sér morgunmat...og þeim minnsta fannst greinilega ekki nóg að fá graut í morgun því hann æddi að borðinu þegar hann sá Arnar og Elvar gæða sér á bananabrauði...alltaf hægt að bæta aðeins við ;) Elvar Orri er að fara í heyrnamælingu og fer því ekki í leikskólann fyrr en um hádegi og er að njóta þess að vakna í rólegheitunum og horfa á Simpson Movie.

Segjum það gott í bili,
Bestu kveðjur úr Skaftó :)

25 janúar 2009

Bræðrastuð...


Erum svona hægt og rólega að koma rútínu á lífið hér á bæ, vorum gjörsamlega búin á því eftir ferðina heim en erum öll að koma til. Allt gengur vel, litli snúður blómstrar og við sjáum mun á honum dag frá degi...sefur vel, borðar vel, hlær og knúsast - gæti ekki verið betra, stóri snúður stendur sig líka afskaplega vel og er mjög hjálplegur og áhugasamur um litla bróðir.

Ætlum að skella inn almennilegri færslu á næstunni og fleiri myndum, höfum bara ekki haft orku í það né tíma (hvað er málið með þennan endalausa óhreina þvott!!! þvottavélin fer að brenna yfir um!). En þangað til segjum við takk fyrir að fylgjast með okkur og takk fyrir allar góðu kveðjurnar...vermir svo sannarlega hjartað að sjá hversu margir fylgdust með ferðalaginu okkar :)

Knús og kossar frá sáttum foreldrum og sætum bræðrum :*

20 janúar 2009

Komin til Delhi...

(skrifað 19. janúar)
Þá erum við komin á Hotel Claridges í Nýju-Delhi, afskaplega fínt hótel en stenst engan veginn samaburð við Oberoi í Kolkata. Það var skrýtin tilfinning að kveðja Kolkata aftur, borgina sem hefur gefið okkur tvo yndislega drengi. Borgina sem maður þolir ekki eina mínútuna en elskar hina. Það var átakanlegt að keyra snemma morguns út á flugvöll og sjá fjölskyldur búandi á gangstéttinni, mamman að þvo strákana sína upp úr vatni úr plastflösku. Og á sama tíma lá í fangi okkar drengur sem hefði hefði kannski átt svipað líf framundan. Um leið og við fullnægðum okkar þörf um fleiri börn og stærri fjölskyldu gátum við gefið honum betra líf.

Ferðin til Delhi gekk vel, flugið var á áætlun og Somdip var hinn rólegasti. Það virðist vera trikkið að gefa honum sem mest að eta, þá er hann ánægðastur. Á flugvellinum í Delhi beið okkar bíll frá hótelinu. Bílstjórinn saup hveljur þegar hann sá allan farangurinn en eftir heilmikið braml og brauk tókst með aðstoð tveggja ungra mann frá Kingfisher að troða öllum töskunum og okkur inn í bílinn. Á leiðinni á hótelið benti bílstjórinn okkur á ýmsa áhugaverða staði á leiðinni og reyndi með sinni bjöguðu ensku að útskýra á hvað hann væri nú eiginlega að benda. Í lokin gaf hann okkur nafnspjald og bauðst til að fara með okkur í skoðunarferð um borgina á morgun. Þó það hafi nú ekki verið ætlunin virtist hann halda að við myndum vera komin niður í lobbý kl. 09:30 og þá myndi túrinn hefjast. Við sögðum honum að við ætluðum nú að hugsa málið og myndum hringja ef okkur langaði í bíltúr.

Þegar við vorum komin upp á hótel var Somdip orðinn hinn argasti þar sem hann hafði ekki fengið almennilega að eta í nokkurn tíma. Eftir pelann, sem var nú ekki alveg eins botnlaus og hann hafði greinilega vonað, varð hann alveg gal og svo reiður að það var ekkert hægt að bjóða honum. Hrísgrjón, banani og ýmislegt annað var reynt en allt kom fyrir ekki. Móðgunin var svo mikil að það var ekki fyrr en löngu síðar sem hann samþykkti að borða eitthvað og eftir það steinsofnaði hann. Hann er sem sagt mjög matarsár.

Á meðan á þessum barningi með mat stóð, var faðir hans í öðrum erindagjörðum. Arnar fór yfir í danska sendiráðið til að ganga frá vegabréfsáritun fyrir litla óseðjandi matargatið. Sendiráðið er hinum megin við hringtorgið sem hótelið stendur við þannig að þangað er stutt labb. Hins vegar vantaði ekki upp á áreitið á þessari stuttu leið. Nokkrir tuk-tuk bílstjórar stoppuðu og vildu fá hann með sér í rúnt og einn maður veitti honum eftirför og reyndi að upplýsa hann um hvert best væri að fara ef vera skyldi að hann ætlaði að versla eitthvað. Eftir stutta viðdvöl í sendiráðinu þurfti að fara og láta útbúa ávísun til sendiráðsins, þar sem þeir eru hættir að taka við peningum. Til að komast í banka reyndist nauðsynlegt að nýta sér þjónustu eins af hinum afar almennilegu tuk-tuk bílstjórum og ekki vantaði þjónustulundina þegar ræða átti verðið: “you tell me what you pay”. Niðurstaðan var 50 rúpíur sem við höfum ekki hugmynd um hvort sé mikið eða lítið hér á bæ, en það eru heilar 130 íslenskar krónum talið. Ferðinni var heitið á Kahn Market sem er hér stutt frá þar sem úir og grúir af verlsunum. Það sem kom skemmtilega á óvart á þessum markaði var hversu lítið áreitið var. Maður gat gengið um og kíkt í glugga án þess að vera kaffærður í öllu því sem verslunin hefur upp á að bjóða. Þegar Arnar var búin í þessu stússi lagði litla fjölskyldan sig saman og steinsvaf í 2 tíma, dauðuppgefin eftir erfiðan dag.

