
Vorum að setja inn fyrsta skammt af jólamyndum á myndasíðuna okkar. Erum búin að hafa það ferlega gott yfir hátíðarnar og njóta þess í botn að vera saman, hitta ættingja og vini, spila og borða góðan mat...og konfekt...og macintosh...og smákökur...úfff...
Elvar Orri er búin að vera algert jólabarn, fílar greinilega jólin í botn. Við erum búin að fara á nokkur jólaböll og hann hefur sungið öll jólalögin fullum hálsi, kann þetta allt greinilega :) Og eitthvað fékk barnið nú af gjöfum...pakkatryllingurinn var í algleymingi á aðfangadag...tryllingur er kannski aðeins of sterkt til orða tekið, hehe. Hann var allavega mjög spenntur yfir pökkunum og ánægður með það sem hann fékk, raðaði svo góssinu upp í væna hrúgu áður en hann sneri sér að næstu gjöf.
Nú er svo komið að því að snúa blessuðum sólarhringnum við, enda leikskóli á morgun. Elvar Orri hefur verið að vakna ansi seint, eins og foreldrarnir, og nú sjáum við fram á að hann eigi eftir að verða lengi að sofna í kvöld og grútfúll á morgun...sjáum hvað setur ;)
Haukur Máni er stóra brósa ofarlega í huga og hann talar mikið um hann. Nú er hann líka farin að átta sig á því að það er að koma að stóru stundinni. Í dag komu fyrstu tárin yfir væntanlegum söknuði yfir foreldrunum. Við vorum að ræða hversu heppinn hann væri að eiga svona stóra fjölskyldu og að allir vildu fá hann í gistingu til sín, þegar hann tekur það fram að mamma og pabbi þurfi samt að hringja í alla frá Indlandi...ef hann skyldi fara að gráta! Mamma sagði að auðvitað myndum við heyra í honum og að við myndum líka sakna hans mikið...þá heyrist í stubbnum: "Mamma...það koma meira að segja smá tár í augun núna"....ekki laust við að mammsa hafi fengið tár í sín augu líka ;) Svo kjökraði hann smá en var fljótur að jafna sig. Við vonum samt innilega að hann eigi eftir að njóta sín á meðan við erum í burtu og verði ekki mjög vængbrotinn...
Núna rétt fyrir svefninn barst Delhi í tal hjá okkur og að það væri víst eitthvað kalt þar um þessar mundir...og hann leggur auðvitað við hlustir og segir "Delhi! Það er rétt hjá Indlandi!" Við segjum honum að Delhi sé í Indlandi og að vonandi sé nú litla bróðir ekki kalt. Hann horfir þá móðir sína eins og hún sé eitthvað skrýtin: "Mamma! Hann er í Kalkútta en ekki Delhi!". Já hann er með þetta allt á hreinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli