02 desember 2009

Fréttir af stuðboltum...


Af dásamlegu Skaftahlíðarskelfunum er allt gott að frétta og eru þeir hinir hressustu. Elvar Orri er eins og blóm í eggi í skólanum og gormast þess á milli í fótboltanum. Hann er búin að eignast góða vini í bekknum og virðist bara vera afar sáttur með lífið. Haukur Máni er loks orðinn sáttur við leikskólann sinn en hann hóf störf á Stakkaborg í byrjun október. Þá vorum við mæðginin búin að taka langa aðlögun og vera eins og gráir kettir að þvælast fyrir starfsfólkinu. Svo þegar starfið átti loks að hefjast lagðist kappinn í tveggja vikna veikindastúss og setti það aðeins strik í reikninginn.

Það var ansi meyr mamma sem gekk í burtu frá leikskólanum sínum eftir að hafa skilið litla skriðdrekann sinn eftir grátandi. Þá vildi hún helst bara hætta við allt saman og vera heima með hann fram að fertugu! En sá stutti stóð sig vel og innan skamms var hann hættur að gráta á morgnanna, kveinkaði sér kannski aðeins, en fór nokkuð sáttur í fang fóstrunnar. Nú þegar hann er sóttur er hann hinn glaðasti og sýnir leikfimiæfingar af einskærri gleði. Við erum að vonum afar kát með þessa þróun og sjáum litla manninn bara blómstra þarna.

Hér heima fyrir eru guttarnir okkar tveir stundum á við heilan her og óhætt að segja að hér sé sjaldnast dauð stund..."Svona á þetta að vera, líf og fjör" segja foreldrarnir á góðum stundum en þess á milli reyta þeir hár sitt og ranghvolfa augum. Það kemur okkur enn jafn mikið á óvart hversu mikill rússíbani foreldrahlutverkið er og hversu mikið þessir molar geta brætt mann...þó þeir séu nýbúnir að brjóta kertastjaka. Nú í haust kvöddu okkur þrír kertastjakar; sá fyrsti fór þegar Elvar Orri var í fótbolta inn í stofu, annar mætti örlögum sínum þegar Haukur Máni barði honum í gluggakistuna og sá þriðji var ofan á kommóðu sem Elvari Orra tókst með dularfullum hætti að hvolfa yfir sig. Sem betur fer slösuðust engir drengir við útrýmingu fyrrnefndra kertastjaka...

Síðustu dagar hafa verið litaðir af jólafiðringi og við höfum dundað okkur við bakstur, jólaseríuuppsetningar og ýmislegt jólastúss. Elvar Orri er orðinn sæmilega spenntur en einbeitir sér mest að fótboltamyndum þessa dagana og einnig er hann að safna sér inn stigum til að geta fengið gullfiska. Hann stefnir á að eignast tvö stykki og hefur þegar ákveðið nöfnin: Yoko og Jökull skulu þeir heita...og þeir eru ekki par heldur tveir strákar. Haukur Máni hefur ekki hugmynd um tilganginn með öllu jólatilstandinu...en hann kann vel að meta kökurnar! Þessi jól verða fyrstu jólin okkar með kökugleypinum litla og jólatrés-stílistinn á heimilinu (móðirin) hefur tekið þá ákvörðun að ekkert brothætt fari á tréið þetta árið því barnið er eitt það handóðasta sem sögur fara af!

Segjum þetta gott í bili, njótið aðventunar :)

05 október 2009

Tveggja ára gormur!

Þá er búið að halda upp á tveggja ára afmælisveislu Hauks Mána með pompi og prakt. Afmælissnúðurinn stóð sig bara vel í veislunni þrátt fyrir að vera stútfullur af kvefi en hann tók upp á því að krækja sér í pest fyrir helgina. Hann virtist skemmta sér nokkuð vel, fylgdist vel með afmælissönginum og reif upp fyrstu pakkana en svo hætti hann alveg að spá í þessu dóti...restin var svo rifin upp af stóra bróðir eftir veisluna :) Sem sagt góður dagur þetta með góðu fólki og frábært að fá loks að halda upp á afmæli fyrir litla manninn okkar því ekki fékk hann neina eins árs veislu greyið.

Á sunnudaginn höfðum við það bara notalegt hér heima og dunduðum okkur við að ganga frá eftir stuðið. Elvar Orri fór svo að verða frekar ólíkur sjálfum sér, hafnaði meira segja að fara í bíó með pabba...sagðist bara vilja slappa af! Elvar Orri...slappa af...??? Gerist ekki oft ;) En ástæðan reyndist líka vera sú að hann var orðinn veikur og kominn með hita. Hitinn hækkaði svo bara eftir því sem leið á daginn og var hann alveg við suðumark í nótt, grey kallinn okkar. Þegar múttan hringdi svo í læknavaktina eldsnemma í morgun lýsti hjúkrunarfræðingurinn því yfir að þetta væri að öllum líkindum svínaflensan. Ja hérna hér, ekki alveg það sem manni langar að heyra en við sjáum hvað setur hann er allavega drulluslappur, með háan hita og höfuðverk.

Haukur Máni er enn að ná kvefinu úr sér en hefur sem betur fer ekki fengið þennan háa hita og sleppur vonandi við það. Hann má eiginlega ekkert vera að þessu veikindastússi því við erum búin að vera að fara í heimsókn á leikskólann og ætluðum að byrja á fullu í aðlögun í þessari viku. Við mættum fjóra daga í síðustu viku og honum virðist lítast vel á...varð meira að segja alveg brjálaður við múttu sína þegar hún tók hann út úr hvíldarherberginu. Hann svoleiðis gargaði yfir þessu óréttlæti, þarna voru líka krakkar að fara að kúra og höfðu það svo notalegt...og hann var kominn í kúrustuð :) Það er óhætt að segja að það sé skap í litla kroppnum og hann gerði nokkrar tilraunir til að æða inn í herbergið. En nei, mútta var þver og fór með hann heim að lúlla enda ekki kominn tími á að fá sér lúllara í leikskólanum strax. Vonandi man hann bara þessa ákefð þegar kemur að því að lúlla með krökkunum án múttu og lubbans hennar ;)

Annars hefur allt verið gott af okkur, þ.e. þar til þessi veikindi bönkuðu upp á. Elvar Orri stendur sig vel í skólanum og er orðinn vel læs, rífur í sig bækurnar sem hann kemur með heim og hefur mikinn áhuga á þessu öllu. Hann kvartar reyndar stundum á morgnanna þegar hann er illa sofinn...þá er skólinn hundleiðinlegur og hann HATAR að læra ;) Hann þarf greinilega sinn svefn og ef hann er vel úthvíldur er allt annað hljóð í skrokknum.

Jæja látum þessum veikindapistli lokið, segjum vonandi fréttir af tvíeykinu fljótlega og skellum inn myndum af afrekum þeirra.

15 september 2009

Skólastrákurinn okkar...



Myndir teknar fyrsta skóladaginn :)

10 september 2009

Hauststörfin hafin...

Þá er stóri strákurinn okkar byrjaður á fullu í skólanum og fótboltanum. Það var mikil spenna hjá skóladrengnum fyrstu dagana enda stórt skref að byrja í 1. bekk. Nú þegar ca. tvær vikur eru liðnar virðist hann bara pluma sig vel og vera farin að mynda tengsl við félagana. Þar hjálpar reyndar fótboltinn til enda eru þetta flest harðir Valsarar ;) Foreldrunum finnst nú sumir dagarnir nokkuð langir en þá er farið í frístund eftir skóla, með rútu úr frístund í fótboltann og svo er drengurinn sóttur rétt fyrir fimm...úff, en hann er alsæl með þetta.

Það eru líka breytingar í vændum hjá litla kallinum en hann er búinn að fá inni á Stakkaborg og mátti byrja í aðlögun í byrjun september...en foreldrarnir fengu nú bara vægt sjokk yfir hraðanum á þessu öllu og ákváðu að borga fyrir september en byrja ekki fyrr en í byrjun október. Þá hafa múttan og lilleman auka mánuð til að dúllast saman á daginn og venjast tilhugsuninni ;) Svo erum við svo heppinn að hafa haft pabbakallinn í smá fríi en hann átti dálítinn tíma eftir af feðraorlofinu og er búin að vera að dúllast hér heima með okkur síðustu tvær vikurnar.