Somdip borðaði sem betur fer vel af kvöldmat, foreldrarnir voru með öndina í hálsinum yfir því að barnið myndi ekkert vilja borða og bara drekka mjólk það sem eftir lifir ferðar. En sem betur fer tók hann vel við og var nú hinn hressasti eftir kvöldmat. Hann vill láta strunsa með sig um herbergið og leika við sig á gólfinu, greinilega sæll með hina nýfengnu athygli. Hann unir sér líka vel einn á gólfinu eða í rúminu að týna upp í sig cheerios. Nú er hann loks sofnaði eftir heilmiklar seríu, það þarf að dingla naghringnum, tosa í tærnar á sér, nudda teppinu sínu við nefið og ýmislegt fleira áður en svefninn sækir að. Foreldrarnir ætla fljótlega að fylgja honum yfir í draumalandið, okkur langar aðeins til að setjast niður og anda eftir að ormur gormur er loks komin í ró ;)

Góða nótt frá Delhi

18 janúar 2009

Síðasti dagurinn okkar í Kolkata...

...og við erum að pakka í töskurnar. Somdip steinsefur eftir nokkuð góðan dag, hann svaf næstum 13 tíma síðustu nótt sem okkur finnst nú bara ansi gott. Hann er búin að vera lítill í sér endrum og eins en átt mjög góðar stundir inná milli. Við erum búin að fá bros, hjal, hlátur og meira að segja dans...en svo kemur skeifan á hann greyið endrum og eins. Hann sleppir varla naghringnum sem hann fékk með sér af barnaheimilinu, leikur með hann og sofnar með hann. Við erum að sjá betur og betur að þetta er matargat og mjög oft er það ástæða skeifunnar, enda fer hún um leið og hann fær eitthvað í gogginn.

Anup kom til okkar um 2 leytið til þess að fara með Mundu og Arnar í bókabúðaráp. Hann kom upp á herbergi og dáðist að drengnum, spjallaði heilmikið við hann á hindi enda virðist Anup vera mjög barngóður maður. Hann er búin að skrifa niður fyrir okkur lista af orðum til að segja við hann og kenna okkur að bera þau fram.

Á meðan þau voru í bókabúðinni áttum við Somdip góðan tíma. Hann tók ca. 2 tíma lúr og vaknaði bara í þvílikt góðu skapi, byrjaði að leika sér og hjala. Ég setti hann á gólfið og minn maður byrjaði bara að skríða á fullu og brosa til mín...vildi greinilega fá mig í leik, ég sá sko alveg prakkarann í honum gægjast fram ;) Hann reyndi líka að standa upp hér og þar og vildi líka labba og láta halda í hendurnar á sér. Frábært að sjá þessa hlið á honum :)

Þegar Munda og Arnar komu úr bókabúðinni bauðst Anup til að fara með okkur í búð sem heitir Fabindia, ætluðum í The Good Companion en hún var því miður lokuð. Fabindia er mjög flott búð, svoldið nýtískuleg, en okkur mömmu fannst nú ungfrúin sem afgreiddi okkur heldur frekjuleg. En við náðum nú samt eyða einhverju þarna ;) Því næst ætluðum við að fara í listagallerí með Anup en rétt misstum af því, lokuðu tíu mínútum áður en við komum. Anup kom með okkur upp á hótel til að kveðja okkur og okkur fannst nú erfitt að kveðja þennan góða mann sem hefur reynst okkur svo vel. Hann bað okkur fyrir góðar kveðjur til vina sinna á Íslandi, sagðist kannski ekki muna öll nöfnin en hann myndi eftir öllu þessu góða fólki sem hann hefði kynnst.

Nú var bara ekkert eftir en að pakka...og það er ekkert "bara", töskurnar farnar að þenjast og þyngjast :)

Skoðunarferð um Kolkata 16. janúar -seinni hluti

Við höfðum fyrr um daginn sagt Anup að okkur langaði að skoða myndlist eftir heimamenn. Þegar við komum aftur í bílinn hringdi Anup eitt símtal og sagði okkur svo að hann hefði verið að tala við góðan vin sinn sem væri listamaður og að hann væri að klára að mála myndir fyrir sýningu sem hann ætlaði að halda eftir tvær vikur. Hann vildi endilega fá okkur í heimsókn og sýna okkur myndirnar sínar. Bílstjórinn okkar hann Rabi átti nú ekki erfitt með að finna heimili listamannsins, sem heitir Nitai Saha og er víst frekar vel þekktur hér á Indlandi og reyndar víðar. Hann tók mjög vel á móti okkur og við fengum að fara inn á heimili hans, konu hans og tveggja barna. Þau búa í litlu herbergi, fjögurra manna fjölskylda í plássi sem er ekki mikið meira en 20 fermetrar. Myndirnar hans eru mjög flottar og við ákváðum að kaupa eina af honum. Okkur leist best á þá sem hann var að klára, en vorum hálf hikandi og vorum ekki viss hvort við gætum keypt mynd sem hann væri að mála fyrir sýninguna. Það var nú ekki vandamál, hann sagðist nú vera listamaðurinn og réði því sjálfur hvaða verk færu á sýninguna. Hann bað okkur um að koma um klukkutíma síðar til að ná í myndina.

Til að “drepa tímann”, ef svo er hægt að komast að orði í þessari mögnuðu borg, fór Anup með okkur að skoða musteri sem tilkeyrir þeim sem aðhyllast Jain-isma. Musterið er í raun eins og risavaxið skartgripabox, allt skreytt með gleri og eðalsteinum, ótrúlega fallegt. Það var mjög notalegt að staldra þarna við og það var mikið líf í garðinum fyrir framan. Anup benti okkur á fallega klædda stúlku í fylgd með foreldrum sínum og sagði okkur að hún væri tilvonandi brúður og í þeim erindagjörðum að hitta vonbiðilinn. Þannig er fyrirkomulagið á þessu hjá þeim, unga parið hittist á einhverjum svona stað og athugar hvernig þeim líst á hvert annað. Ef áhugi er til staðar hittast þau aftur en annars ekki. Þegar Anup hafði bent okkur á þetta var auðvelt að spotta fleiri stúlkur í sömu erindagjörðum, sáum t.d. eina í sínu flottasta pússi og mömmuna vera að laga hana til áður en gæinn mætti á svæðið.

Þegar við höfðum skoðað musterið var komin tími til að fara aftur til listamannsins. Hann var akkúrat að klára myndina og við fengum að fylgjast með þegar hann lagið lokahönd á verkið. Á meðan sátum við á rúminu þeirra í litla herberginu og spjölluðum við litla strákinn hans sem talaði afbragðs ensku. Við gáfum honum póstkort frá Íslandi sem hann var hæstánægður með, sérstaklega kort með mynd af Geysir. Hann hafði einmitt verið að læra um hveri í skólanum en aldrei séð mynd af þeim. Jæja, þegar myndin var tilbúin gengum við frá kaupunum og kvöddum þessa indælu og nægjusömu fjölskyldu.

Því næst héldum við heim til Anups, með smá stoppi á Hyatt hótelinu sem er svakaflott og þar kíktum við aðeins á minjagripabúðina. Kona Anups tók vel á móti okkur og litlu strákarnir hans voru algerar perlur, annar lítill grallari og hinn ábúðafullur stóri bróðir. Maturinn sem við fengum var alveg fyrirtak og greinilega mikið fyrir okkur haft. Við borðum djúpsteikt eggaldin, rækjur og 2 tegundir af fiski sem við kunnum ekki að nefna. Allt var þetta gómsætt og að sjálfsögðu borðað með höndunum. Eftir að hafa spjallað við þau hjón um stund héldum við uppá hótel enda þurftum við að rísa snemma úr rekkju til að fara í siglingu um Ganges og að sjálfsögðu til að vera vel úthvíld þegar við myndum hitta litla prinsinn okkar.

Skoðunarferð um Kolkata - 16.janúar (fyrri hluti)



Þessi dagur er búin að vera ótrúlegur...vægast sagt...og við erum búin að upplifa svo mikið af Kolkata á stuttum tíma. Anup hefur aldeilis staðið sig vel við að hjálpa okkur að sjá sem mest.

Eftir morgunmat í morgun kom Anup og fór með okkur í skoðunarferð um borgina. Hann byrjaði á því að fara með okkur til að skoða Victoria Memorial, sem er minnismerki um Viktoríu Bretadrottningu. Þetta er í raun stór og mikil marmarahöll og safn umkringd miklum garði. Við löbbuðum hring um garðinn og skoðuðum höllina frá ýmsum sjónarhornum. Ákváðum að sleppa því að skoða hana að innan þar sem við getum víða séð málverk og skúlptúra frá Evrópu. Það var mjög gaman að hlusta á Anup, sem er fullur af fróðleik, enda búinn að vera leiðsögumaður í Kolkata í 25 ár. Það sem kom okkur helst á óvart við að skoða breska hluta Kolkata var hversu skekkta mynd við höfum af veru Breta hér. Samkvæmt Anup eiga indverjar Bretum margt að þakka og þeir áttu sinn þátt í að varðveita hina fornu menningu Indlands, ólíkt öðrum þjóðum sem komu hingað til að valta yfir menninguna og trú innfæddra.

Næst héldum við í kirkju, sem er víst ekki lengur kirkja sem slík. Hún var byggð árið 1783 og hefur að geyma marga áhugaverða muni. Við fengum að fara óáreitt þangað inn til að skoða og taka myndir. Inni í kirkjunni er lítið herbegi sem hefur að geyma myndir og muni frá þeim mönnum sem stjórnuðu breska Indlandi, m.a. 250 ára gamlan stól sem tilheyrði Warren Hastings, fyrsta ríkisstjóra breska Indlands.

Kirkjunni er haldið við af fjölskyldu sem býr þar rétt við hliðina. Við eyddum smá tíma í að taka myndir af fjölskyldunni, sérstaklega heilluðu okkur tveir litir gaurar sem voru meira en til í að stilla sér upp fyrir okkur. Við gáfum þeim nammi þegar við fórum og sáum þá rífa utan af því þegar við keyrðum í burtu. Svo var brunað af stað áður en þeir trylltust úr sykursjokki ;)

Því næst fór Anup með okkur í smá göngutúr til að skoða mannlífið. Við keyptum hálsfestar af götusala og löbbuðum meðfram langri runu af mönnum sem sátu og pikkuðu á ritvélar eins og vitlausir væru. Anup sagði að þetta væru lögskjalaritarar og þangað kæmi fólk með afsöl og lögfræðingar með dómsskjöl til að fá lögleg afrit. Í þessari götu stoppuðum við einnig og fengum okkur te að drekka hjá götusala einum. Teið er drukkið úr leirbollum sem maður hendir svo í götuna, svo leirinn sem notaður í bollana skili sér aftur út í náttúruna.

Því næst var haldið á mjög sérstakan stað þar sem pílagrímar höfðu safnast saman vegna trúarhátíðar sem hafði verið tveimur dögum áður. Hingað kemur fólk víðsvegar að einu sinni á ári, 14 janúar, til þess að baða sig upp úr hinni heilögu á Ganges. Þetta er eitthvað sem allir hindúar verða að gera einu sinni á lífsleiðinni og við sáum að það var sérstaklega mikið af eldra fólki. Anup sagði okkur að um 1 milljón manns kæmi á þessa hátíð og hefst fólkið við m.a. í tjöldum sem við fengum að skoða. Pílagrímarnir þurfa ekkert að borga fyrir þjónustuna sem þarna er boðið upp á, þarna fá þeir að sofa, borða og geta fengið læknisráð.
Þarna voru einnig heilagir menn, hinir svonefndu nöktu Sadu, þeir sem eru ekta Sadu´s hafa algerlega skorið á öll tengsl við jarðbundna hluti...eða svo til. Þeir koma lengst innan úr skóglendum Indlands til að taka þátt í trúarhátíðinni. Anup sagði okkur að þetta væri "once in a lifetime experience", að sjá þessa menn og við erum alveg sammála því. Við gáfum nokkrum þeirra pening, og í staðinn fékk Magga m.a. blessun frá einum þeirra. En þeir biðja ekki um neitt, þæÍ kaupunum fylgdi einnig typpatogunarsýning frá einum (sjá myndir). Að labba þarna um meðal fólksins var ótrúleg upplifun, allir voru svo áhugasamir um okkur á sama tíma og við vorum sem áhugasömust um alla aðra. Fólkið var svo jákvætt og glatt og ...

Eftir þessa upplifun fór Anup með okkur í "gáfumannahluta" Kolkata. Þar eru ótal básar sem selja bækur af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Við fórum einnig á eitt frægasta kaffihús í Kolkata þar sem fólk kemur til að ræða saman yfir kaffibolla. Þó ekkert okkar drykki í raun kaffi gátum við ekki setið kaffilaus við borðið og litið út eins og illa gerðir og illa gefnir hlutir. Kaffið reyndist í raun hið besta og einnig voru pakoras bögglarnir sem við fengum hinir ljúffengustu. Eftir þetta skoðuðum við fleiri bókabása og keyptum m.a. Tinna bækur sem þýddar hafa verið á Hindi.

Næst lá leiðin að heimili frægasta og virtasta rithöfundar Indverja, Rabindranath Tagore, sem vann til Nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1913, fyrstur Asíubúa. Inverjum finnst mikið til hans koma og er heimili hans og fjölskyldunnar vel varðveitt. Þarna voru ýmsir áhugaverðir munir og myndir af Tagore með m.a. Albert Einstein, því karlinn ferðaðist víða um heim. Held að það sé nauðsynlegt að kynna sér betur verk þessa mikla hugsuðar og rithöfundar.

Eftir rólegheitin og kyrrðina í húsi Tagore var aftur haldið út á götur Kolkata í brjálaða umferðina og hávaðann. Leiðin lá í hverfi þar sem 300 fjölskyldur hafa það að aðalvinnu að útbúa leirstyttur af guðunum til að nota við hinar ýmsu trúarhátíðir.

(Þetta er orðin mikil langloka hjá okkur, spurning hvort einhver endist við lesturinn ;) Og enn er eftir að segja frá fleiru sem gerðist þennan dag.)

17 janúar 2009

Ein í viðbót af barnaheimilinu...

Somdip



Í þessum rituðu orðum liggur lítill maður sofandi í rúminu okkar og sýgur puttann sinn. Að baki er einn stærsti og hugsanlega erfiðasti dagurinn í lífi hans og hann hefur staðið sig eins og lítil hetja. Það reynir heldur betur á svona smáfólk þegar það er rifið úr sínu umhverfi, þar sem hann er búinn að vera í ca. 15 mánuði, og skellt í fangið á ókunnugu fólki.

Eftir að hafa hvílst um stund á hótelinu eftir siglinguna með Anup lögðum við af stað á barnaheimilið. Við vorum með bílstjórann hans Anup og hann vissi svona nokkurn veginn hvar þetta væri. Anju tók á móti okkur í húsnæðinu þar sem skrifstofurnar eru og þar eru einnig þau börn sem eru að verða tilbúin til að fara til foreldra sinna ásamt nokkrum litlum krílum. Eftir að hafa farið með henni í gegnum öll pappírsmál fórum við inn í herbergið þar sem Somdip var. Hann lá í vöggunni sinn ásamt Irani og Iman, hinum krílunum sem eru að koma til Íslands. Hann var ósköp rólegur, enda kominn tími á miðdegislúrinn hans. Við tókum nokkrar myndir þarna og spjölluðum við Anju og fengum að vita margt um Somdip, hvað hann borðar (og samkvæmt þeim er hann algert matargat), hvernig karakter er hann...."Very naughty" sagði Anju ;) Það var tilfinningaþrungin stund að kveðja með Somdip í fanginu...það var augljóst á fóstrunum, sérstaklega einni, að þær áttu eftir að sjá á eftir honum. Og hvernig þakkar maður þessum konum fyrir að hafa séð um barnið okkar í alla þessa mánuði? Fyrir að hafa ekki einungis fætt hann og klætt heldur líka gefið honum ást og umhyggju...Það eina sem við gátum gert var að segja thank you...og reyna að setja okkar einlæga þakklæti í þessi tvö orð...



Somdip var rólegur (sennilega stjarfur) á leiðinni á hótelið, og steinsofnaði í bílnum (alveg eins og stóri bróðir). Hann svaf svo í ca. 2 tíma eftir að við komum á hótelið og við lögðum okkur aðeins með honum. En þegar hann vaknaði kom áfallið hjá honum og hann var mjög aumur. Það er ekki hægt að lýsa því hversu erfitt það er sjá hann svona sorgmæddan og geta lítið gert. Við vitum að þetta tekur tíma...með tíð og tíma mun hann sjá að við erum ekki svo slæm ;) Jæja við náðum nú loks að róa hann með því að gefa honum að borða...sennilega er leiðin að hjarta svona matargata í gegnum magann ;) Hann borðaði vel og drakk pelann sinn og eftir það var hann nokkuð kátur. Hann sat í rúminu sínu og lék með dót...og við fengum meira að segja smá bros hér og þar. Eftir þetta hefur hann verið svona bæði og...gleymir sér í smástund en grætur inn á milli...og rígheldur í naghringinn sem hann fékk með sér af barnaheimilinu.



Nú vonum við að nóttin verði góð og hann vakni öllu sáttari við hina nýju foreldra sína :)

Bestu kveðjur frá Kolkata...og takk fyrir allar hlýju kveðjurnar :*

p.s. reynum að setja fleiri myndir inn á myndasíðuna á eftir

Stundin að renna upp...

Við vorum að koma inn úr siglingu á Ganges, sem var ótrúleg upplifun, og erum að gera okkur tilbúin til þess að fara á barnaheimilið. Ætlum að reyna að skella inn færslum um gærdaginn og siglinguna þegar tími til gefst en ætli næsta færsla verði nú ekki um lilleman :) Ætlum að fá okkur eitthvað í gogginn og bruna svo á Matri Sneha barnaheimilið....ótrúlegt að komið sé að þessu. Við vonum bara að hann taki okkur vel og allt gangi vel...kannski rétt að senda ósk um gott gengi til Ganesh, sem er einn vinsælasti guðinn hér...og færir fólki gott gengi og gæfu. "Om Ganesh Rama" ;)

Þangað til síðar....

16 janúar 2009

Skoðunarferð um Kolkata - föstudagurinn 17. janúar


Þessi dagur er búin að vera ótrúlegur...vægast sagt...og við erum búin að upplifa svo mikið af Kolkata á stuttum tíma. Anup hefur aldeilis staðið sig vel við að hjálpa okkur að sjá sem mest.

Eftir morgunmat í morgun kom Anup og fór með okkur í skoðunarferð um borgina. Hann byrjaði á því að fara með okkur til að skoða Victoria Memorial, sem er minnismerki um Viktoríu Bretadrottningu. Þetta er í raun stór og mikil marmarahöll og safn umkringd miklum garði. Við löbbuðum hring um garðinn og skoðuðum höllina frá ýmsum sjónarhornum. Ákváðum að sleppa því að skoða hana að innan þar sem við getum víða séð málverk og skúlptúra frá Evrópu. Það var mjög gaman að hlusta á Anup, sem er fullur af fróðleik, enda búinn að vera leiðsögumaður í Kolkata í 25 ár. Það sem kom okkur helst á óvart við að skoða breska hluta Kolkata var hversu skekkta mynd við höfum af veru Breta hér. Samkvæmt Anup eiga indverjar Bretum margt að þakka og þeir áttu sinn þátt í að varðveita hina fornu menningu Indlands, ólíkt öðrum þjóðum sem komu hingað til að valta yfir menninguna og trú innfæddra.

Næst héldum við í kirkju, sem er víst ekki lengur kirkja sem slík. Hún var byggð árið 1783 og hefur að geyma marga áhugaverða muni. Við fengum að fara óáreitt þangað inn til að skoða og taka myndir. Inni í kirkjunni er lítið herbegi sem hefur að geyma myndir og muni frá þeim mönnum sem stjórnuðu breska Indlandi, m.a. 250 ára gamlan stól sem tilheyrði Warren Hastings, fyrsta ríkisstjóra breska Indlands.

Kirkjunni er haldið við af fjölskyldu sem býr þar rétt við hliðina. Við eyddum smá tíma í að taka myndir af fjölskyldunni, sérstaklega heilluðu okkur tveir litir gaurar sem voru meira en til í að stilla sér upp fyrir okkur. Við gáfum þeim nammi þegar við fórum og sáum þá rífa utan af því þegar við keyrðum í burtu. Svo var brunað af stað áður en þeir trylltust úr sykursjokki ;)

Því næst fór Anup með okkur í smá göngutúr til að skoða mannlífið. Við keyptum hálsfestar af götusala og löbbuðum meðfram langri runu af mönnum sem sátu og pikkuðu á ritvélar eins og vitlausir væru. Anup sagði að þetta væru lögskjalaritarar og þangað kæmi fólk með afsöl og lögfræðingar með dómsskjöl til að fá lögleg afrit. Í þessari götu stoppuðum við einnig og fengum okkur te að drekka hjá götusala einum. Teið er drukkið úr leirbollum sem maður hendir svo í götuna, svo leirinn sem notaður í bollana skili sér aftur út í náttúruna.

Því næst var haldið á mjög sérstakan stað þar sem pílagrímar höfðu safnast saman vegna trúarhátíðar sem hafði verið tveimur dögum áður. Hingað kemur fólk víðsvegar að einu sinni á ári, 14 janúar, til þess að baða sig upp úr hinni heilögu á Ganges. Þetta er eitthvað sem allir hindúar verða að gera einu sinni á lífsleiðinni og við sáum að það var sérstaklega mikið af eldra fólki. Anup sagði okkur að um 1 milljón manns kæmi á þessa hátíð og hefst fólkið við m.a. í tjöldum sem við fengum að skoða. Pílagrímarnir þurfa ekkert að borga fyrir þjónustuna sem þarna er boðið upp á, þarna fá þeir að sofa, borða og geta fengið læknisráð.
Þarna voru einnig heilagir menn, hinir svonefndu nöktu Sadu, þeir sem eru ekta Sadu´s hafa algerlega skorið á öll tengsl við jarðbundna hluti...eða svo til. Þeir koma lengst innan úr skóglendum Indlands til að taka þátt í trúarhátíðinni. Anup sagði okkur að þetta væri "once in a lifetime experience", að sjá þessa menn og við erum alveg sammála því. Við gáfum nokkrum þeirra pening, og í staðinn fékk Magga m.a. blessun frá einum þeirra. En þeir biðja ekki um neitt, þæÍ kaupunum fylgdi einnig typpatogunarsýning frá einum (sjá myndir). Að labba þarna um meðal fólksins var ótrúleg upplifun, allir voru svo áhugasamir um okkur á sama tíma og við vorum sem áhugasömust um alla aðra. Fólkið var svo jákvætt og glatt og ...

Eftir þessa upplifun fór Anup með okkur í "gáfumannahluta" Kolkata. Þar eru ótal básar sem selja bækur af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Við fórum einnig á eitt frægasta kaffihús í Kolkata þar sem fólk kemur til að ræða saman yfir kaffibolla. Þó ekkert okkar drykki í raun kaffi gátum við ekki setið kaffilaus við borðið og litið út eins og illa gerðir og illa gefnir hlutir. Kaffið reyndist í raun hið besta og einnig voru pakoras bögglarnir sem við fengum hinir ljúffengustu. Eftir þetta skoðuðum við fleiri bókabása og keyptum m.a. Tinna bækur sem þýddar hafa verið á Hindi.

Næst lá leiðin að heimili frægasta og virtasta rithöfundar Indverja, Rabindranath Tagore, sem vann til Nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1913, fyrstur Asíubúa. Inverjum finnst mikið til hans koma og er heimili hans og fjölskyldunnar vel varðveitt. Þarna voru ýmsir áhugaverðir munir og myndir af Tagore með m.a. Albert Einstein, því karlinn ferðaðist víða um heim. Held að það sé nauðsynlegt að kynna sér betur verk þessa mikla hugsuðar og rithöfundar.

Eftir rólegheitin og kyrrðina í húsi Tagore var aftur haldið út á götur Kolkata í brjálaða umferðina og hávaðann. Leiðin lá í hverfi þar sem 300 fjölskyldur hafa það að aðalvinnu að útbúa leirstyttur af guðunum til að nota við hinar ýmsu trúarhátíðir.

(Þetta er orðin mikil langloka hjá okkur, spurning hvort einhver endist við lesturinn ;) Og enn er eftir að segja frá fleiru sem gerðist þennan dag.)

15 janúar 2009

... og by the way

... vorum að fá sendar nýjar myndir af prinsinum, teknar af vinkonu Helgu og Þórhalls sem býr hér í Kolkata. Kunnum henni okkar bestu þakkir fyrir!

Kolkata...

Þegar til Kolkata var komið beið okkar bílstjóri frá hótelinu sem kom okkur svo á leiðarenda, Oberoi Grand hótelið. Bílstjórinn var hinn fínasti og fræddi okkur heilmikið um umhverfið á leiðinni. Það var góð tilfinning að rúlla inn um hliðin a Oberoi Grand enda leið okkur mjög vel þar þegar við sóttum Elvar Orra. Það vakti þó helst athygli okkar er hversu mikið öryggisgæslan á hótelinu hefur verið stórefld eftir árásirnar á Mumbai og er hver bíll grandskoðaður, leitað á hverjum þeim sem ætlar inn á hótelið og allur farangur rannsakaður í þaula. Þetta veitir manni nú bara góða öryggistilfinningu og maður lætur sig bara hafa það þó kíkt sé í veski og poka og skannanum rennt yfir líkamann í hvert sinn er við göngum inn á hótelið.

Þjónustan hér er alveg fyrirtaks, hér bukta sig allir fyrir okkur og setja hendru í bænastöðu fyrir framan brjóst...ég er ekki viss um að Beta gamla bretadrolla fengi betri þjónustu ;) Herbergið sem við fengum er alveg fyrsta flokks, við erum uppi á 4. hæð með útsýni yfir sundlaugargarðinn og mamma er á þriðju hæð með jafnvel enn betra útsýni. Sá sem tjékkaði okkur inn tók það sérstaklega fram að við værum að fá þeirra bestu herbergi. Okkur grunar nú að það hafi eitthvað með það að gera að við tókum það fram, þegar við bókuðum, að við hefðum verið þarna áður og hefðum verið mjög ánægð.

Þegar við komum upp á herbergi ákváðum við að hringja í Anju og fá að vita hvenær við ættum að sækja litla prinsinn. Hún bað okkur um að koma kl. 12 á laugardaginn...og það er hér með staðfest: Herra litli prins hittir foreldra sína kl. 12 á laugardaginn 17. janúar :) Þegar símtalinu við hana lauk hringdum við í Anup, leiðsögumanninn okkar, og sjá hvort hann væri til í að taka okkur í smá túr um eftirmiðdaginn. Hann var meira en til í það og kom til okkar um fimm leytið. Í millitíðinni gátum við lagt okkur (eða öllu heldur hrunið í rúmið og steinrotast) og fengið okkur að borða á einum af veitingastöðum hótelsins.

Anup virkaði rosalega vel á okkur, höfðum heyrt margt gott um hann og hann stóðst allar væntingar, einstaklega hlýlegur maður. Við byrjuðum á að setjast aðeins niður með honum og ræða um plan dagsins og það fyrsta sem hann spurði okkur um var af hverju við stoppuðum svona stutt í Kolkata...flestir íslendingarnir sem hann hafði hitt stoppuðu í ca. 7 daga. Við sögðum honum hvert erindi okkar væri hér, sem hann hafði nú reyndar getið sér til um, og að við þyrftum því miður að fara til Delhi til að fá vegabréfsáritun fyrir ungann. Anup kom okkur svo algerlega á óvart með því að spyrja hvort við vildum ekki bara rúlla við hjá Anju, á barnaheimilið, og sjá drenginn! Við vorum nú meira en til í það en vorum eitthvað að efast um hvernig Anju tæki því en Anup hló bara að því og sagði að þetta væri örugglega lítið mál. Þau eru greinilega góðir vinir því hann bjallaði bara í hana og spurði en hún var þá bara nýfarin af barnaheimilinu en sagði að annars hefði þetta verið ekkert mál...Ojæja, það styttust í laugardaginn ;)

Anup byrjaði svo á að bruna með okkur í hindi musteri og það var einstaklega skemmtileg upplifun...og ekki slæmt að vera þarna með honum. Hér þekkja allir hann og fær maður því meiri frið og almennilegheit heldur en ef við værum ein á ferð. Anup er líka hafsjór af fróðleik og sagði okkur margt um trúna og hina mörgu guði hennar. Hann sagði okkur m.a. að í gær var mjög heilagur dagur og því margt um manninn í borginni. Fólk þyrpist sem sagt hingað, eða í ca. 100 km fjarlægð við Kolkata til þess að baða sig í Kolkata. Margt af þessu fólki var núna statt í þessu musteri. Musterið sjálft er byggt úr marmara og tók u.þ.b. 35 ár að klára það. Það var mjög gaman að vera staddur þarna á þessum tíma og sjá fólkið tilbiðja guðina sína, heyra munkana syngja og kveikja á kertum og reykelsum.

Því næst fór Anup með okkur á markað sem hann mælti með og sagði að væri miklu betri en sá sem er rétt hjá hótelinu okkar. Það var mjög fínt að rölta þarna og áreitið var í lágmarki. Við náðum að versla eitthvað smá en vorum nú meira bara að skoða...svona í þetta sinn.

Anup og bílstjórinn hans keyrðu okkur svo upp á hótel eftir að við höfðum ákveðið plön morgundagsins. Hann ætlar að sækja okkur kl. 9 og reyna að sýna okkur sem flest yfir daginn, svoldið erfitt að þurfa að pakka svona mörgu í svona stuttan tíma. En við treystum því að hann eigi eftir að gera daginn góðan. Svo er okkur barasta boðið heim til hans í mat annað kvöld. Það verður spennandi að fá að bragða á ekta bengölskum mat og sjá bengalskt heimili :)

Í þessum rituðu orðum vorum við að klára að borða kvöldmatinn okkar, ákváðum bara að panta okkur upp á herbergi enda erum við gersamlega búin á því eftir ferðalagið. Þannig að nú er það bara bælið sem bíður, enda um að gera að vera ferskur á morgun. Sendum ykkur hlýjar kveðjur frá Kolkata og kærar þakkir fyrir góðar kveðjur í gestabókina, gaman að sjá hversu margir eru að fylgjast með ferðalaginu :)

Knús og kossar frá Indlandi og sérstaklega stórt knús til hjartagullsins okkar sem bíður heima á Fróni...elskum þig endalaust :*

Biðin langa í Delhi...

