30 desember 2010

Enn dælast inn myndir...

...og nú eru það aðventumyndirnar :)



Það er hægt að smella beint á myndina til að komast í albúmið :)

27 desember 2010



Skaftarnir hafa haft, og eru að hafa, það ofurgott yfir þessi jól. Allir saman í fríi og hugglegheit út í eitt...reyndar þurfti pabbinn að fara að vinna í dag en heldur svo áfram að frílista sig með okkur hinum.

Jólaundirbúningurinn gekk vel hjá okkur þrátt fyrir að leiðinda gubbupest hafi bankað upp á hjá okkur. Strákarnir fengu báðir góðan skammt af henni, sérstaklega þó Haukur Máni sem var lengi að jafna sig. Múttan fékk nú líka skammt af þessum skemmtilegheitum en pabbi slapp sem betur fer. Þetta setti nú aðeins strik í jólastússið en það hafðist þó allt að lokum.

Strákarnir voru að vonum spenntir fyrir öllu pakkastússinu á aðfangadag en það gekk þó furðulega vel fyrir sig. Elvar Orri var duglegur að lesa á og afhenda og Haukur Máni vildi helst bara fá að leika með það dót sem kom úr pökkunum í það sinnið. Elvar Orri var líka rosa duglegur að hjálpa honum að opna. Það var nú líka aldeilis margt fínt sem þeir fengu og allir meir en sáttir þar.

Tíminn okkar yfir þessa helstu jóladaga hefur svo bara farið í að hitta ættingjana og borða góðan mat...og meir af honum...hangsast á náttfötunum...allt eins og það á að vera ;)

Við náðum nú að rífa af okkur letina í smástund á jóladag og skunduðum út á Miklatún í sleðaferð, eins gott að nýta snjóinn áður en hann hvarf. Þar skemmtum við okkur vel og strákarnir skiptust á að renna sér niður á sleðanum hans Elvars....þ.e.a.s. Elvar Orri var meira en til í að deila sleðanum með þeim litla en hann var ekki mikið fyrir það sjálfur. Í hvert sinn er komið var að Elvari upphófust mikil mótmæli og gól...sem linnti ekki fyrr en Elvar Orri var búinn með sína salíbunu og komið að Hauki Mána...gaman a´ssu ;)

Jæja þá í þetta sinn, ritarinn ætlar að halda áfram að liggja í leti en er svona að dunda við að setja inn myndir af jólagormunum, svona á milli konfektáts og lesturs ;)

Hafið það gott yfir hátíðirnar!

15 desember 2010

Jóla jól...

...nú er jólaskapið komið á blússandi ferð hér í Skaftahlíðinni og sjá þeir bræður að mestu um að halda því gangandi ;)



Það sem hefur komið í skóinn hingað til hefur vakið mikla lukku og það er virkilega gaman að sjá hvernig Haukur Máni er að fatta allt þetta jólasveinasystem. Hann er alveg búinn að átta sig á því að hann vill ekki kartöflu...helst nammi en dót er í lagi líka. Elvar Orri tók sig til og skrifaði Giljagaur bréf og bað hann um að gefa sér Bakugan í skóinn...menn farnir að vera með kröfur á skógjafirnar ;)


Um síðustu helgi var svo jólatréið valið en við vorum svo heppin að fá að fljóta með Hildi frænku og vinnunni hennar upp í Kjós. Þar fengum við heitt súkkulaði og fínerí með því, hittum jólasvein og sprelluðum með honum...og fundum svo hið eina rétta tré. Það er samt óhætt að segja að pabbinn á bænum hafi "púllað" smá Chevy Chase á þetta þar sem jólatréið er dulítið hærra en lofthæðin í íbúðinni leyfir. En við tökum bara aðeins neðan af því.

Haukur Máni var alveg dáleiddur af sveinka og reyndi að komast sem næst honum og svaraði öllu sem hann sagði með jái, voða krúttlegt ;) Elvar Orri var valinn til að leika prinsinn í Þyrnirósa og Hildur frænka var galdrakerlinginn. Þau stóðu sig bæði ansi vel en Elvar Orri var þó aðeins kraminn yfir athyglinni og vildi helst ekki sitja of nálægt Þyrnirósinni..hvað þá að kyssa hana!

Nú er verið að dunda sér að skreyta og ætlar Elvar að sjá um að finna sínu jóladóti pláss. Þá er líka búið að föndra heilan helling og er drengurinn ansi flinkur með skærinn þegar kemur að því að búa til stjörnur og snjókorn. Haukur Máni er líka hrifinn af klipperíinu og vill vera með, setur á sig naglbítasvipinn og rífur og klippir með mestu ró :)Hann er líka alveg með á hreinu að skæri eru ó ó....en bara fyrir mömmur. Hann var ekkert á því að lána kellu skærin og sagði henni bara að þetta væri ó ó og bara hann mætti nota þau ;)

Jæja, reynum nú að dúndra inn myndum af jólasveinunum okkar fljótlega.
Bestu kveðjur frá Sköftunum :)

08 desember 2010

Allt gott að frétta af sköftum..

...og jólafiðringurinn farinn að gera vart við sig. Elvar Orri elskar jólin og segist löngu kominn í jólaskap. Haukur Máni er svona að átta sig á öllu þessu stússi en skellir stundum á sig jólasveinahúfu og gólar "hóólaseeinn, hóólaseeinn" ...enda leitun að öðrum eins jólasveini ;)

Það er mikið um að vera í leikskólanum og skólanum þessa dagana. Haukur Máni er búinn að baka piparkökur og verður fjölskyldunni boðið að koma og smakka á fimmtudaginn. Hann fékk að taka með sér svuntu og kökukefli og var voða ánægður með sig. Hjá Elvari Orra er ekki byrjað mikið jólastúss í bekknum enda hafa þau verið á kafi í spennandi verki um líkamann...og ljúka því verkefni í dag. Foreldrasettið ætlar að arka í Háteigsskóla í dag og snæða hangiket með syninum og fá svo að sjá sýningu á flotta verkefninu.

Pabbinn á bænum er búinn að standa sig vel í jólabakstrinum, með dyggri aðstoð sonanna...sérstaklega við smakkelsið. Þeir feðgar bökuðu og skreyttu piparkökur og einnig var skreytt forláta piparkökuhús sem við keyptum í Kosti, en það finnst Elvari Orra vera besta búðin í bænum ;)

Nú er hafinn sá tími sem í gegnum tíðina hefur valdið eldri syninum dulitlu svefnleysi og síðustu tvær nætur hefur hann vaknað eftir martröð og vill koma upp í. Hann viðurkennir reyndar ekki að það sé Grýla sem skelfir hann heldur sé það einhver vera í Simpsons sem Hómer var að hræða börnin sín með. Jammm, hvað sem það er þá er litla hjartað allavega ansi hrætt...

Segjum það gott í bili og gangi ykkur vel í jólastússinu!

22 október 2010

Hér er nú bara orðið rykfallið...

...það er orðið svo langt síðan eitthvað gerðist á síðunni ;)

Spurning um að skella inn smá fréttum af dýnamíska dúóinu í Skaftahlíðinni. Þeir bræður eru ferskir sem endranær og eru báðir lukkulegir í sínum skóla og leikskóla. Haukur Máni færðist upp á eldri deild í haust og er nú á Kattholti og er bara alsæll þar. Elvar Orri stundar námið í 2. bekk og fótboltann af fullu kappi. Hefur verið ansi duglegur að æfa þrusufótinn undanfarið og er duglegur að setja inn mörkinn ;)

Bræðurnir fóru í pössun í byrjun september, þegar foreldrasettið skellti sér til New York, og var það í fyrsta skiptið sem Haukur Máni var án foreldrana lengur en eina nótt. Það var því svoldið erfitt fyrir gamla settið að kveðja en ungherrann stóð sig eins og hetja, undi sér bara mjög vel hjá Stínu frænku og hennar fjölskyldu.

Um mánaðarmótin sept.-okt. var heimilið undirlagt af afmælisundirbúningi og afmælishaldi, það dugði nú ekkert minna en tvær veislur fyrir þriggja ára snúðinn. Hann var náttúrulega ægilega montinn með sig og ánægður með allar fínu gjafirnar sem hann fékk.

