18 janúar 2009

Síðasti dagurinn okkar í Kolkata...

...og við erum að pakka í töskurnar. Somdip steinsefur eftir nokkuð góðan dag, hann svaf næstum 13 tíma síðustu nótt sem okkur finnst nú bara ansi gott. Hann er búin að vera lítill í sér endrum og eins en átt mjög góðar stundir inná milli. Við erum búin að fá bros, hjal, hlátur og meira að segja dans...en svo kemur skeifan á hann greyið endrum og eins. Hann sleppir varla naghringnum sem hann fékk með sér af barnaheimilinu, leikur með hann og sofnar með hann. Við erum að sjá betur og betur að þetta er matargat og mjög oft er það ástæða skeifunnar, enda fer hún um leið og hann fær eitthvað í gogginn.

Anup kom til okkar um 2 leytið til þess að fara með Mundu og Arnar í bókabúðaráp. Hann kom upp á herbergi og dáðist að drengnum, spjallaði heilmikið við hann á hindi enda virðist Anup vera mjög barngóður maður. Hann er búin að skrifa niður fyrir okkur lista af orðum til að segja við hann og kenna okkur að bera þau fram.

Á meðan þau voru í bókabúðinni áttum við Somdip góðan tíma. Hann tók ca. 2 tíma lúr og vaknaði bara í þvílikt góðu skapi, byrjaði að leika sér og hjala. Ég setti hann á gólfið og minn maður byrjaði bara að skríða á fullu og brosa til mín...vildi greinilega fá mig í leik, ég sá sko alveg prakkarann í honum gægjast fram ;) Hann reyndi líka að standa upp hér og þar og vildi líka labba og láta halda í hendurnar á sér. Frábært að sjá þessa hlið á honum :)

Þegar Munda og Arnar komu úr bókabúðinni bauðst Anup til að fara með okkur í búð sem heitir Fabindia, ætluðum í The Good Companion en hún var því miður lokuð. Fabindia er mjög flott búð, svoldið nýtískuleg, en okkur mömmu fannst nú ungfrúin sem afgreiddi okkur heldur frekjuleg. En við náðum nú samt eyða einhverju þarna ;) Því næst ætluðum við að fara í listagallerí með Anup en rétt misstum af því, lokuðu tíu mínútum áður en við komum. Anup kom með okkur upp á hótel til að kveðja okkur og okkur fannst nú erfitt að kveðja þennan góða mann sem hefur reynst okkur svo vel. Hann bað okkur fyrir góðar kveðjur til vina sinna á Íslandi, sagðist kannski ekki muna öll nöfnin en hann myndi eftir öllu þessu góða fólki sem hann hefði kynnst.

Nú var bara ekkert eftir en að pakka...og það er ekkert "bara", töskurnar farnar að þenjast og þyngjast :)

Engin ummæli: