Þegar til Kolkata var komið beið okkar bílstjóri frá hótelinu sem kom okkur svo á leiðarenda, Oberoi Grand hótelið. Bílstjórinn var hinn fínasti og fræddi okkur heilmikið um umhverfið á leiðinni. Það var góð tilfinning að rúlla inn um hliðin a Oberoi Grand enda leið okkur mjög vel þar þegar við sóttum Elvar Orra. Það vakti þó helst athygli okkar er hversu mikið öryggisgæslan á hótelinu hefur verið stórefld eftir árásirnar á Mumbai og er hver bíll grandskoðaður, leitað á hverjum þeim sem ætlar inn á hótelið og allur farangur rannsakaður í þaula. Þetta veitir manni nú bara góða öryggistilfinningu og maður lætur sig bara hafa það þó kíkt sé í veski og poka og skannanum rennt yfir líkamann í hvert sinn er við göngum inn á hótelið.
Þjónustan hér er alveg fyrirtaks, hér bukta sig allir fyrir okkur og setja hendru í bænastöðu fyrir framan brjóst...ég er ekki viss um að Beta gamla bretadrolla fengi betri þjónustu ;) Herbergið sem við fengum er alveg fyrsta flokks, við erum uppi á 4. hæð með útsýni yfir sundlaugargarðinn og mamma er á þriðju hæð með jafnvel enn betra útsýni. Sá sem tjékkaði okkur inn tók það sérstaklega fram að við værum að fá þeirra bestu herbergi. Okkur grunar nú að það hafi eitthvað með það að gera að við tókum það fram, þegar við bókuðum, að við hefðum verið þarna áður og hefðum verið mjög ánægð.
Þegar við komum upp á herbergi ákváðum við að hringja í Anju og fá að vita hvenær við ættum að sækja litla prinsinn. Hún bað okkur um að koma kl. 12 á laugardaginn...og það er hér með staðfest: Herra litli prins hittir foreldra sína kl. 12 á laugardaginn 17. janúar :) Þegar símtalinu við hana lauk hringdum við í Anup, leiðsögumanninn okkar, og sjá hvort hann væri til í að taka okkur í smá túr um eftirmiðdaginn. Hann var meira en til í það og kom til okkar um fimm leytið. Í millitíðinni gátum við lagt okkur (eða öllu heldur hrunið í rúmið og steinrotast) og fengið okkur að borða á einum af veitingastöðum hótelsins.
Anup virkaði rosalega vel á okkur, höfðum heyrt margt gott um hann og hann stóðst allar væntingar, einstaklega hlýlegur maður. Við byrjuðum á að setjast aðeins niður með honum og ræða um plan dagsins og það fyrsta sem hann spurði okkur um var af hverju við stoppuðum svona stutt í Kolkata...flestir íslendingarnir sem hann hafði hitt stoppuðu í ca. 7 daga. Við sögðum honum hvert erindi okkar væri hér, sem hann hafði nú reyndar getið sér til um, og að við þyrftum því miður að fara til Delhi til að fá vegabréfsáritun fyrir ungann. Anup kom okkur svo algerlega á óvart með því að spyrja hvort við vildum ekki bara rúlla við hjá Anju, á barnaheimilið, og sjá drenginn! Við vorum nú meira en til í það en vorum eitthvað að efast um hvernig Anju tæki því en Anup hló bara að því og sagði að þetta væri örugglega lítið mál. Þau eru greinilega góðir vinir því hann bjallaði bara í hana og spurði en hún var þá bara nýfarin af barnaheimilinu en sagði að annars hefði þetta verið ekkert mál...Ojæja, það styttust í laugardaginn ;)
Anup byrjaði svo á að bruna með okkur í hindi musteri og það var einstaklega skemmtileg upplifun...og ekki slæmt að vera þarna með honum. Hér þekkja allir hann og fær maður því meiri frið og almennilegheit heldur en ef við værum ein á ferð. Anup er líka hafsjór af fróðleik og sagði okkur margt um trúna og hina mörgu guði hennar. Hann sagði okkur m.a. að í gær var mjög heilagur dagur og því margt um manninn í borginni. Fólk þyrpist sem sagt hingað, eða í ca. 100 km fjarlægð við Kolkata til þess að baða sig í Kolkata. Margt af þessu fólki var núna statt í þessu musteri. Musterið sjálft er byggt úr marmara og tók u.þ.b. 35 ár að klára það. Það var mjög gaman að vera staddur þarna á þessum tíma og sjá fólkið tilbiðja guðina sína, heyra munkana syngja og kveikja á kertum og reykelsum.