Í þessum rituðu orðum er hafið vetrafrí hjá Elvari Orra og múttunni og ætla þau að njóta þess að dúllast saman í dag. Embla Ýr frænka er líka í vetrarfríi og fékk að gista í nótt og nú dunda þau frændsystkinin við að byggja púða/sængurhús í stofunni....mikið stuð ;)



Fyrsti dagurinn í vetrarfríinu var reyndar í gær hjá Elvari og áttu þeir pabbinn góðan dag saman...fóru í klippingu, skelltu sér í keilu og höfðu það huggulegt. Á mánudaginn er svo ætlunin að gefa Hauki Mána frídag og þá ætlar fjölskyldan að dúllast saman allan daginn :) Yndislegt að fá svona frí til þess að hlaða batteríin.



Segjum þetta gott í bili, vonum nú að hér kíki enn einhver inn ;)

Knús úr Skaftahlíðinni :*

13 ágúst 2010

Stubbafréttir...

Það var stoltur lítill kall sem sofnaði með kisu-límmiða á höndinni áðan...búinn að pissa tvisvar sinnum í klósettið í dag og fékk límmiða fyrir frammistöðuna. Og svo talar hann og talar eins og hann fái borgað fyrir það...mjög mikið að gerast í málþroskanum þessa dagana. Hann verður fermdur áður en við vitum af ;)

Nýtt júlí-albúm:


p.s. endilega kvittið í gestabókina, okkur finnst svo gaman að sjá hverjir eru að kíkja á okkur :)

12 ágúst 2010

Brjálað að gera í myndainnsetningu ;)

...enda ofhitnar myndavélin þegar við skreppum vestur á firði...

Hér kemur sem sagt stappfullt albúm frá fyrstu vesturferð sumarsins:





09 ágúst 2010

Ferðalög og flakk...

Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið síðan síðast enda fjölskyldan búin að vera í fríi saman. Við höfum verið dugleg að flakka og erum tiltölulega nýkomin úr tveggja vikna vist í Dýrafirðinum. Við vorum búin að skjótast þangað fyrr í sumar í smá skreppu...til fylgjast með framkvæmdunum í Gröf. Það var því ansi spennandi að koma aftur og sjá hvernig þessu miðaði. Við erum ansi lukkuleg með nýbygginguna...nú "eigum" við okkar eigið herbergi á þessum dásemdarstað og ekki laust við að maður fái víðáttubrjálæði við þessa stækkun :)



Við tókum með okkur fellihýsið í ferðalagið og dóluðum okkur á leiðinnin vestur, með Mundu ömmu og Hössa afa. Stoppuðum á Tálknafirði á flotta tjaldsvæðinu þar, mælum hiklaust með því. Þar gátum við nú skoðað ýmislegt og gátum nú loks merkt við að hafa séð Rauðasand...var búin að vera lengi á listanum ;) Sá staður stóð alveg undir væntingum og verður pottþétt heimsóttur aftur.

Eftir tveggja nátta stopp á Tálknafirði héldum við svo í fjörðinn okkar og fylgdumst með smiðunum klára sitt verk, sváfum bara í fellihýsinu á meðan en gátum svo loks flutt inn í svítuna. Fyrir verslunarmannahelgina byrjuðu svo ættingjar og góðvinir fjölskyldunnar að þyrpast að og saman áttum við frábæra helgi. Elvar Orri var búinn að bíða spenntur eftir þessari helgi og það fyrsta sem hann sagði þegar hann vaknaði á laugardagsmorguninn var "Gleðilega verslunarmannahelgi!"...og hann naut sín sko í botn, lék sér við krakkana og saman voru þau öll eins og villibörn sem hurfu inn í skóginn og sáust bara til að sækja sér fæðu endrum og eins.

Á meðan dundaði sá yngri sér vel, var eins og kóngur í ríki sínu þar sem hann dubbaðist á milli sandkassans og rólunnar...stundum með smá viðkomu hjá bílunum eða fjórhjólunum, enda þurfti stundum að skella sér á bak við stýrið og brumma smá. Hann eignaðist líka góða vinkonu þessa helgina, Mandý vinkona Halldóru frænku heillaði hann upp úr skónum og sáust þau leiðast um svæðið. Mandý er að vísu aðeins eldri en Haukur Máni svo óvíst er hvort um frekari samband verði að ræða en við dáðumst að því hvað hún nennti að stjana við prinsinn og ýta honum í rólunni...en Haukur Máni getur setið tímunum saman í rólu ef einhver nennir að ýta ;)

Á þessu litla árlega ættarmóti okkar hefur tíðkast börnin fái að koma upp og syngi eða dansi á kvöldvöku og þetta árið ákvað Elvar Orri að syngja lagið Wavin´Flag og gerði það með prýði...hann var alveg á mörkunum með að þora en ákvað að ögra sjálfum sér og stökkva upp á "svið" og voru foreldrarnir mikið stoltir af sínum manni.