Þó það sé nú erfitt að sjá á eftir þessu góða sumri ætlum við hér í Skaftahlíðinni að njóta haustsins í botn. Erum búin að fara í berjamó þar sem við tíndum eitthvað af aðalbláberjum og einnig erum við búin að tína svoldið af rifsberjum. Svo finnst okkur nú alltaf eitthvað heillandi við að stappa í pollum í mildri haustrigningunni ;) Á morgun ætlum við svo að bruna vestur í Dýrafjörð og vera yfir helgina. Það er alveg ómissandi að fá smá skammt af vestfirskri orku fyrir veturinn ;)

Segjum það gott í bili, erum að dunda við að tína inn síðustu myndir sumarsins.

27 júlí 2009

Fleiri myndir af litlu rabarbörunum okkar :)


Við komumst aðeins í rabarbara hjá Steinunni ömmu eitt fallegt júníkvöld.

25 júlí 2009


Höfðum það loks af að skella inn myndum úr skírn Hauks Mána og einnig myndum frá fyrri vesturferð okkar í júní. Haukur Máni var skírður í Keldudal 27. júní og áttum við yndislegan dag þar. Skírnarbarnið stóð sig vel í kirkjunni en var svo sem ekkert að sitja á rassinum og safna spiki á meðan á athöfn stóð...nei, hann var bara eins og hvert annað ofurhresst næstum-því-tveggja-ára barn og skoðaði kirkjuna og kirkjumuni vel :) Að athöfn lokinni var haldin veisla í sumarbústaðnum Gröf og vorum við öll himinlifandi með þennan fallega dag.

Hér á bæ eru annars allir hressir og hafa vægast sagt verið mjög önnum kafnir við að njóta veðurblíðunnar. Við höfum verið dugleg við að fara á róló, í húsdýragarðinn og hitta skemmtilegt fólk. Strákarnir njóta þess báðir í botn að dunda úti í sólinni og viljum við helst bara hafa þetta svona alltaf :)

Nú er undirbúningur fyrir næstu vesturferð hafinn og Elvar Orri er orðinn spenntur að komast aftur í Keldudalinn. Við stefnum að því að fara jafnvel af stað á mánudaginn og gista einhversstaðar á leiðinni. Erum að renna hýru auga til Tálknafjarðar og skoða þá Rauðasand líka en þangað er okkur lengi búið að langa til að komast. Svo stefnum við auðvitað á að vera í mikilli gleði í Keldudalnum um verslunarmannahelgina með fullt af skemmtilegu fólki.

Sumarkveðjur úr skaftó :*

19 júní 2009

Sumargleðin...

...heldur áfram á þessum bæ og við byrjuðum ferðalaga tímabilið á því að fara vestur í Dýrafjörð í viku. Þvílík sæla að vera þar, við ætluðum varla að fást til að koma aftur í bæinn og næstum-því-sex-ára strákur tilkynnti, daginn fyrir brottför, að sá dagur yrði leiðinilegur...af því þá fengi hann ekki að vera lengur í Keldudal! Og foreldrarnir skildu þetta mætavel :) Það er eitthvað við þennan stað...klukkan skiptir engu máli og ekkert er símasambandið þarna né sjónvarpið svo auðvelt er að kúpla sig út úr öllu stressi og tali um slæmt ástand í landinu. Við vöknuðum stundum rétt fyrir hádegi og morgun/hádegismaturinn var þá bara tekin saman...kvöldmaturinn var svo stundum klukkan tíu og eftir hann kvöldganga, og háttatími þá stundum um 1 leytið...bara snilld :)

Haukurinn var sko alveg að fíla þetta ferðalag, var eins og engill alla leiðina og geri aðrir betur! Meira að segja múttan var farin að ókyrrast eftir 8 tíma ferðalag :) Við komum frekar seint til Þingeyrar, eða um ellefuleytið, og fengum að gista þá nóttina hjá langömmu og langafa. Þau voru þarna að sjá Hauk Mána í fyrsta sinn og hann gerði sitt besta til að sjarma þau...hlaupa um gangana, reyna að fikta í steinasafninu hans langafa, éta mold upp úr blómapottum, hella niður úr næstum heilli fernu af mjólk...ætli ég sé að gleyma einhverju???

Jæja nóg um það, stefnum á að henda inn myndum fljótlega (nóg var tekið af þeim eða ca. 600 stk!)

Nú og svo fórum við nú í bæinn á 17. júní, eins og ca. 50,000 þús aðrir Íslendingar og skemmtum okkur konunglega í mannmergðinni. Haukur Máni svaf nú fyrripartinn af sér en Elvar Orri sá um að gera allt þetta 17. júní-lega: candy floss, risa sleikjósnuð, veifa fána og allt saman ;) Við enduðum svo niðrí Hljómskálagarði þar sem við borðuðum nesti með ættingjum og vinum...já og eins þetta hafi ekki verið nóg stuð þá bætum við um betur og skelltum okkur á TGI's Fridays um kvöldið.

Jæja nú ætlar ritarinn í bælið, er enn á Dýrafjarðartíma og þyrfti að fara að snúa sólarhringnum við. Eins gott að vera fersk því á morgun(föstudag) verður leikskólagaura afmælisveisla hér og á sunnudaginn er svo aðaldagurinn...og tilvonandi afmælisbarn að vonum orðið spennt :)

Njótið sumarsins!

07 júní 2009

Útskriftardrengur :)



Já stóri strákurinn okkar bara útskrifaður :) Á fimmtudaginn var yndisleg útskriftarathöfn í Valskapellunni og þessi líka fíni hópur útskrifaður frá leikskólanum Sólhlíð. Mömmum og pöbbum hafði verið bent á að koma með vasaklúta og full þörf var á þeim þegar ungarnir hófu upp raust sína og sungu öll flottu lögin sem þau voru búin að æfa. Þar á meðal sungu þau Þúsaldarljóðið og fullt af fallegum lögum með ótrúlega fallegum textum...já þessi mútta þurfti fékk alla vega nokkrum sinnum tár í augun við að sjá gullið sitt ljóma eins og sólin og syngja :) Eftir þessa flottu stund fékk prinsinn að velja veitingastað um kvöldið og KFC í mosó fyrir valinu, enda var drengnum lengi búið að langa til að kíkja á rennibrautirnar þar.

Helgin okkar er líka búin að vera ansi góð. Skelltum okkur í Heiðmörk á laugardaginn þar sem við hittum stórfjölskylduna og áttum með þeim frábæran dag í geggjuðu veðri. Tilefnið var að eiga góðan dag með frænkum okkar sem búa í Bandaríkjunum og börnum þeirra. Þar fengum við grillaðar pylsur og góðar kökur og börnin léku sér í góða veðrinu...ansi góður dagur það :) Á leiðinni heim datt okkur það snjallræði í hug að kaupa litla buslulaug svo ungarnir gætu notið sólarinnar úti á svölum. Þegar heim var komið vorum við fljót að bera vatn í laugina og Elvar Orri, Embla Ýr og Haukur Máni gusuðust út í með miklu stuði. Elvar og Embla entust heillengi í lauginni og var í raun sparkað upp úr af sundlaugarvörðunum grimmu...enda var laugin orðin hálf loftlítil. Og skýringin? Jú þeim hafði dottið í hug að bíta í kantinn...já bíta í svo á kom gat og loftið puðraðist út!!! Ja hérna hér, það sem börnum dettur í hug. Það er óhætt að segja að sundlaugarverðirnir í Skaftahlíð 8 voru frekar fúlir enda hefði allt eins verið hægt að henda þessum 2000 kalli út um gluggann ;)

Í dag fórum við svo að hitta góðan vin Elvars Orra, Jón Einar, og fjölskylduna hans. Þeir guttar hafa náð afkaplega vel saman síðan þeir kynntust í útilegu ÍÆ í fyrra og eru alltaf svo yndislega glaðir að sjá hvorn annan. Eftir að hafa eytt góðum tíma með þeim var komin tími á að fara með litla skæruliðann heim, enda stefndi í að hann myndi leggja húsið í rúst, og var Elvari boðið að vera lengur hjá Jóni Einari. Það var því glaður ungur maður sem kom heim seinnipartinn og hlakkar hann mikið til að hitta vin sinn aftur.