Flugið með KLM gekk afskaplega vel, vélin var meira að segja aðeins á undan áætlun … sem þýddi í raun bara lengri bið fyrir okkur í Delhi. Reyndar fannst okkur hálf lélegt að hafa ekki sér sjónvarpsskjá í hverju sæti (maður er orðinn svo góðu vanur), en flugtíminn leið mjög hratt. Maturinn var einnig mjög góður og framandi, KLM er í samvinnu við einhvern indverskan kokk og fékk maður nokkra mismunandi rétti, sem bornir voru fram í tvennu lagi fyrst stuttu eftir flugtak og svo aftur um mitt flugið.

Áður en varði stóðum við svo í komusal flugvallarins í Delhi og fundum aftur þessa indversku lykt sem er svo einkennandi fyrir Indland er í raun afar erfitt að lýsa.

Biðin við immigration var miklu styttri en þegar við vorum hérna síðast, vorum komin í gegn á u.þ.b. 20 mínútum. Við tók svo 7 tíma bið eftir tengiflugi til Kolkata. Við ákváðum að vera bara í rólegheitum í komusal alþjóðaflugmegin áður en við færðum okkur yfir í innanlandsflugstöðina. Okkur fannst öruggara að vera þar, þar sem við vissum lítið um það hvernig brottfararsalurinn í innanlandinu væri.

Búið var að segja okkur að innritun myndi hefjast 3 tímum fyrir brottför þannig að rétt eftir kl. 3 ákváðum við að færa okkur yfir. Þegar við vorum að labba út og ætluðum að fara í pre-paid-taxi básinn til að láta keyra okkur á milli flugstöðva rákum við augun í bás frá Kingfisher sem er flugfélagið sem við flugum með til Kolkata. Við spurðum þar hvernig væri best að komast á milli og þá var okkur bent á inngang að Inter-Terminal-Transit-Lounge þar sem við gætum fengið frítt far með rútu á milli. Inni í þessu “lounge-i” voru svo leðursófar og bara nokkuð fín aðstaða. Sáum þarna að við hefðum átt að færa okkur fyrr yfir í þessa fínni stofu.

Rútuferðin á milli flugstöðvanna var mjög áhugaverð. Innanlandsflugstöðin er hinu megin við flugbrautina og keyrði rútan inni á flugvallarsvæðinu og meðfram flugbrautinni yfir að Terminal 1A þaðan sem við áttum að fljúga. Annað slagið var stoppað við rammgerð hlið, þar sem bílstjórinn öskraði eitthvað reiðilega út um gluggann og hliðin opnuðust um hæl.

Innanlandsflugstöðin var hin snyrtilegasta og mjög fínt að bíða þar, meira segja hægt að fá sér McDonalds … þó ekkert okkar hafi hætt sér í það.

Kingfisher virðist vera gott flugfélag og á móti okkur tóku einkennisklæddir menn sem tóku farangurskerrurnar af okkur og leiddu okkur alveg frá upphafi til enda … og ætluðust örugglega til þess að fá greitt fyrir. Við spáðum mikið í þetta, manni fannst þetta góð þjónusta hjá fínu flugfélagi, þar sem greitt er dýru verði fyrir flug … og að eiga svo að þurfa að borga sérstaklega fyrir að kerrurnar séu keyrðar frá A til B. En við gaukuðum að þeim smá þjórfé og við það kættust þeir að sjálfsögðu.

Vélin átti að leggja af stað til Kolkata kl. 06:55 og áttum við að fara um borð kl. 06:25. Kl. 06:30 fóru að berast tilkynningar um að vegna þoku í Kolkata myndi flugið tefjast eitthvað. Tveimur tímum á eftir áætlun fór vélin svo í loftið og því urðu tímarnir sem áttu að vera 7 allt í einu 9. Við vorum orðin ansi þreytt eftir þessa löngu bið og sáum flugvélasætin í hillingu.

Flugferðin með Kingfisher gekk mjög vel, í þeirri vél var sjónvarpsskjár í hverju sæti! Reyndar vorum við orðin svo þreytt að við höfðum engan sérstakan áhuga á að horfa á sjónvarpið. Maturinn um borð og þjónustan var alveg fyrsta flokks, enda hreykja þeir sér af því að vera “Indias only 5 star airline”

13 janúar 2009

Ferðin hafin

Lögðum af stað eldsnemma eftir stuttan svefn í morgun. Bröttför frá Keflavík var kl. 07:50 og var nánast engin bið í innritun, eitthvað rólegt að gera þessa dagana. Flugið til Amsterdam gekk eins og í sögu, nýttum okkur nýja skjáskemmtikerfið hjá Icelandair í frekar tómlegri vél.

Eftir lendingu í Amsterdam fórum við með hótelskutlunni á hótelið okkar. Hótelið er í um 10 mínútna fjarlægð frá Schiphol flugvelli og er bara hið fínasta hótel.

Eftir að hafa komið okkur fyrir á herbergjunum héldum við niðrí bæ til að litast um í Amsterdam og reyna að versla eitthvað sem átti eftir að redda fyrir Indland. Ekki er nú hægt að segja að mikið hafi verið verslað, sérstaklega þar sem gengi evrunnar er ekki okkar vinur þessa dagana. Þrátt fyrir 50% afslátt í hinum ýmsu verslunum var verðið of hátt miðað við væntingar.

Eftir búðarráp og labb um Amsterdam héldum við aftur á hótelið og fórum að fá okkur að borða á hótelveitingastaðnum sem var bara ansi flottur. Stór salur, arineldur og kósíheit. Maturinn var líka ekkert slor og eftirréttirnir algjört gúmmelaði.

