13 janúar 2009

Ferðin hafin

Lögðum af stað eldsnemma eftir stuttan svefn í morgun. Bröttför frá Keflavík var kl. 07:50 og var nánast engin bið í innritun, eitthvað rólegt að gera þessa dagana. Flugið til Amsterdam gekk eins og í sögu, nýttum okkur nýja skjáskemmtikerfið hjá Icelandair í frekar tómlegri vél.

Eftir lendingu í Amsterdam fórum við með hótelskutlunni á hótelið okkar. Hótelið er í um 10 mínútna fjarlægð frá Schiphol flugvelli og er bara hið fínasta hótel.

Eftir að hafa komið okkur fyrir á herbergjunum héldum við niðrí bæ til að litast um í Amsterdam og reyna að versla eitthvað sem átti eftir að redda fyrir Indland. Ekki er nú hægt að segja að mikið hafi verið verslað, sérstaklega þar sem gengi evrunnar er ekki okkar vinur þessa dagana. Þrátt fyrir 50% afslátt í hinum ýmsu verslunum var verðið of hátt miðað við væntingar.

Eftir búðarráp og labb um Amsterdam héldum við aftur á hótelið og fórum að fá okkur að borða á hótelveitingastaðnum sem var bara ansi flottur. Stór salur, arineldur og kósíheit. Maturinn var líka ekkert slor og eftirréttirnir algjört gúmmelaði.

Eftir matinn vorum við algerlega búin á því og liggjum í leti uppi í herbergi og veltum því fyrir okkur hvort maður eigi að nenna að fara í sturtu núna, eða geyma það þangað til í fyrramálið ... miklar pælingar ;-)

Í fyrramálið er svo flogið kl. 11:05 frá Amsterdam með KLM til Delhi og svo áfram með Kingfisher til Kolkata eftir um 7 tíma bið á flugvellinum í Delhi. Þangað verðum við svo komin kl. 11:05 á fimmtudaginn (staðartími).

Næstu skrif verða að öllum líkindum frá Kolkata og sendum við hlýjar kveðjur til fjölskyldunnar og allra annarra sem eru að fylgjast með þessu ferðalagi okkar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að fylgjast með ykkur í þessu ævintýri, bara spennandi! Gangi ykkur rosa vel og okkur hlakkar til að lesa fleiri fréttir.

p.s. yndislegt að hitta ykkur um daginn þótt stutt hafi verið ;)

Bestu kveðjur
Hildur, Bjössi og grísirnir 3

Unknown sagði...

Dásamlegt að ferðin sé hafin kæru hjón. Hlakka til að fylgjast með þessu stóra ævintýri með ykkur.
knús frá Svíþjóð. Gullý og fjölsk.

Nafnlaus sagði...

OO nú bíður maður spenntur við tölvuna :-) alla daga..
Yndislegt að heyra frá ykkur, gangi ykkur vel og milljón knús og kossar**** til Mundu líka **
Hrefna og co

Unknown sagði...

Frábært að geta fylgst með ferðinni ykkar; nú bíður maður í spenning eftir næstu færslu :-)
Edinborgarkveðjur,
Rósa &co.

Nafnlaus sagði...

Hlökkum til að heyra frá ykkur í Kolkata....

Kær kveðja,
Kristjana og liðið hennar