Við enduðum svo helgina á að bjóða Hössa afa og Mundu ömmu í mat af tilefni dagsins. Hössi afi er nefnilega sjómaður og hér var boðið upp á sjóara-grillkjöt, sjóara-meðlæti og sjóara-köku...vorum ekki alveg að nenna að bjóða upp á eitthvað sem kæmi úr sjálfum sjónum ;)

Á morgun er ætlunin að bruna vestur á firði og eyða þar nokkrum dögum. Langaamma og langafi á Þingeyri hafa aldrei séð yngri prinsinn og kominn tími á að bæta úr því. Vonum bara að prinsinum góða þóknist bílferðin langa ;)

03 júní 2009

Usss...heill mánuður síðan við skrifuðum síðast...ekki alveg nógu gott hjá okkur og spurning um að henda inn "status report" af yndislega tvíeykinu okkar. Nú er klukkan rétt rúmlega níu og báðir gormarnir sofnaðir...og við foreldrarnir krossleggjum fingur og vonum að herra ungprinsi þóknist að sofa svotil órofið til morguns. Það hefur verið smá vesen á honum undanfarið og kvöldin farið að mestu leyti í að hlaupa inn til hans og liggja hjá honum þar til hann sofnar á ný. En það virðist nú allt á uppleið eftir að guttinn fór á sýklalyf enda var hann orðinn stútfullur af kvefi og hefur í í raun verið með stíflað nef síðan við hittum hann fyrst á Indlandi. Spurning hvort þurfi að taka nefkirtlana úr honum því ekki gengur að úða stanslaust nefúða í litlu nasirnar.

Nú eru liðnir rúmlega fjórir mánuðir síðan við komum heim með Hauk Mána og í gær varð hann tuttugu mánaða. Af því tilefni var múttan að renna í gegnum myndir frá fyrstu dögunum hér heima...og þvílíkur munur á barninu! Hann hefur heldur betur braggast og fyllt út í tilveruna...á fleiri en einn hátt ;)


Við erum búin að reyna að vera dugleg njóta vorsins svona inn á milli veikindastússins, stóri gaurinn er búin að vera nokkuð hress og nennti sko ekki að hanga inni þó sá litli hafi verið lasinn. Hann Elvar Orri hefur sko endalausa orku á fallegum sólardögum (reyndar á flestum dögum ;) en hann vill bara helst vera úti í sólinni að leika við krakka. Hann vill líka bara helst vera í stuttermabol og stuttermabuxum (eins og hann segir sjálfur ;)) og finnst mikið sport að fá að velja þennan fatnað sjálfur.

Það hefur margt á daga okkar drifið síðan síðast og þar sem við erum nú oftast með myndavélina við höndina er kannski best að láta bara myndirnar tala? Við reynum að dæla þeim væna skammti af myndum, sem teknar hafa verið, sem fyrst inn. En svona til að nefna eitthvað þá fórum við m.a. á vorhátíð Háteigsskóla þar sem væntanlegir 1. bekkingar voru boðnir sérstaklega velkomnir. Elvari fannst æðislegt að fá að sjá skólann sinn og er ansi spenntur. Svo fengum við nú annað boð frá þeim og í þetta sinn fékk Elvar að hitta væntanlegan umsjónakennara sinn og fara inn í stofu með hinum krökkunum að vinna verkefni. Á meðan fengu foreldrarnir kynningu á skólanum og því starfi sem þar fer fram. Það er skemmst frá því að segja að bæði Elvar Orri og hans foreldrar eru afar spennt fyrir Háteigsskóla og getum varla beðið eftir að takast á við þessa lífsreynslu.

Svo eru hér nokkrar myndir að norðan en við fórum til Akureyrar um miðjan maí til þess að vera við útför langömmu strákanna, ömmu Arnars. Við höfum reynt að fara norður á hverju sumri til þess að heimsækja hana en nú verður tómlegt að geta ekki rennt við í Þingvallastrætinu eins og venjan hefur verið. Akureyrin skartaði þó sínu fegursta fyrir okkur í þessari ferð og við fengum þar fyrsta sumarveðursskammtinn þetta árið.

Hér var svo haldið Eurovisionpartí með góðum gestum og góðum mat, eins og vera ber, og áttum við hið besta kvöld þrátt fyrir að Haukur Máni væri frekar kraminn af mislingabróðurnum sem þarna var í fullu fjöri. Við höfum líka verið að hitta góða vini undanfarið, hittum t.d. Hörpu Rós og Hrefnu sem kíktu til Hauks og múttu. Og indlandsvinina okkar höfum við líka hitt á fallegum maídögum en við fórum í pikknikk á Miklatúnimeð Alexander Karli, Arndísi Ísabellu og Helgu mömmu þeirra. Þar léku Elvar og Arndís sér fallega saman á meðan litlu félagarnir gæddu sér á nestinu og mútturnar spjölluðu :)

Uppstigningadagur var vel pakkaður hjá okkur þetta árið enda fínt að nýta svona auka frídaga vel :) Elvar og mammsa byrjuðu daginn á að fara í afmæli til Kristófers vinar okkar og áttu þar skemmtilega stund með hressum krökkum og síðan hittum við Indlandsvinkonur Elvars Orra seinnipartinn. Það er svo gaman að sjá þessi þrjú flottu börn saman sem komu frá Kolkata sumarið 2004. Þau ná svo vel saman þegar þau hittast og Elvari Orra finnst frábært að hitta vinkonurnar sínar tvær :)


Þessi listi er engan veginn tæmandi yfir allt það skemmtilega sem við erum búin að brasa í maí mánuði og okkur finnst við bara hafa verið nokkuð aktíf við að hitta skemmtilegt fólk og njóta vorsins. Hvítasunnuhelgin var til dæmis þéttpökkuð af matarboði hjá afa og ömmu í Bogahlíð, afmæli hjá Hlíðarásgenginu og gönguferð í Lamafellsgjá. Nú vonum við bara að sumarveðrið verið frábært því við erum sko alveg komin í ferðalaga gírinn...okkur klæjar alveg hreint í puttana eftir að leggja land undir fót :)

Framundan er svo útskrift úr leikskólanum, nánar tiltekið á morgun. Elvar Orri sofnaði spenntur í kvöld eftir að taka til sparifötin fyrir útskriftina. Hann er líka búinn að tilkynna foreldrum sínum að Linda deildarstjóri hafi sagt að foreldrarnir þyrftu að hafa með sér vasaklúta og múttunni hér á bæ grunar að þeir eigi eftir að koma að góðum notum...Elvar Orri hefur verið spar á sönginn heima fyrir en einstaka sinnum fengist til að syngja þau lög sem sunginn verða á morgun og það kallaði nú fram tár í mömmuaugu ;) Svo styttist nú í 6 ára afmælið og planleggingarnar eru á fullu gasi...Monsters kaka, Zoo-dýra kaka og ég veit ekki hvað og hvað. Og ekki má gleyma því að ungprinsinn verður skírður í Hraunskirkju í Keldudal þann 27. júní :) Sem sagt nóg að gera í júnímánuði...

Jæja segjum þetta gott í bili, orðin ansi mikil langloka...þökkum þeim sem hlýddu ;)

Sumarkveðjur úr Skaftó!

03 maí 2009

Ósköp er maður nú latur við að setja inn fréttir af dæmalausa dúóinu ;) ...það gæti samt haft einhver áhrif á afköstin að um leið og ritarinn sest niður við tölvuna er mættur á svæðið lítill gaur sem vill ólmur fá að berja lyklaborðið.

Þeir eru annars nokkuð ferskir, þessi litli gaur og bróðir hans ;) og sjá foreldrunum algerlega fyrir verkefnum og að þeim leiðist ekki. Enda sveiflast heimavinnandi húsmóðirin á milli örvæntingar og afslöppuðu kæruleysi vegna ástandsins á heimilinu (sem sagt: "Guð minn góður, ég á aldrei eftir að ná að þrífa hér allt!" og: "Isss, ruslið fer ekki neitt"). Til að bæta fjöri ofan á fjör er sá stutti farinn að komast upp á allt sem klifra má uppá...klósettið, eldhús- og borðstofustóla (og þar með þau borð sem þessir stólar standa við) og einnig kemst hann upp í gluggakistuna í stofuna. "Örvæntingafulla" húsmóðirin tekur því upp einn sokk/dót/eitthvað af gólfinu og þarf þá að taka hann ofan af stól, snýr sér við og tekur upp næsta sokk/dót/eitthvað af gólfinu og gaurinn er kominn upp á eitthvað annað. Stubburinn komst nú svo langt að príla upp á eldhúsbekkinn um daginn áður en faðirinn stoppaði hann. Og sá stutti hefur skap...ójá...svakaleg hljóðin sem heyrast úr litlu bollunni þegar foreldrarnir eyðileggja fjörið fyrir honum. Það reynir því aðeins á Hauk Mána Somdip Arnarsson prílara með meiru þessa dagana og ófá gremjutárin sem falla þessa dagana....það er erfitt að vera lítill maður með stórt skap ;)