Eftir matinn vorum við algerlega búin á því og liggjum í leti uppi í herbergi og veltum því fyrir okkur hvort maður eigi að nenna að fara í sturtu núna, eða geyma það þangað til í fyrramálið ... miklar pælingar ;-)

Í fyrramálið er svo flogið kl. 11:05 frá Amsterdam með KLM til Delhi og svo áfram með Kingfisher til Kolkata eftir um 7 tíma bið á flugvellinum í Delhi. Þangað verðum við svo komin kl. 11:05 á fimmtudaginn (staðartími).

Næstu skrif verða að öllum líkindum frá Kolkata og sendum við hlýjar kveðjur til fjölskyldunnar og allra annarra sem eru að fylgjast með þessu ferðalagi okkar.

08 janúar 2009

Ferðastressið....

...er farið að gera vart við sig hjá okkur, enda eru bara nokkrir dagar til stefnu. Þessi vika hefur liðið undarlega hjá okkur hjónunum, okkur finnst við hafa svo ótal margt að gera fyrir brottför en gerum samt mest af því að ganga um gólfin í stefnuleysi. Það er óneitanlega öðruvísi tilfinning að undirbúa þessa ferð en hina fyrri, spenningurinn yfir litla peðinu er alveg í hæsta gír en nú höfum við annað örlítið stærra peð að hugsa um...og eins víst og að hans litla hjarta á eftir að verða lítið þá eiga foreldrahjörtun eftir að eiga svoldið bágt með að skilja hann eftir. Mamman á heimilinu á það líka til að ofhugsa hluti...og finnur svoldið til með honum þar sem líf hans er að breytast mikið. Hann sem hefur verið sólin í lífi okkar frá því við sáum hann fyrst á nú eftir að venjast því að inn í spilið komi önnur sól fyrir foreldrana til að snúast um. En við erum bjartsýn á að allt gangi vel og þeir bræður eigi eftir að verða bestu mátar...og að stærri sólin átti sig á að það er til nóg af ást fyrir þá tvo...og meira en það :)

Annars er þetta allt að koma hjá okkur...búið að panta allt sem panta þarf: flug, hótel, fararkost frá hóteli, leiðsögumann...búið að týna til flesta pappíra sem til þarf...versla það sem til þarf í apóteki fyrir lítinn mann og stærri ferðalanga og einnig að kaupa bleyjur og eitthvað matarkyns handa honum. Svo á bara eftir að henda fötum í tösku og skella sér af stað ;)

Ferðaplan okkar er á þessa leið:

Þriðjudagur 13. jan. - Flogið til Amsterdam og gist þar eina nótt.
Miðvikudagur 14. jan. - Amsterdam-Delhi/Delhi-Kolkata
Fimmtudagur 15. jan. - Kolkata, komin þangað um morgunin. Ef næg orka er fyrir hendi er ætlunin að taka smá skoðunartúr.
Föstudagur 16. jan. - Kolkata, skoðunarferð með Anup.
Laugardagur 17. jan. - STÓRI dagurinn! Fáum loks að hitta herra lillemann Hauk Mána Somdip Arnarsson :)
Sunnudagur 18. jan. - Tjillað á hótelinu með fyrrnefndum herra lillemann...
Mánudagur 19. jan. - Fljúgum til Delhi þar sem við þurfum að fara í sendiráðið til að fá vegabréfsáritun fyrir HMSA
Þriðjudagur 20. jan. - Delhi
Miðvikudagur 21. jan. - Delhi
Fimmtudagur 22. jan. - Delhi-Amsterdam/Amsterdam-Keflavík....

Og þannig er nú það...

04 janúar 2009

Jólamyndir....



Vorum að setja inn fyrsta skammt af jólamyndum á myndasíðuna okkar. Erum búin að hafa það ferlega gott yfir hátíðarnar og njóta þess í botn að vera saman, hitta ættingja og vini, spila og borða góðan mat...og konfekt...og macintosh...og smákökur...úfff...

Elvar Orri er búin að vera algert jólabarn, fílar greinilega jólin í botn. Við erum búin að fara á nokkur jólaböll og hann hefur sungið öll jólalögin fullum hálsi, kann þetta allt greinilega :) Og eitthvað fékk barnið nú af gjöfum...pakkatryllingurinn var í algleymingi á aðfangadag...tryllingur er kannski aðeins of sterkt til orða tekið, hehe. Hann var allavega mjög spenntur yfir pökkunum og ánægður með það sem hann fékk, raðaði svo góssinu upp í væna hrúgu áður en hann sneri sér að næstu gjöf.

Nú er svo komið að því að snúa blessuðum sólarhringnum við, enda leikskóli á morgun. Elvar Orri hefur verið að vakna ansi seint, eins og foreldrarnir, og nú sjáum við fram á að hann eigi eftir að verða lengi að sofna í kvöld og grútfúll á morgun...sjáum hvað setur ;)

Haukur Máni er stóra brósa ofarlega í huga og hann talar mikið um hann. Nú er hann líka farin að átta sig á því að það er að koma að stóru stundinni. Í dag komu fyrstu tárin yfir væntanlegum söknuði yfir foreldrunum. Við vorum að ræða hversu heppinn hann væri að eiga svona stóra fjölskyldu og að allir vildu fá hann í gistingu til sín, þegar hann tekur það fram að mamma og pabbi þurfi samt að hringja í alla frá Indlandi...ef hann skyldi fara að gráta! Mamma sagði að auðvitað myndum við heyra í honum og að við myndum líka sakna hans mikið...þá heyrist í stubbnum: "Mamma...það koma meira að segja smá tár í augun núna"....ekki laust við að mammsa hafi fengið tár í sín augu líka ;) Svo kjökraði hann smá en var fljótur að jafna sig. Við vonum samt innilega að hann eigi eftir að njóta sín á meðan við erum í burtu og verði ekki mjög vængbrotinn...

Núna rétt fyrir svefninn barst Delhi í tal hjá okkur og að það væri víst eitthvað kalt þar um þessar mundir...og hann leggur auðvitað við hlustir og segir "Delhi! Það er rétt hjá Indlandi!" Við segjum honum að Delhi sé í Indlandi og að vonandi sé nú litla bróðir ekki kalt. Hann horfir þá móðir sína eins og hún sé eitthvað skrýtin: "Mamma! Hann er í Kalkútta en ekki Delhi!". Já hann er með þetta allt á hreinu.