Því næst fór Anup með okkur á markað sem hann mælti með og sagði að væri miklu betri en sá sem er rétt hjá hótelinu okkar. Það var mjög fínt að rölta þarna og áreitið var í lágmarki. Við náðum að versla eitthvað smá en vorum nú meira bara að skoða...svona í þetta sinn.
Anup og bílstjórinn hans keyrðu okkur svo upp á hótel eftir að við höfðum ákveðið plön morgundagsins. Hann ætlar að sækja okkur kl. 9 og reyna að sýna okkur sem flest yfir daginn, svoldið erfitt að þurfa að pakka svona mörgu í svona stuttan tíma. En við treystum því að hann eigi eftir að gera daginn góðan. Svo er okkur barasta boðið heim til hans í mat annað kvöld. Það verður spennandi að fá að bragða á ekta bengölskum mat og sjá bengalskt heimili :)
Í þessum rituðu orðum vorum við að klára að borða kvöldmatinn okkar, ákváðum bara að panta okkur upp á herbergi enda erum við gersamlega búin á því eftir ferðalagið. Þannig að nú er það bara bælið sem bíður, enda um að gera að vera ferskur á morgun. Sendum ykkur hlýjar kveðjur frá Kolkata og kærar þakkir fyrir góðar kveðjur í gestabókina, gaman að sjá hversu margir eru að fylgjast með ferðalaginu :)
Knús og kossar frá Indlandi og sérstaklega stórt knús til hjartagullsins okkar sem bíður heima á Fróni...elskum þig endalaust :*
4 ummæli:
Gaman að lesa ferðasöguna ykkar,eg væri alveg til í að koma þarna fljótlega, aldrei að vita nema ég komi bara með þegar þið sækið stelpuna ykkar;-). Elvar Orri er mjög sátur, honum og emblu finnst reyndar að þau hafi ekki getað leikið nóg saman tíminn liður svo hratt og þau eru alltaf á leið í skólann eða í háttinn, en honum hlakkar mikið að fara til Óla. Knus og kossar Stína syst
Elskurnar!! Æðislegar myndir af ykkur og geggjað útsýni!! Og mikið ljómið þið, alveg yndislegt :-)
Úff hvað þið þurftuð að bíða lengi!! Gaman að sjá hvað þið njótið ykkar og gaman að Munda sé þarna með ykkur, þvílíkt ævintýri.
Elvar Orri, í góðum höndum heima á klakanum og bíður spenntur eftir mömmu, pabba og brósa... hann er voða duglegur!
Elsku Elvar Orri minn ef þú sérð þetta, þá sendum við stórt knús til þín ***
Ykkar vinir,
Hrefna, Þröstur og 3 gormar :-)
Velkomin til Kolkata.
Yndislegt að vita af ykkur svona nálægt prinsinum og dásamlegar nýju myndirnar af Hauki Mána. Maður bíður spenntur eftir morgundeginum með ykkur. Hlökkum til að sjá myndir af ykkur saman.Vona að prinsin á fróni hafi það gott.
kveðja frá Svíþjóð. Gullý og fam.
Flott hvað allt gengur vel. Við fylgjumst spennt með úr Næfurásnum. Knús og kossar, Ýr, Arnar og Hnikarr Örn. P.s. líka til þín Elvar Orri, stóri bróðir...
Skrifa ummæli