En lífið er nú líka gott hjá honum og hann elskar að fara út að labba og stubbast...alger útikall. Og hann er alltaf jafnglaður þegar Elvarinn hans kemur heim úr leikskólanum og eltir hann út um allt og apar eftir honum. Af Elvarnum er það að frétta að hann er líka alger útikall og vill helst bara vera úti að leika þessa dagana. Hann á vinkonu í næsta stigagangi og foreldrunum finnst svoldið skrýtið að gormurinn okkar sé orðinn svona sjálfstæður, farinn að fara einn í heimsóknir og út að leika við krakkana í næstu blokk. Þá standa þessir foreldrar eins og kjánar úti í glugga og mæna á þetta litla prik (sem er samt svo stórt) hoppa og skoppa á trampólíninu. Eins gott að njóta þessa tíma sem hann er enn smá-svona-litli-gaurinn okkar...bráðum fer hann að skamma okkur fyrir að mæna á hann með foreldra-stolts-svip og segja okkur að hann sé ekkert barn lengur :)

Jæja þetta er fínt í bili...smá raus í ritaranum ;)

21 apríl 2009

Aftur í bústað...

..já við skelltum okkur aftur í Húsafellið um síðustu helgi. Vorum svo heppinn að bústaðurinn losnaði skyndilega og við stukkum bara á tækifærið...enda hafið hin fyrri bústaðaferð svolítið litast af veikindum litla mannsins og vondu veðri. En í þetta sinn voru allir hressir og veðrið yndislegt. Þvílíki vorfiðringurinn sem kom í okkur við þetta :) Við buðum Hössa afa og Mundu ömmu með okkur og fengum svo Stínu, Mumma, Emblu Ýr og Höskuld Ægi í heimsókn á laugardeginum. Við nýttum pottinn til fullnustu, grilluðum góðan mat og fengum okkur gönguferð upp í Bæjargilið og sáum þar steinlistaverkin. Allt í allt frábær helgi...og okkur langaði eiginlega ekkert heim ;) En við erum búin að fá bústaðin í heila viku í sumar og hlökkum mikið til. Þegar heim var komið fengum við góða gesti í kvöldmat, Rósa og ungarnir hennar tveir kíktu á okkur en þeim kynntumst við í Edinborg (tja nema þeim minnsta sem var ekki fæddur þá ;))Við áttum góða kvöldstund með þeim og Elvar og Bjarnheiður léku sér vel saman enda gamlir og góðir vinir. Hauki Máni leist nú vel á Gunnlaug litla sem er rétt um 8 mánaða og reyndi nú aðeins að pota í hann og setjast á hann ;) Honum leist hins vegar ekkert á það þegar mútta hélt á Gunnlaugi...þá varð minn maður bara abbó! Og þegar mútta setti Gunnlaug í fangið á pabba og tók Hauk upp varð hann líka abbó og vildi komast í pabbafang...greinilega ekki sama um að foreldrarnir máti önnur börn. Það er óhætt að segja að þetta litla atvik hafi glatt foreldrana, því eins og allir þeir sem hafa ættleitt kannast við erum við alltaf að leita eftir þessum merkjum frá börnunum okkar sem sýna okkur að við séum á réttri braut í tengslamynduninni :)

Hér á bæ standa yfir smá breytingar. Við ákváðum að "ræna" svítunni af erfðaprinsinum! Hann hefur verið í stærsta svefnherberginu síðan við fluttum inn en ekki alltaf sofið þar. Það rann svo þetta ljós upp fyrir okkur að það væri í raun út í hött að láta stærsta svefnherbergið standa að mestu autt (fyrir utan það þegar drengirnir æða þangað inn og snúa öllu á hvolf) og sofa fjögur í lítilli skonsu. Því var hafist handa í gær við að færa allt hafurtaskið á milli herbergja og sváfum við í svítunni síðustu nótt. Það er nú töluverður munur að geta gengið meðfram hjónarúminu án þess að þurfa að skáskjóta sér og einnig töluverður munur á loftinu, það var stundum ansi loftlaust hjá okkur hinu meginn :) Elvar Orri ætlaði nú ekki að samþykkja þetta í fyrstu en lét svo undan...allavega til að prufa ;)

Jæja segjum það gott í bili, vorum að setja inn nokkrar páskamyndir og erum að vinna í bústaðamyndum.

15 apríl 2009


Vorum að setja inn fyrsta skammt af páskamyndum. Áttum alveg yndislegt páskafrí...borðuðum, hittum skemmtilegt fólk, borðuðum súkkulaði, kíktum í bíltúr með enn fleira skemmtilegu fólki...og borðuðum svo aðeins meira af súkkulaði :) Eina sem vantaði kannski var afslappelsi..það var svo mikið að gera í súkkulaðiátinu og svo er bara lítið um afslappelsi þegar maður á tvo ferska grallara (og annar í sykurvímu).

Bestu kveðjur frá nammigrísunum í skaftó :p

06 apríl 2009

Nýjar myndir...

...vorum að setja inn myndir af orkuboltunum tveimur.


Drengirnir eru hressir að vanda og sá stærri er farinn að hlakka mikið til páskanna. Hann er nú þegar komin með 2 egg upp í skáp, fær eitt frá foreldrunum og svo komu Steinunn amma og Siggi afi með Marsbúaegg handa gaurnum í gær...svo það er komið súkkulaðiblik í brúnu augun ;) Helgin okkar var ansi góð, byrjuðum hana á að fara í bíó með Stínu, Emblu Ýr og Höskuldi Ægi og sáum Monsters vs. Aliens...mælum sko með henni! Á laugardaginn komu Óli og Þórunn og Stína, Mummi og Embla Ýr í mat til okkar og fullorðna fólkið spilaði á meðan Elvar og Embla höfðu það kósí með snakk, nammi og mynd. Svo fékk Embla Ýr að gista...fínt að hafa lausa koju til að bjóða gestum :) Elvar Orri er nefnilega kominn með þessar líka fínu kojur í herbergið sitt. Á sunnudaginn fengum við líka fína gesti. Siggi afi, Steinunn amma, Árni og Giada, Hildur og strákarnir komu í sunnudagskaffi til okkar. Elvari finnst nú ekki leiðinlegt að hafa stóru frændurna hjá sér og tókst að fá þá með sér út í fótbolta.

Elvar Orri gerir sitt besta þessa dagana til að sofa í nýju kojunum. Hann er voðalega ánægður með þær og finnst mikið sport að sofa í efri kojunni. Múttunni fannst svoldið erfitt að hafa hann svona hátt uppi fyrstu nóttina og var alltaf að kíkja á hann en hann fer varlega. Eitt kvöldið bað hann þó um að sofa í neðri kojunni og þegar mútta kíkti á hann rétt fyrir miðnætti lá hann á gólfinu...þannig að hann dettur ekki úr efri kojunni, bara þeirri neðri ;) Honum gengur svona upp og ofan að sofa í sínu bæli alla nóttina...það er bara svo gott að koma upp í og kúra ;)


Litli snúðurinn er nú ekkert að pæla í páskum né súkkulaðiáti. Foreldrarnir eru nú svo leiðinlegir að ætla ekkert að kynna hann fyrir páskaeggjum þetta árið :) Hann skellti sér svo í 18 mánaða skoðunina fyrir helgi og stóð sig vel...grét nú samt aðeins þegar læknirinn og hjúkkan fóru að kíkja á hann og varð ægilega sár þegar sprautan kom en niðurstaðan er þessi: snáðinn er 77,3 cm langur og 9,53 kg að þyngd. Þannig að eitthvað hefur tognað á honum og þyngst í honum síðan hann kom heim :)

Segjum það gott í bili, farið varlega í páskaeggin :)

31 mars 2009

Allt gott að frétta af sköftunum...