Þetta er nú bara brotabrot af öllu því sem dundað var í þessari ferð og eftir að í bæinn kom þurfti pabbakallinn að fara að vinna. Mútta og snáðarnir eru því búin að hafa það rólegt heima við...ja rólegt og ekki rólegt...synirnir eru nú svo sem ekki þekktir fyrir neina lognmollu ;) Einnig var þvottafjallið dálaglegt eftir þessa ferð og það tekur nú tíma að vinna á því...Nú og svo er verið að plana að skella sér bara aftur vestur á næstu dögum, enda er bara frábært að vera í dalnum okkar og þar viljum við eyða sem mestum tíma, frábært að fylla aðeins á tankana fyrir haustið.

Skellum myndum inn fljótlega...það vantar sko ekki að það hafi verið teknar myndir :)

Bestu kveðjur frá Sköftunum

08 júlí 2010

Og enn sturtast myndirnar inn...

...ágætt að fá slæmt veður inn á milli, gott fyrir afköstin ;) Nú er hægt að smella beint á myndirnar til að opna albúmið...haldið að þetta sé tæknivætt hjá manni :)

06 júlí 2010

Nýjar myndir...

Myndir frá 17. júní



Myndir frá 7 ára afmæli Elvars Orra

28 júní 2010

Maí albúmið loks komið inn :)




Tengillinn á myndasíðuna er hér aðeins neðar...

27 júní 2010

Það sem af er sumri...

...hefur verið mikið að gera hjá Sköftunum. Skagamótið og afmælisundirbúningur lögðu meirihlutann af júní undir sig og hefur því verið mikið stuð á okkur síðustu vikur.

Elvar Orri stóð sig vel á Skagamótinu og foreldrunum fannst virkilega gaman að fylgjast með fótboltaguttanum sínum. Hann vann líka sína persónulegu sigra þessa helgi; að sofa í skólanum með strákunum...án þess að sjúga puttann fyrir svefninn ;) Það hafði nefnilega valdið honum þó nokkrum áhyggjum að gert yrði grín að honum fyrir að sjúga puttann. Það var því stoltur strákur sem tilkynnti foreldrunum að hann hefði ekkert þurft að sjúga puttann!

Svo varð okkar maður sjö ára, þann 21. júní og við héldum auðvitað upp á það með pompi og prakt. Fyrst var haldið bekkjarafmæli og síðan voru vinum og fjölskyldumeðlimum skipt upp í tvö holl og haldin sitt hvor veislan :) Það hefur því verið mikið um bakstur og afmælispælingar hjá okkur. Elvar Orri var líka með ákveðnar skoðanir á því hvernig afmæliskakan ætti að vera; hann langaði í Joe Boxer köku...sem sagt broskalla-köku. Hún tókst nú bara ljómandi vel og vakti lukku hjá pilti. Foreldrarnir fengu svo aðeins að ráða því hvernig næstu kökur yrðu...nema þegar kom að því að baka kökuna fyrir síðustu veisluna, þá var hann harðákveðinn í því að hann vildi fá mynd af sér...hann hafði séð þetta í einhverri veislunni og fannst þetta afskaplega sniðugt :)

Foreldrunum finnst voða gaman að undirbúa og halda afmælin fyrir ungana sína en eftir þessar þrjár veislur í júní finnst þeim bara ágætt að næsta barnaafmæli sé ekki fyrr en í október ;)

Haukur Máni hefur nú verið nokkuð rólegur yfir þessu stússi...hefur þó reyndar tekið fullan þátt í afmælisfjörinu en hann á það til að vírast allverulega upp þegar mikið er af krökkum í kringum hann. Hann fær líka töluverða athygli frá krökkunum og stundum jaðrar það við áreiti...hann er bara svo ómótstæðilegur ;)...en þetta getur verið of mikið fyrir litlu jarðýtuna okkar, sem bregst þá því miður við með því að klípa og slá. Hann kann nú bara langbest við sig í rólegheitunum heimavið, það var t.d. ósjaldan sem heyrðist í honum "heim" á skagamótinu...var ekkert að nenna þessum þvælingi :) Nú er bara spurning hvernig hann tekur því þegar við bregðum undir okkur ferðalagafætinum...

