(skrifað 19. janúar)
Þá erum við komin á Hotel Claridges í Nýju-Delhi, afskaplega fínt hótel en stenst engan veginn samaburð við Oberoi í Kolkata. Það var skrýtin tilfinning að kveðja Kolkata aftur, borgina sem hefur gefið okkur tvo yndislega drengi. Borgina sem maður þolir ekki eina mínútuna en elskar hina. Það var átakanlegt að keyra snemma morguns út á flugvöll og sjá fjölskyldur búandi á gangstéttinni, mamman að þvo strákana sína upp úr vatni úr plastflösku. Og á sama tíma lá í fangi okkar drengur sem hefði hefði kannski átt svipað líf framundan. Um leið og við fullnægðum okkar þörf um fleiri börn og stærri fjölskyldu gátum við gefið honum betra líf.
Ferðin til Delhi gekk vel, flugið var á áætlun og Somdip var hinn rólegasti. Það virðist vera trikkið að gefa honum sem mest að eta, þá er hann ánægðastur. Á flugvellinum í Delhi beið okkar bíll frá hótelinu. Bílstjórinn saup hveljur þegar hann sá allan farangurinn en eftir heilmikið braml og brauk tókst með aðstoð tveggja ungra mann frá Kingfisher að troða öllum töskunum og okkur inn í bílinn. Á leiðinni á hótelið benti bílstjórinn okkur á ýmsa áhugaverða staði á leiðinni og reyndi með sinni bjöguðu ensku að útskýra á hvað hann væri nú eiginlega að benda. Í lokin gaf hann okkur nafnspjald og bauðst til að fara með okkur í skoðunarferð um borgina á morgun. Þó það hafi nú ekki verið ætlunin virtist hann halda að við myndum vera komin niður í lobbý kl. 09:30 og þá myndi túrinn hefjast. Við sögðum honum að við ætluðum nú að hugsa málið og myndum hringja ef okkur langaði í bíltúr.
Þegar við vorum komin upp á hótel var Somdip orðinn hinn argasti þar sem hann hafði ekki fengið almennilega að eta í nokkurn tíma. Eftir pelann, sem var nú ekki alveg eins botnlaus og hann hafði greinilega vonað, varð hann alveg gal og svo reiður að það var ekkert hægt að bjóða honum. Hrísgrjón, banani og ýmislegt annað var reynt en allt kom fyrir ekki. Móðgunin var svo mikil að það var ekki fyrr en löngu síðar sem hann samþykkti að borða eitthvað og eftir það steinsofnaði hann. Hann er sem sagt mjög matarsár.
Á meðan á þessum barningi með mat stóð, var faðir hans í öðrum erindagjörðum. Arnar fór yfir í danska sendiráðið til að ganga frá vegabréfsáritun fyrir litla óseðjandi matargatið. Sendiráðið er hinum megin við hringtorgið sem hótelið stendur við þannig að þangað er stutt labb. Hins vegar vantaði ekki upp á áreitið á þessari stuttu leið. Nokkrir tuk-tuk bílstjórar stoppuðu og vildu fá hann með sér í rúnt og einn maður veitti honum eftirför og reyndi að upplýsa hann um hvert best væri að fara ef vera skyldi að hann ætlaði að versla eitthvað. Eftir stutta viðdvöl í sendiráðinu þurfti að fara og láta útbúa ávísun til sendiráðsins, þar sem þeir eru hættir að taka við peningum. Til að komast í banka reyndist nauðsynlegt að nýta sér þjónustu eins af hinum afar almennilegu tuk-tuk bílstjórum og ekki vantaði þjónustulundina þegar ræða átti verðið: “you tell me what you pay”. Niðurstaðan var 50 rúpíur sem við höfum ekki hugmynd um hvort sé mikið eða lítið hér á bæ, en það eru heilar 130 íslenskar krónum talið. Ferðinni var heitið á Kahn Market sem er hér stutt frá þar sem úir og grúir af verlsunum. Það sem kom skemmtilega á óvart á þessum markaði var hversu lítið áreitið var. Maður gat gengið um og kíkt í glugga án þess að vera kaffærður í öllu því sem verslunin hefur upp á að bjóða. Þegar Arnar var búin í þessu stússi lagði litla fjölskyldan sig saman og steinsvaf í 2 tíma, dauðuppgefin eftir erfiðan dag.
Somdip borðaði sem betur fer vel af kvöldmat, foreldrarnir voru með öndina í hálsinum yfir því að barnið myndi ekkert vilja borða og bara drekka mjólk það sem eftir lifir ferðar. En sem betur fer tók hann vel við og var nú hinn hressasti eftir kvöldmat. Hann vill láta strunsa með sig um herbergið og leika við sig á gólfinu, greinilega sæll með hina nýfengnu athygli. Hann unir sér líka vel einn á gólfinu eða í rúminu að týna upp í sig cheerios. Nú er hann loks sofnaði eftir heilmiklar seríu, það þarf að dingla naghringnum, tosa í tærnar á sér, nudda teppinu sínu við nefið og ýmislegt fleira áður en svefninn sækir að. Foreldrarnir ætla fljótlega að fylgja honum yfir í draumalandið, okkur langar aðeins til að setjast niður og anda eftir að ormur gormur er loks komin í ró ;)
Góða nótt frá Delhi
2 ummæli:
Hæ hæ elskurnar, Iceland calling!
Mikið er gaman að lesa ferðasöguna ykkar og sjá myndir!
Somdip er algjör gullmoli og gaman hvað hann er mikið matargat sá litli ;-)
Það verður æðislegt þegar þið sameinist öll, hann er heppinn hann Somdip að hafa Elvar stóra bró til að leika við og passa sig..
Okkur hlakkar ótrúlega til að hitta ykkur öll þegar tími gefst til eftir aðlögunina :-)
Bestu kveðjur til Delhi og knús til Mundu ömmu líka!! Ótrúlegt ævintýr fyrir hana að upplifa þetta með ykkur.
Knús og kossar,
ykkar vinir, Hrefna, Þröstur og börn *****
ps. Harpa Rós benti á Somdip áðan og sagði "TAKA" :-) henni líst vel á nýja vin sinn :-D
Innilega til hamingju með litla prins! Krónprinsinn á heimilinu eflaust mjög spenntur að sjá litla bróður.
Leiðin að hjarta flestra er í gegnum magann, er það ekki ;-)
Gaman hvað þið eruð dugleg að skrifa, manni fer að langa til Indlands bara!
Bíðum spennt eftir að lesa meira frá ferðinni ykkar.
Ednborgarkveðjur,
Rósa &co.
Skrifa ummæli