...nema hvað minnsti skaftinn náði sér í pest um helgina. Ansi góð tímasetning hjá litla gullinu en við skelltum okkur nefnilega í sumarbústað á föstudaginn síðasta. Komum í bústaðinn um kvöldmat og gaurinn var hress en um nóttina var hann orðin ansi heitur, greykallinn. Hann þurfti því bara að dúsa inn í bústað alla helgina og foreldrarnir skiptust á að fara út í pott og í göngutúra með Elvari Orra. Við gældum þó við það að fara bara heim á laugardeginum þar sem Haukur var ansi lufsulegur en það var ekkert ferðaveður og alveg eins gott að hafa það kósí í heitum bústað. Þannig að við áttum nú bara góða helgi í ótrúlega flottum bústað, hefði alveg getað hugsað mér að eiga hann ;)

Annars er voða lítið af okkur að frétta og lífið gengur sinn vanagang. Elvar Orri heldur áfram að stunda sinn leikskóla, fimleika og fótbolta...önnum kafinn maður. Og minnsti kallinn er líka önnum kafinn heima á daginn með mömmu. Hann er alger vinnumaður, er allan daginn eitthvað að stússast :) Honum finnst æðislegt að grammsa í Elvars herbergi, þ.e. þegar stóri prinsinn segir ekki lok lok og læs og hendir þeim litla út ;) Þeir bræður eru oftast góðir saman og Elvar hefur mikið dálæti á Hauki. Helstu vandamálin eru að hann vill svoldið mikið druslast með Hauk og atast svoldið í honum...en Haukur lætur nú oftast heyra hressilega í sér. Elvar Orri hefur nú eitthvað verið að sýna foreldrunum pirring og verið frekar argur, sennilegast er ástandið eitthvað að fara í taugarnar á honum stundum. Það hlýtur nú að reyna svoldið á að þurfa að deila sviðsljósinu með einhverjum öðrum ;)

Elvar Orri og múttan skelltu sér í afmæli í gær til Róberts Breka en Haukur Máni og pabbi misstu af þeirri veislu....en við borðuðum nú bara fyrir þá :) Það er nú alltaf gott að bregða sér aðeins af bæ og hitta góða vini...og ekki skemma góðar kræsingar fyrir. Elvar Orri skemmti sér vel með hinum gaurunum, en það er óhætt að segja að strákar séu í meirihluta í þessum hópi og stuðið eftir því, hehe. Í þessari heimsókn græddi Elvar nú líka heila skólatösku en hún Dagga vinkona hans gaf honum splunkunýja og flotta tösku. Það var nú spenntur strákur sem mátaði töskuna í morgun...ekki laust við að spenningur sé farin að gera vart við sig þó enn séu nú nokkrir mánuðir til stefnu.

Jæja segjum það gott í bili, erum að vinna í að setja inn myndir...koma að vörmu :)

09 mars 2009

Enn ein vikan hafin...

...og pabbinn og Elvar mæta á sína staði á meðan mammsa og Haukur dúllast heima. Við fengum nú lítið að gera með pabbakallinum okkar um helgina þar sem hann var að vinna en í staðinn ætlum við að njóta þess að hafa hann í vaktafríi í vikunni. Það er voða krúttlegt að sjá Hauk Mána leita að pabba þegar hann vaknar eftir lúrinn sinn, þá kallar hann "Baabbah!" og svipast um eftir honum...hann tengir pabba greinilega eitthvað við tölvuherbergið því þar leitar hann oftast fyrst (kallinn alltaf í tölvunni hmmm? Hehe).

Við þrjú reyndum að eiga góða helgi þrátt fyrir fjarveru pabba. Tókum því rólega framan af á laugardaginn og svo fór Elvar Orri í afmæli. Á meðan hann var í stuðinu lagði Haukur Máni sig og svo þegar pabbi og Elvar Orri komu heim fengu við góða gesti, Gerða, Keli og Sigmundur Jökull kíktu í kaffi til okkar. Svo bauðst Elvari óvænt að kíkja í Keflavík til Fannars Freys en að hefur lengi staðið til að Elvar fengi að gista þar. Það var því mikil ánægja með þetta allt saman og það var kátur kall sem kvaddi okkur seinnpart laugardags. Þeir frændur áttu þvílíkt góðan tíma saman í Keflavík, léku sér, fóru í bíó og skemmtu sér vel saman...eins og þeim er einum lagið. Hann var svo sóttur seinnipartinn á sunnudag og var nú ekkert ofurkátur með að stuðið væri búið í bili...við skulum bara segja að hann hafi ekki verið eins glaður að sjá mömmu sína og hún var að sjá hann ;) En það gekk nú allt saman sem betur fer yfir...menn geta nú orðið fúlir.

Höfum nú svo sem ekki frá neinu fleira að segja frá í þetta sinn en látum fljóta hér með upplýsingar um bók sem fjallar um ferli hjóna sem ættleiddu son sinn frá Afríku. Virðist vera áhugaverð bók sem við værum til í að eignast og mælum með að fólk sem hefur áhuga á ættleiðingamálum kynni sér :) Smellið á myndina til að fá frekari upplýsingar.

06 mars 2009

Við áttum annansaman en góðan dag í gær: Leikskóli, fimleikar, kíktum á Stínu frænku sem átti afmæli og fórum svo út að borða í tilefni af 70 ára afmæli Sigga afa. Það gekk vonum framar að fara með minnsta meðliminn svona út og hann stóð sig ansi vel. Við fórum á Alsælu út á Álftanesi og borðuðum frábæran tælenskan mat. Við höfðum staðinn alveg út af fyrir okkur en einungis er tekið á móti einum hóp í einu og það gerði það að verkum að við gátum verið nokkuð afslöppuð með litla manninn þarna. Enda naut hann sín vel að geta strumpast um og kíkt út um glugga, klifrað yfir þröskulda og mokað í sig. Við áttum því frábæra kvöldstund með Sigga afa og fjölskyldunni allri og nutum matarins sem var vægast sagt frábært.

Báðir drengirnir voru orðnir nokkuð þreyttir þegar heim var komið og því var bara stímað beint í bælin með þá. Hér þarf að vera verkaskipting á heimilinu og skiptast foreldrarnir á að svæfa gullin sín. Í gær svæfði pabbi Hauk og mamma lá hjá lestrarhestinum sínum...hann tók eftir því að aðeins er farið að halla á pabba greyið í þeim forréttindum að fá að lesa með honum því pabbi hefur verið á næturvöktum síðstu kvöldum. En úr því verður bætt í kvöld ;)

Við megum til með að láta smá gullkorn fljóta með frá stóranum okkar, höfum ekki verið nógu dugleg við að punkta þau hjá okkur.

Elvar og mamma voru að keyra heim frá Stínu í gær þegar Elvar segir: "Mamma, þegar fólk er dautt þá gerir Guð svona stærðfræði". Mamma var ekki alveg að átta sig á því hvað hann meinti og hváði. "Já hann gerir svona strik" ..."Ertu að meina að hann merki við þegar fólk mætir í himnaríki?" "Já, hann kíkir í gegnum skýin".

Já Guð er sem sagt með kladda og merkir við þegar fólk mætir á svæðið ;)

Við fengum aðra skemmtilega pælingu frá syninum þegar við vorum að keyra heim frá Álftanesinu í gær. Þá var verið að ræða um einn sem hafði sparkað í hið allra heilagasta á öðrum í leikskólanum. Mamman var eitthvað að reyna að útskýra fyrir Elvari hversu hættulegt það gæti verið fyrir drengi að fá spark þarna, m.a. að kúlurnar gætu skemmst og þá gætu þeir kannski ekki eignast börn þegar þeir yrðu stærri. Þá skellir Elvar uppúr: "Já en mamma, strákar eru ekki með börn í maganum!" (mamman greinilega ekki með þetta á hreinu). Nú var úr vöndu að ráða...hversu ítarlega ræðir maður við 5 ára um gang lífsins??? "Jú sko...uuu.strákar þurfa að nota "kúlurnar" til þess að búa til börn..." Við þetta verður Elvar mjööög forvitin og spyr ákveðið "HVERNIG!"...og þegar foreldrarnir eiga erfitt um mál vegna niðurbælds hláturs verður hann eiginlega fúll..."Ekki hlæja!!". Það er greinilegt að hann er eitthvað farin að velta þessu fyrir sér, eða þetta hefur borist í tal hjá vinunum á leikskólanum. Hann var allavega mjög áhugasamur um þetta. Endaniðurstaðan hjá foreldrunum var sú að segja bara við guttann hina týpísku setningu: "Þegar maður og kona elska hvort annað mjög mikið þá eignast þau barn saman...(og svo var klykkt út með einni belg og biðu setningu til að slíta umræðunni)...en þú lærir um þetta í skólanum, í kynfræðslu...þegar þú ert í ca. 6. bekk...nei sko sjáðu stjörnurnar, þessi heitir Venus..". Og málið var dautt...í bili :)

03 mars 2009

Þá er sælan búin í bili hjá pabbanum á bænum en hann byrjaði að vinna á mánudaginn. Hann á samt eftir að taka hluta af fæðingaorlofinu sínu en við eigum eftir að ákveða hvernig það verður skipulagt. Okkur finnst við nú hálfpartinn hafa verið snuðuð með þetta allt saman...þetta leið alltof fljótt! Við erum bara "nýkomin" heim og vildum sko hafa kallinn lengur í orlofi ;) En það þýðir nú ekki að tuða yfir því, þetta er búið að vera frábær tími...að geta átt þessar fyrstu vikur í rólegheitum að kynnast hvert öðru.