Haukur Máni hefur sýnt miklar framfarir í málinu undanfarið, er farin að setja saman þriggja orða setningar og er mikið að þreifa sig áfram. Margt af því sem hann segir er alger "Hauk-íska"...en foreldrarnir skilja nú sinn mann.

Elvar Orri og mútta eru saman í sumarfríi þessa dagana og bíða spennt eftir því að pabbi og Haukur Máni fari í frí því þá ætlum við í paradísina okkar: Dýrafjörðinn! Elvar Orri er orðinn óþreyjufullur að komast þangað...sagði meira að segja við foreldrana að hann myndi bara fara með ömmu og afa ef foreldrarnir myndu ekki drífa sig af stað ;) En við stefnum nú á að fara í byrjun júlí, þá er pabbinn kominn í frí...svo Elvar Orri getur vonandi beðið rólegur þangað til.

Jæja, segjum það gott í bili...erum að dunda við að setja inn myndir.
Njótið sumarsins!

15 maí 2010

Nýjar myndir...


...vorum að dunda við að setja inn myndir frá mars og apríl.

Annars er allt gott að frétta úr Skaftahlíðinni, tjaa fyrir utan hlaupabólu og streptókokka (já enn og aftur) hja Hauknum. Elvar Orri var að koma af fótboltamóti og hann er svo ánægður í fótboltanum, finnst æði að fara á svona mót. Þetta mót var haldið í Egilshöllinni og gekk svona la-la ;) ...allt að koma hjá völsurunum ungu. Næsta mót verður í lok maí í Laugardalnum og svo förum við auðvitað á skagamótið í júní...já það er nóg að gera í boltanum hjá okkur og anti-sportista foreldrarnir eru bara að fíla þetta stúss ;)



Framundan er falleg helgi, sem við værum nú til í að geta nýtt betur öll saman, en við reynum nú að hafa bara vaktaskipti....það þarf jú einhver að vera heima með litla bólu-hjálmarinn. Mútta og Elvar Orri eru að gæla við að skella sér niður í bæ og sjá Garðabrúðu á útitaflinu í Lækjargötu...gæti verið gaman.

Góða helgi!

24 apríl 2010

Gleðilegt sumar!

Það eru aldeilis bjartir og fagrir dagar hjá okkur þessa dagana og vonandi verður bara framhald á því. Stóri prinsinn á bænum nýtir þessa daga líka til fulls og vill helst bara vera úti allan daginn. Helstu vandræðin eru þó þau að fá hann til að vera almennilega klæddur því hann og móðirin eru alls ekki sammála um hvort það sé kalt úti eður ei ;)

Foreldrarnir hér á bæ eru afar upprifnir yfir barnaóperunni sem Háteigsskóli setti upp með 1. - 4. bekk og var sýnd í Hallgrímskirkju á miðvikudaginn. Heilmikil vinna sem allir hafa lagt á sig og útkoman frábær. Ömmurnar komu með að sjá og Hössi afi og ekki var laust við að við hefðum þurft að hafa vasaklúta með okkur. Það er bara svo gaman að fylgjast með svona flottum og hæfileikaríkum börnum...sérstaklega sínu eigin ;) Elvar Orri hafði líka svo gaman af þessu og stóð sig svo vel. Það var líka gaman að sjá hversu alvarlegur hann var þar sem hann stóð í hópnum og fylgdist vel með öllu. Eina sem hann kvartaði undan áður en hann fór í skólann um morguninn var að hann fengi ekki að segja neitt einn, bara með hópnum. Já menn hafa sko metnað ;)

Sumardagurinn fyrsti var góður hjá Skaftahlíðarfjölskyldunni. Pabbinn var reyndar á næturvakt og fékk að lúra fram á hádegi en Embla Ýr frænka fékk að gista hjá Elvari og þau tvö eru nú alltaf í stuði. Enda voru þau vöknuð fyrir klukkan sjö um morguninn sem þykir nú frekar óguðlegt hér á bæ ;) Þau voru svo komin út að leika um tíuleytið og fengust rétt svo inn til að fá sér eitthvað í gogginn um eittleytið. Haukur Máni og mútta röltu út til þeirra til að viðra sig aðeins og múttan var að frjósa allan tímann þrátt fyrir að vera vel klædd. Ungviðið hins vegar hamaðist og hamaðist húfulaust og á peysunni og kunni því bara vel ;)

Við fórum svo niður á Miklatún um miðjan daginn en þar var sumargleði í gangi, hoppukastalar (sem Elvari Orra þótti nú frekar litir), andlistmálning og fleira. Þar var líka hægt að taka þátt í Unicef hlaupinu og gerðu frændsystkinin það. Eftir góðan tíma þar var haldið heim á leið. Stína frænka og Mummi (foreldrar Emblu Ýrar) tóku svo öll börnin með sér og foreldrasettið nýtti tímann í að gera reddí fyrir svakalega grillveislu...fyrstu grillveislu sumarsins.

Svo fylltist húsið af góðum gestu, afi og amma og systkini múttunnar, þeirra makar og börn. Á boðstólum voru Gordon Ramsay borgarar, laukhringir, franskar og ostakaka...og tilbehor. Við borðuðum auðvitað á okkur gat...en ekki hvað?...og áttum góða kvöldstund saman.

Helgin sem framundan er er velþétt eins og þær vilja oft verða, en í þessum skrifuðu orðum er Elvar Orri að keppa í fótbolta í Keflavík. Framundan er svo Indlandsvina hittingur, en það er orðið svo langt síðan Elvar Orri fékk að hitta þær vinkonur sínar Maríu og Sigrúnu. Svo á að skella sér á Hamborgarafabrikkuna í kvöld í tilefni af afmæli Hössa afa. Á morgun er pabbakallinn að vinna en rétt sleppur af vaktinni til að mæta í fermingarveislu. Alltaf nóg að gera hér á bæ :)

Segjum þetta gott í bili, reynum að skella inn myndum fljótlega.
Eigið góða helgi!

18 apríl 2010

Góður sunnudagur að baki...


Skaftarnir gerðu sér glaðan dag í dag en við höfðum ákveðið að hafa daginn í dag fjölskyldudag. Við byrjuðum daginn reyndar á að skella okkur í fótbolta og leyfa pabbanum að sofa úr sér næturvaktina en hann var að byrja á vöktum aftur. Mamma og Haukur Máni fylgdust með fótboltagaurnum okkar spila með strákunum og svo var haldið heim á leið. Þegar pabbi var ræs skunduðum við niður í bæ með Haukinn í vagninum, enda kominn tími á lúr hjá honum.

Fyrsta stopp var Eymundsson á Skólavörðustígnum, við ætluðum að hafa það huggó og fá okkur eitthvað gott í goggin en þar var alveg brjálað að gera svo við stoppuðum stutt við. Fórum þess í stað í næsta Eymundsson þar sem við náðum að koma okkur fyrir og gátum meira að segja brunað Hauki út á svalirnar hjá þeim. Þar sátum við um stund, múttan skoðaði blöð og Elvar Orri kíkti niður í barnadeildina. Því næst héldum við í Kolaportið en þangað höfum við ekki komið lengi. Það er nú alltaf ákveðin stemmning að koma þangað, þó ekki væri nema bara til að virða fyrir sér mannlífið. Við gátum týnt okkur þar í dágóða stund...og keyptum auðvitað eitthvað draslerí ;)

Haukur Máni vaknaði í miðri Kolaportsferðinni og sat voða góður í kerrunni, sennilega dáleiddur af öllu fólkinu og glingrinu :) Við ákváðum svo að taka bara strætó heim og litli bílakallinn var sko alveg að fíla það, sat eins og herramaður allan tímann.


Hér á bæ er mikill vorfiðringur í loftinu og Elvar Orri er endalaust að leika við vini sína úti í fótbolta og er orðinn svo sjálfstæður að foreldrunum finnst þau bara næstum því eiga ungling! Hann hringir í vinina, mælir sér mót við þá, lætur vita af sér og skellir sér jafnvel á listasöfn með þeim...já menn eiga sko sósíal líf í lagi ;)

Segjum þetta gott í bili, framundan er ný vika með nýjum viðfangsefnum. Þar á meðan má nefna að Elvar Orri er að fara að syngja með Háteigsskóla á Barnamenningarhátíðinni og foreldrarnir bíða spenntir eftir að sjá það :)

Bestu kveðjur
Skaftarnir

29 mars 2010

Páskafrí!

