Áður en varði stóðum við svo í komusal flugvallarins í Delhi og fundum aftur þessa indversku lykt sem er svo einkennandi fyrir Indland er í raun afar erfitt að lýsa.
Biðin við immigration var miklu styttri en þegar við vorum hérna síðast, vorum komin í gegn á u.þ.b. 20 mínútum. Við tók svo 7 tíma bið eftir tengiflugi til Kolkata. Við ákváðum að vera bara í rólegheitum í komusal alþjóðaflugmegin áður en við færðum okkur yfir í innanlandsflugstöðina. Okkur fannst öruggara að vera þar, þar sem við vissum lítið um það hvernig brottfararsalurinn í innanlandinu væri.
Búið var að segja okkur að innritun myndi hefjast 3 tímum fyrir brottför þannig að rétt eftir kl. 3 ákváðum við að færa okkur yfir. Þegar við vorum að labba út og ætluðum að fara í pre-paid-taxi básinn til að láta keyra okkur á milli flugstöðva rákum við augun í bás frá Kingfisher sem er flugfélagið sem við flugum með til Kolkata. Við spurðum þar hvernig væri best að komast á milli og þá var okkur bent á inngang að Inter-Terminal-Transit-Lounge þar sem við gætum fengið frítt far með rútu á milli. Inni í þessu “lounge-i” voru svo leðursófar og bara nokkuð fín aðstaða. Sáum þarna að við hefðum átt að færa okkur fyrr yfir í þessa fínni stofu.
Rútuferðin á milli flugstöðvanna var mjög áhugaverð. Innanlandsflugstöðin er hinu megin við flugbrautina og keyrði rútan inni á flugvallarsvæðinu og meðfram flugbrautinni yfir að Terminal 1A þaðan sem við áttum að fljúga. Annað slagið var stoppað við rammgerð hlið, þar sem bílstjórinn öskraði eitthvað reiðilega út um gluggann og hliðin opnuðust um hæl.
Innanlandsflugstöðin var hin snyrtilegasta og mjög fínt að bíða þar, meira segja hægt að fá sér McDonalds … þó ekkert okkar hafi hætt sér í það.
Kingfisher virðist vera gott flugfélag og á móti okkur tóku einkennisklæddir menn sem tóku farangurskerrurnar af okkur og leiddu okkur alveg frá upphafi til enda … og ætluðust örugglega til þess að fá greitt fyrir. Við spáðum mikið í þetta, manni fannst þetta góð þjónusta hjá fínu flugfélagi, þar sem greitt er dýru verði fyrir flug … og að eiga svo að þurfa að borga sérstaklega fyrir að kerrurnar séu keyrðar frá A til B. En við gaukuðum að þeim smá þjórfé og við það kættust þeir að sjálfsögðu.
Vélin átti að leggja af stað til Kolkata kl. 06:55 og áttum við að fara um borð kl. 06:25. Kl. 06:30 fóru að berast tilkynningar um að vegna þoku í Kolkata myndi flugið tefjast eitthvað. Tveimur tímum á eftir áætlun fór vélin svo í loftið og því urðu tímarnir sem áttu að vera 7 allt í einu 9. Við vorum orðin ansi þreytt eftir þessa löngu bið og sáum flugvélasætin í hillingu.
Flugferðin með Kingfisher gekk mjög vel, í þeirri vél var sjónvarpsskjár í hverju sæti! Reyndar vorum við orðin svo þreytt að við höfðum engan sérstakan áhuga á að horfa á sjónvarpið. Maturinn um borð og þjónustan var alveg fyrsta flokks, enda hreykja þeir sér af því að vera “Indias only 5 star airline”
Engin ummæli:
Skrifa ummæli