Við áttum annars mjög góða helgi og hittum fullt af skemmtilegu fólki. Helgin byrjaði á því að við fengum Friðrik Daða Deb og foreldra í heimsókn. Þau komu til að sjá nýja prinsinn okkar og svo fórum við öll saman að sjá vin Hauks Mána frá Kolkata, hann Alexander Karl sem er nýkomin heim. Þar áttum við yndislega kvöldstund í góðum félagsskap og það var frábært að sjá öll þessi yndislegu börn þarna samankomin. Elvar Orri, Arndís Ísabella (stóra systir Alexanders Karls) og Friðrik Daði léku sér svo fallega saman og litlu guttarnir dunduðu sér á milli þess sem þeir kíktu á stóru krakkana. Þeir veittu nú hvor öðrum ekki mikla athygli þrátt fyrir að hafa eytt tíma saman í sama rúmi úti á Indlandi, enda kannski ekki við því að búast af svona ungum krílum, en það verður gaman að sjá þá grallarast saman þegar þeir stækka.

Laugardagurinn var sannkallaður letidagur og vorum við flest enn á náttfötunum kl. 17 þann daginn en þá drifum við okkur út að versla og kíktum svo við í Ólafsgeislann til Óla og Þórunnar. Þar biðu börnin spennt eftir að sjá Hauk Mána í fyrsta sinn og vakti hann mikla lukku. Á sunnudaginn var Elvari Orra boðið í keilu með Stínu og kó og Óla og kó og hann þáði það nú með þökkum. Þegar keilan var búin fékk Elvar að fara og leika við Emblu Ýr og Höskuld Ægi og múttan fékk nú að fljóta með. Á meðan dunduðu pabbinn og Haukur Máni sér heima. Karlinn var með smá tilraunamennsku í eldhúsinu, eldaði lambalæri að marókóskum hætti. Það tókst með eindæmum vel hjá honum og buðum við Steinunni ömmu og Sigga afa að njóta með okkur.

Haukur Máni stendur sig afskaplega vel þegar gesti ber að garði og eins þegar við bregðum okkur af bæ með hann. Hann er alveg hættur að vera hræddur við fólk en sýnir það klárlega að mamma og pabbi eru best ;) og auðvitað stóri bróðir. Það er gott að sjá hversu öruggur hann er með sig, sérstaklega hér heima og okkur langar til að skrifa það á það að honum líði vel hér og sé smátt og smátt að átta sig á að þessir skrýtnu foreldrar séu komnir til að vera. Við erum samt enn mjög meðvituð um að tengslamyndunin er flóknara ferli en svo að allt sé bara klappað og klárt nú þegar...en við erum mjög þakklát fyrir hversu vel hefur gengið hingað til.

Við erum líka alltaf að sjá betur og betur hvern mann þessi litli moli hefur að geyma og erum auðvitað fyrir löngu orðin gersamlega heilluð af honum. Hann er mjög glaðlyndur og tekur á móti okkur með breiðu brosi, bæði þegar við sækjum hann inn eftir lúrinn og eins þegar annað okkar hefur brugðið sér af bæ. Þá stekkur hann að hurðinni um leið og hann heyrir hana opnast og brosir breitt til mömmu eða pabba. Hann tekur líka vel á móti brósa sínum þegar hann kemur heim og er oftast sæmilega sáttur við það þegar sá eldri knúsast í honum. Hann virðist því bara vera nokkuð sáttur við lífið þessa dagana: hann elskar sinn mat, elskar að fara í bað (má ekki heyra í krananum án þess að kasta frá sér því sem hann var að gera og æða af stað) og elskar að fara út í göngutúr og í bíltúra. Hann er líka alger svefnpurka og finnst mjög gott að kúrast og knúsast. Svo reynir hann meira að segja að syngja, þ.e. ef við höfum sungið eitthvað fyrir hann reynir hann líka. Þá kemur ægilega krúttlegur innlifunarsvipur á manninn og hann syngur/raular smá :) En þessi ungi maður hefur líka skap og sýnir það óspart...lætur heyra vel í sér ef honum mislíkar eitthvað eða ef hann er stoppaður í príli og fikti. Þar er hann nú svoldið ólíkur bróðir sínum sem var nú mjög "passífur" framan af og lét ekki mikið í sér heyra ef verið var að bögglast með hann

En maður getur nú ekki bara talað um litla manninn, það má nú ekki gleyma að segja fréttir af stóranum okkar sem er svo duglegur. Það helsta af honum að segja er að hann er svo til orðin læs! Foreldrarnir er agalega stoltir af honum og hann hefur sýnt miklar framfarir á örskömmum tíma. Hann byrjaði bara allt í einu að hafa afskaplega mikinn áhuga á stöfunum og var farin að þylja stafrófið fljótlega eftir áramót. Nú getur drengurinn lesið löng orð eins og andarungar og vetrarblóm. Hann var svo heppinn að fá Geitungur 2 frá Friðrik Daða vini sínum fyrir helgi og erum við búin að lesa hana spjaldana á milli. Það er bara yndislegt að fylgjast með unganum sínum ná svona þrepi og sjá hversu stoltur hann verður þegar honum er hrósað fyrir árangurinn...ljómar eins og sólin :)

Jæja nú ætlar ritarinn að reyna að hafa vit fyrir sjálfri sér og skella sér í bælið. Foreldrarnir hér á bæ hafa nefnilega þá tilhneigingu að fara alltof seint að sofa, gleyma sér í sjónvarpsglápi eða tölvuhangsi þegar ró er loks komin á húsið....en stuðboltar tveir spyrja nú ekkert að því þegar þeir vakna endurnærðir eftir sinn fegurðarblund á morgnana.


Segjum það því bara gott í bili...

p.s. enn fleiri febrúarmyndir í nýju albúmi :)

24 febrúar 2009

Myndir myndir!


Nú dúndrum við inn myndum af dýnamíska dúóinu eins og við fáum borgað fyrir það ;)

21 febrúar 2009


Vorum að skella inn nýjum myndum af gormunum og bættum einnig við desember albúmi.

19 febrúar 2009

Fjórar vikur!


Í dag eru fjórar vikur síðan við komum heim með lítinn mann. Þessi litli maður var óttalega mikil mús og var ekki alveg viss um hvað væri að gerast í lífinu. Nú er þessi sami litli maður búinn að bæta heldur betur á sig og virðist vera ansi sáttur með hið nýja líf. Það er ótrúlegt að það sé kominn mánuður síðan við komum heim frá Indland og einnig ótrúlegt hversu vel allt hefur gengið...7,9,13 ;)


Annars hefur verið smá ástand á heimilinu síðustu daga, sem byrjaði um síðustu helgi með því að Elvar Orri byrjaði að kvarta um í maganum og kastaði svo upp. Við héldum að þetta væri nú bara ósköp venjuleg ælupest en enduðum svo á mánudag upp á barnaspítala. Þá var hann búinn að vera mjög orkulítill, borðaði ekkert og hafði bara ælt tvisvar sinnum en emjaði hins vegar úr kvölum í maganum. Þeir vildu nú meina að þetta væri hægðatregða, sem okkur fannst skrýtið þar sem hann hefur aldrei átt við nein slík vandamál að stríða. Við fórum svo aftur um kvöldið á spítalann þar sem hann fékk mjög slæmt verkjakast þrátt fyrir hægðatregðumeðferðina fyrr um daginn. Þar var hann skoðaður í bak og fyrir, teknar alls kyns prufur og allt leit vel út. Nema hvað blóðþrýstingurinn var frekar hár, en það gæti hugsanlega verið vegna verkjanna. Við vorum svo send aftur heim með sömu svör, þ.e. að þetta væri líklegast hægðatregða. Hann er svo búinn að vera upp og ofan greyið þessa síðustu daga, fengið mjög slæma verki og verið mjög ólíkur sjálfum sér. Í gær lagðist hann upp í rúm um sex leytið vegna magaverkja og þurfti mamma að liggja hjá honum og strjúka bumbuna og á endanum sofnaði hann...og svaf til níu um morguninn! Okkur fannst þetta frekar óþægilegt...að sjá hann svona orkulítinn og veikan en sem betur fer er hann hressari í dag. Við vonum bara að þessu sé lokið og sennilegast hefur þetta verið rétt skýring á þessum veikindum....okkur datt bara ekki í hug að hægðatregða gæti verið svona erfið viðureignar.