Þá eru Elvar Orri og múttan komin í langþráð páskafrí og ætla sko að hafa það huggulegt saman. Pabbi og Haukur Máni þurfa nú eitthvað að sinna sínum störfum en svo ætlum við að njóta helgidagana með tilheyrandi súkkulaðiáti ;)

Fjölskyldan skellti sér í ferðalag um helgina með stórfjölskyldunni og vinum, fórum í Ensku húsin við Langá. Þar var sko nóg pláss fyrir alla enda höfðum við húsið út af fyrir okkur. Krakkarnir kunnu nú vel að meta að geta leikið sér með látum í þessu gamla húsi...og fullorðna fólkið kunni líka meta að verða ekki gal í hávaðanum, enda húsið svo stórt að vel fór um alla. Veðrið var nú því miður ekki upp á marga fiska, sannkallað gluggaveður...sólskin en hvass norðanbelgingur svo varla var hundi út sigandi, ef einhvern hefðum við haft hundinn ;) En við höfðum það bara gott inni í staðinn, spiluðum, borðuðum góðan mat, spjölluðum, kellurnar prjónuðu og svo stýrði Halldóra bingóstjóri hörkuspennandi páskabingói. Í því bingói fengu allir vinning og vakti það mikla lukku. Ferðin heppnaðist svo vel hjá okkur að við erum að spá í að gera þetta að árlegum viðburði.

Framundan er svo nóg að gera; ferming, árlegur föstudags langa bíltúr, skírn, matarboð...og auðvitað að reyna að hitta skemmtilegt fólk og spila :)

Bestu kveðjur,
Skaftarnir

08 mars 2010

Stuð á kellu :)

Búin að dúndra inn febrúaralbúmi og hef þar með náð í skottið á sjálfri mér.


Nýtt albúm

Var að setja inn albúm úr sumarbústaðaferð okkar í Húsafell. Fórum með Sólu, Braga og börnum í lok janúar og áttum skemmtilega helgi saman :)

Nóg að gera...

...í Skaftahlíðinni sem endranær, enda sjá nú litlu skelfarnir til þess að engum leiðist hér á bæ ;) Elvar Orri er orðinn svo sjálfstæður að hann fór í fyrsta sinn einn í heimsókn til vinar síns, þ.e. hann fékk að labba heim til hans. Móðirin stóð í glugganum og horfði á litla stóra strákinn sinn arka upp Skaftahlíðina...nú þarf hún víst að sætta sig við að menn eru orðnir svoldið stórir :) Hann var líka afskaplega stoltur af þessu og bíður spenntur eftir að fara að geta labbað í skólann sjálfur, foreldrarnir eru nú samt á því að það megi nú aðeins bíða. Elvar Orri hefur alltaf verið félagsvera og nú er það svo að hann tollir ekki mikið heima við, vill helst vera einhvers staðar í heimsóknum eða með gesti hjá sér. Hann er farinn að hringja sjálfur í vini sína og fá að kíkja til þeirra eða bjóða þeim hingað. Þetta er nú svo sem allt gott og blessað en við foreldrarnir værum nú líka til í að hann gæti dundað sér aðeins sjálfur og erum við því eitthvað að þusa í drengnum yfir þessu. Hann svarar því nú bara að honum finnist bara svo gaman að hitta vini sína...og það er nú auðvitað skiljanlegt.

Litla músin á heimilinu hefur átt ósköp bágt síðustu daga, byrjaði á því að kasta upp á miðvikudagskvöldið en reyndist svo vera með streptókokka og skarlatssótt. Hann er enn heima við, var með háan hita í gær en enn sem komið er hitalaus í dag. Okkur finnst þetta nú nóg komið af veikindum þennan veturinn og múttan finnur nú aðeins fyrir því að vera orðin vinnandi móðir...ekki beint gaman að þurfa alltaf að vera frá úr vinnunni. En þetta fylgir víst og ekkert við því að gera. Haukurinn hefur nú verið ansi góður þrátt fyrir vanlíðanina en honum er farið að leiðast og langar mikið til að komast út.

Nú stefnir allt í hörku fótboltasumar hjá fjölskyldunni og fyrsta mótið staðfest en það verður á Akranesi 18. -20. júní. Fyrsta fjáröflun fyrir fótboltastússið er að baki og seldi pilturinn páskaegg, kleinur, flatkökur og snúða. Honum finnst þetta allt mjög spennandi og er búinn að fá flotta æfingatösku frá Landsbankanum til að geyma allt fótboltadótið í. Reyndar vill hann helst fá að druslast með hana í skólann en samþykkti nú með tregðu að hún væri kannski fullstór fyrir eitt handklæði og sundskýlur :)

Biðjum að heilsa í bili,
Skaftarnir

19 febrúar 2010

Fullt, fullt af nýjum myndum!



Vetrarfrí

Nú er fjölskyldan í Skaftahlíðinin í vetrarfríi og hefur það huggulegt saman. Reyndar var nú lillemann sendur á leikskólann þar sem ákveðið var að nýta fríið í að taka vinnuherbergið í gegn. Húsið er því á hvolfi þessa stundina og lítið fjör fyrir ungann mann að þvælast í draslinu :) En við ætlum nú líka að gera eitthvað skemmtilegt saman, svona á meðan málninginn þornar; fara í bíó, gönguferð í bæ og jafnvel að skella okkur á kaffihús. Elvar Orri hefur það gott og fagnar fríinu. Hann er mjög ánægður í skólanum sínum en finnst samt alltaf best að vera bara heima...eða í heimsókn hjá einhverjum af ættingjunum. Í gær fékk Embla Ýr frænka að gista hjá okkur þar sem hún er líka í fríi og það er búið að vera mikið fjör hjá frændsystkinunum.

Það er margt sniðugt sem dettur upp úr stóra stráknum okkar og í gær fékk hann foreldrana heldur betur til að skella upp úr. Hann og Embla Ýr voru að leika sér inn í herbergi og við foreldrarnir stóðum fram á gangi og vorum eitthvað að grínast. Þá segir Elvar Orri hlæjandi við frænku sína: "Æi hvað er nú kærustuparið að gera?". Það er nú ekki slæmt ef hann sér foreldra sína fyrir sér sem kærustupar :)

Erum að reyna að taka okkur á í myndainnsetningu og höfum nú náð þeim áfanga að setja inn myndir fram að áramótum :) Hitt kemur svo vonandi von bráðar.

Góða helgi!

29 janúar 2010

Ekki seinna vænna...

...en að drífa nú í fyrstu færslu ársins :) Við höfðum það mjög fínt yfir jól og áramót og gerðum það sem á að gera á þessum tíma: borða góðan mat, slatta af konfekti, spila, opna pakka, borða meira og hitta ættingja og vini. Að vísu var jólaundirbúningur okkar með öðrum brag en oft áður þar sem hann elsku langafi kvaddi okkur um miðjan desember. Á svoleiðis stundum var jólastúss ekki efst í huga fullorðna fólksins á heimilinu en við reyndum að minna okkur á að smáfólkið ætti skilið að fá sín jól og sinn hátíðabrag...ekki síst í ljósi þess að þetta voru fyrstu jól Hauks Mána. Þannig að okkur tókst nú að hrista notaleg jól fram úr erminni og hafa það huggulegt saman.

Eftir áramót fór svo múttan á heimilinu að vinna og dundar sér nú á daginn með 17 fyrstu bekkingum. Elvar Orra fannst það voða sniðugt, að hann og mamma væru bæði að fara í fyrsta bekk. Hann spyr svo oft að því hvað krakkarnir hafi lært í dag hjá mér og svo berum við saman bækur okkar ;) Haukur Máni heldur áfram að blómstra á leikskólanum og virðist bara mjög sáttur við sína rútínu. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessi litli skriðdreki sé búinn að vera hjá okkur í heilt ár...en þeim tímamörkum náðum við þann 22. janúar. Okkur finnst allt í senn að hann hafi alltaf verið hjá okkur, munum varla hvernig það var að hafa hann ekki hér og einnig að hann sé bara nýkominn :) Það er ósjaldan sem það læðist að foreldrunum hér á bæ hversu heppinn þau eru, að eiga þessi bræðraskinn sem fylla upp í tilveruna með gleði, uppátektarsemi, hlýju, húmor...látum og ólátum (stundum svo miklum látum að minnir á "nuthouse" ;).

Látum pistlinum lokið í bili, erum að vinna í að hlaða inn myndum.