Og svo maður segi nú aðeins fleiri fréttir af stóra stráknum okkar þá fór hann í málþroskapróf hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og kom rosalega vel út úr því, er fyrir ofan meðallag í málþroska. Við teljum nú að það sé að einhverju leyti því að þakka að hér á bæ er alltaf lesið fyrir svefninn og það skiptir greinilega miklu máli. Svo þurfti hann nú að fara í sneiðmyndatöku vegna heyrnaleysisins á öðru eyranu og stóð sig eins og hetja þar. Honum þótti nú bara spennandi að fara í svona geimfar og þegar kom að því að Raggi frændi sprautaði gaurinn kveinkaði hann sér ekkert (hafði reyndar fengið deyfiplástur en það er nú bara aukaatriði ;) Það kom hins vegar ekkert út úr myndunum sem varpar ljósi á heyrnaleysið og spurning hvort okkur tekst yfirleitt að komast að þeim orsökum.

Af hinum gorminum er allt gott að frétta og hann etur sem betur getur...ekkert nýtt þar ;) Hann hefur samt aðeins verið að stríða foreldrum sínum varðandi svefnmálin á kvöldin en það verður vonandi ekki mikið vandamál.

Jæja segjum þessum veikinda og læknasögupistli lokið í bili :) Höfum vonandi frá einhverju miklu skemmtilegra að segja frá næst...spennandi dagar framundan; bolludagur og öskudagur!

10 febrúar 2009

Hæ!


Ég heiti Haukur Máni Somdip Arnarsson og er 16 mánaða. Mér fannst kominn tími á að ég kynnti mig almennilega þar sem ritarinn hefur ekki staðið sig sem skyldi undanfarið...Ég er búin að vera heima í næstum 3 vikur og stundum er eins og ég hafi alltaf verið hérna í Skaftahlíðinni svo heimakær er ég orðinn ;)

Ég sef vel...nema þegar mér dettur í hug að vakna eftir hálftíma lúr á kvöldin og held þá að það sé bara nóg og vill stuð! En ég ligg samt voða góður og hjala uppi í rúmi með mömmu eða pabba og á endanum sofna ég aftur (stundum eftir 2 tíma!). En þá sef ég líka lengi frameftir og það eru foreldrarnir sáttir við ;) Ég elska að borða og elti pabba gamla oft ef ég sé hann fara inn í eldhús, bara ef ske kynni að hann væri að fara að sýsla í mat..maður veit aldrei! Þá skiptir engu hvort ég sé nýbúinn að borða, það er alltaf pláss fyrir meira. Nú og ef það er ekki pláss...þá gubba ég bara! Einfalt mál ;)Ef mamma og pabbi ætla sér að fara að borða þegar ég er búinn að borða mæti ég á svæðið og þá heyrist í mér "ummm ummmmmmmmm ummmmm!", sem er matarhljóðið mitt og þá ætlast ég til að fá að smakka á því sem þau eru að borða...en ekki hvað?

Ég er yfirleitt mjög glaður og hlæ og skríki svo það skín í skögultennurnar mínar (og þó þær séu sætar þá skuluð þið passa ykkur, þær eru stórhættulegar eins og bróðir minn fékk að kynnast um daginn...úbbbs ;) Mér finnst gaman að fara í bað og ef ég heyri í krananum inni á baði skríð ég af stað og stend við baðkarið. Mér finnst mjög gaman að leika við bróðir minn en ef hann faðmar mig of mikið þá læt ég í mér heyra og foreldrarnir segja að ég breytist í lítinn Gremlins þegar ég vill ekki láta knúsa mig eða þegar ég vill fá eitthvað dót...ég veit ekki hvort þau eru að meina litla sæta Gremlins eða þennan sem var aðeins frekjulegri...hmmm? Mér finnst heldur ekki gaman að láta skipta á bleyju og garga stundum þegar ég er lagður á skiptiborðið eða þegar verið er að troða mér í föt. Hey, ég veit bara hvað ég vil og hvað ekki ;)

Já og ég er byrjaður að labba! Það má nú ekki gleyma að segja frá því. Ég var byrjaður að standa upp við borð o.þ.h. þegar þau hittu mig úti á Indlandi en stuttu eftir að ég kom heim byrjaði ég að standa upp án stuðnings og fór svo bara af stað. Nú get ég labbað alveg yfir stofugólfið ef þannig liggur á mér og ég er duglegur að æfa mig...en oftast finnst mér nú bara best að skríða, ég kemst hraðar yfir þannig ;)

Ég finn að ég er elskaður og sé það á svip foreldra minna þegar þau koma inn og kíkja á mig eftir lúrinn minn. Þá standa þau stundum og mæna á mig eins og ég sé lítið kraftaverk..sem ég er...og í staðinn sendi ég þeim hið alræmda skögultannabros...virkar alltaf á þau ;)Ég sé líka hvað Elvar Orri stóri bróðir er hrifinn af mér og hann er rosalega góður við mig. Hann bíður spenntur eftir að ég vakni og vill faðma mig og klappa. Ég tek líka vel á móti honum þegar hann kemur heim úr leikskólanum og saman getum við kjánast og grallarast.

Ég er aðeins byrjaður að hitta annað fólk og í fyrstu var ég frekar hræddur en er svona að átta mig á því að það vilja mér allir vel og ég þarf ekkert að vera hræddur. En ég er enn svoldið viðkvæmur og að átta mig á þessari nýju tilveru. Svo enn um sinn ætla ég bara að vera í mömmu- og pabbafangi en ég hlakka til að kynnast ykkur!

Bestu kveðjur
Haukur Máni Somdip

01 febrúar 2009

Betra seint en aldrei :)

Vorum að setja inn myndir frá siglingunni okkar á Ganges.

Delhi ... dagur 2 og 3 ... og svo heim

Jæja, við höfum nú ákveðið að klára ferðasöguna frá Indlandsferðinni ... ágætt að skrásetja þetta meðan ferðin er okkur enn í fersku minni.


Síðustu tveir dagarnir okkar í Delhi gengu ágætlega. Við reyndum að taka því rólega á hótelinu og knúsast í gaurnum okkar. Ferðalagið til Delhi sló hann aðeins út af laginu, hann var frekar lítill í sér og var ekki alveg á því að leyfa pabba sínum að hugsa um sig. Sennilega hefur hann verið rétt að byrja að fóta sig í Kolkata þegar honum er skellt í annað ferðalag og á nýtt hótel. Hann borðaði samt alveg vel og svaf ágætlega og var alltaf meira en til í að fá pelann sinn...og setti svo upp svaka skeifu um leið og pelinn var búinn ;) Svo pöntuðum við bara hrísgrjón upp á herbergi fyrir hann...spurning hvort þjónarnir hafi nokkuð haldið að við værum svona nískir túristar sem eta bara hrísgrjón?

Á þriðjudeginum 20. jan. ákváðu Munda og Arnar að fara á Khan markaðinn, sem Arnar hafði farið á deginum áður og notuðust við sama fararmáta og hann gerði; tuk-tuk. Arnar ætlaði að athuga hvort hann fyndi ekki matvöruverslun þarna til að kaupa barnamat og aðrar nauðsynjar. Á Kahn market var að sjálfsögðu að finna verslun sem seldi barnamat og náðum við að birgja okkur vel upp af alskyns gúmmulaði fyrir matargatið.

Á meðan dunduðu mæðginin sér á hótelinu, stubburinn tók sér góðan lúr og var bara nokkuð sáttur. Þegar Arnar og Munda komu til baka fóru Magga og Munda á sama markað með tuk-tuk. Ég (Magga) hafði aldrei farið í svoleiðis, hvorki í fyrri Indlandsferð né núna, svo ég gat nú ekki látið það gerast að fara frá Indlandi í annað sinn án þess. Þetta var ákveðin stemmning og nokkuð hentugt að bruna um göturnar á þennan máta. Bílstjórinn reyndi auðvitað að segja okkur frá miklu betri markað heldur en Khan markaðnum (auðvitað ;) en við vorum harðákveðnar í að fara þangað svo hann skilaði okkur á réttan stað og fyrir það borguðum við heilar 10 rúpíur. Við röltum aðeins um en versluðum lítið enda er þetta meira svona nútímalegri og vestrænni markaður. En bókabúðin þarna er mjög flott og ef töskur og aukakíló hefðu ekki verið farartálmi hefðum við nú keypt slatta af bókum þarna. Svo skelltum við okkur upp á hótel og í þetta sinn borguðum við 50 rúpíur fyrir farið, sem er svo sem ekki mikið.

Um kvöldið fórum við að borða á Pickwicks, einum af veitingastöðunum á Claridges, sem býður upp á nokkuð hefðbundin mat. Það eru mjög flottir veitingastaðir þarna en við komumst bara ekki yfir að prufa þá alla. Það voru fáir á veitingastaðnum enda vorum við seint á ferðinni svo við höfðum svo til alla þjónana til að snúast í hringum okkur. Somdip var nokkuð sáttur, sat eins og fínn maður í barnastól. Þjónarnir voru mikið að kjá framan í hann og sýndu honum mikinn áhuga. Maturinn bragðaðist vel en þegar kom að eftirrétt var fyrrnefndur drengur búinn að baka sinn eigin eftirrétt, ef svo má að orði komast, og hann og móðir hans þurftu að bregða sér upp á hótelherbergi til að sinna þeirri aðgerð. Á meðan beið hennar gómsætur ís...já það er stuð að vera kominn aftur í kúkableyjubransann ;)

Miðvikudagurinn, síðasta deginum okkar í Delhi, leið alltof fljótt og að mörgu leyti vorum við ekki tilbúin til að kveðja Indland alveg strax en samt alveg meira en tilbúin til að komast heim...enda margt skemmtilegt sem beið okkar þar, eins og að knúsa stóra drenginn okkar, hefja nýtt líf sem fjögurra manna fjölskylda og njóta þess að vera saman.
Það lá vel á Somdip þennan dag og hann var nokkuð jákvæður í garð pabbakallsins síns...okkur grunar að þetta bakslag hafi verið til komið vegna þess að hann hefði aftur orðið svo óöruggur við flakkið og sett allt sitt traust á eina manneskju til að hafa einhverja festu. Það er ansi mikið á þennan litla kropp lagt. Við ákváðum að prufa að fara með hann í ríkisreknu minjagripabúðina og sjá hvernig hann höndlaði það. Það gekk eins og í sögu og hann var mjög rólegur allan tímann, fannst fínt að sitja í kerrunni sem við tókum með og endaði með að sofna í henni eftir að hafa fengið sér smá pelasopa. Við gátum nú eitthvað aðeins bætt í töskurnar þarna en sáum svo mikið af flottum hlutum sem myndu sóma sér vel í íbúðinni en flestir alltof þungir og stórir...ferlega svekkjandi að geta ekki verslað að vild ;)

Leigubílstjórinn sem keyrði okkur í minjagripabúðina var mjög fínn, en byrjaði auðvitað sama "ég-veit-um-betri-markað sönginn". Sagði okkur frá "fínum" markað sem heitir Mughal bazaar og þar væri fínt að versla og fullkomlega öruggt en hins vegar væri stórhættulegt að fara á markaðinn við Janpath (sama gata og ríkisrekna búðin stendur við). Þar yrði maður örugglega rændur og sennilega svindlað á manni í þokkabót ;) Þetta sagði hann okkur á leiðinni í ríkisreknu búðina en við héldum okkar striki og eftir að hafa verslað þar ákváðu Magga og Munda að prufa að labba smá á Janpath á meðan Arnar, Somdip og bílstjórinn fóru í bílinn. Þetta reyndist nú bara fínindis markaður, sennilega rétt samt hjá honum að þarna væru vasaþjófar þó við rækjumst ekki á þá. En það var hægt að gera kostakaup þarna ef maður prúttaði. Við keyptum ekkert en sáum margt flott og þegar við spurðum út í verð á einhverju og hristum höfuðið yfir uppsettu verði var kallað á eftir okkur "Any prize you like madam!" Nú sjáum við líka mikið eftir að hafa ekki farið fyrr þangað og verslað þar áður en við fórum í ríkisbúðina. Við sáum flottar grímur á veggina sem hefðu fengist á slikk en keyptum ekki...og nú dauðsjáum við eftir því. Ekki í fyrsta inn sem við sjáum það að ef maður sér eitthvað í útlöndum sem manni langar í á bara að skella sér á það.

En já Magga og Munda sluppu sem sagt inn í leigubíl aftur heilar á húfi, reyndar eitthvað af betlurum og götusölufólki á leiðinni en nú erum við orðin svo sjóuð í þessu að það er hætt að bögga okkur eins mikið. Götusölufólkið er assgoti þrautseigt, reyndi að selja okkur hálsfestar og bara hætta ekki að bjóða heldur suða og suða í manni...og staðsetningin hjá þeim var ansi góð: Sátu við götuna þar sem við þurftum að bíða eftir grænu ljósi til að komast yfir og það tók langan tíma að fá græna kallinn...úff. Þegar við komum til baka voru þau enn þarna og héldum áfram, ungur strákur hékk næstum á Mundu með hálsfestarnar þar til hún sagði ákveðið "No, thank you!", þá sagði hann bara "Yes, thank you!" en gafst svo upp.

Á meðan Magga og Munda börðu frá sér unga drengi var Arnar að gera voða góðan díl við leigubílstjórann okkar, sem í ljós kom að hét Satnam. Hann sagðist myndi keyra okkur á flugvöllinn fyrir miklu minni pening en hótelið myndi rukka. Það varð úr að munnlegur samningur var gerður og hann myndi vera klár kl. 10 um kvöldið. Hann vildi einnig endilega koma okkur á Mughal bazaar og eftir að hann skutlaði okkur á hótelið ákváðum við að hann mætti sækja okkur kl. 5 til að fara þangað. Í millitíðinni slöppuðum við af uppi á hóteli og tróðum í ýstruna á barninu.

Stundvíslega kl. 5 var haldið áleiðis á Mughal bazaar sem við héldum að samanstæði af sölubásum þar sem fólk væri að selja alskyns muni. Í ljós kom að þetta var bara minjagripabúð þar sem þeir sem koma með ferðamenn þangað fá einhverja greiðslu fyrir. Við gengum inn í gin ljónsins, vorum þau einu þarna inni og voru sirka 5 sölumenn á hvert okkar. Og byrjaði þá showið. Tínt var úr öllum hillum og okkur margbent á alla hluti. Þetta var í raun svo fyndið að á einum tímapunkti flissaði Arnar og sagði við einn: "You never stop do you ?" ... Ekki stóð á svarinu: "No, thats bad for business!"
Við enduðum náttúrulega á því að kaupa svolítið hjá þeim en einsettum okkur að prútta sem mest við gætum. Þessi búð var mjög svipuð þeim sem við höfðum lent í í fyrri Indlandsferðinni, þangað sem leiðsögumennirnir okkar fóru með okkur og við fengum hvert teppasjóvið á fætur öðru. Þetta var þó öllu léttari upplifun þar sem við ákváðum bara að vera hörð við þá og láta ekkert spila með okkur...en óneitanlega svimar manni dulítið þegar hverju sjalinu, dúknum, o.s.frv., er veifað framan í mann af ca. 10 sölumönnum. Þegar við sluppum út mættum við tveimur vestrænum túristum sem voru að renna í hlað með tuk-tuk bílstjóra og Arnar stóðst ekki mátið að segja við þá "Good luck in there". Við það kom smá hik á mennina og þeir brostu kindarlega áður en þeir hurfu inn í stuðið.

Eftir þessa kaupraun báðum við Satnam um að fara með okkur á markað sem heitir Dilli Haat. Þar safnast saman handverksfólk frá öllum héruðum Indlands og selur handverk sitt. Þetta reyndist vera hinn ágætasti markaður, hann er lokaður og maður borgar 15 rúpíur inn á hann og fær því smá pásu frá betli. Við náðum að kaupa svolítið af handverki en þegar þarna var komið var svo stutt í að við þyrftum að fara út á flugvöll að við urðum að drífa okkur upp á hótel.

Satnam keyrði okkur upp á hótel og sagðist myndi bíða fyrir utan kl. 10 til að fara með okkur á flugvöllinn. Þegar við vorum á fullu gasi að pakka niður í töskurnar áttuðum við okkur á því að við vorum bara með tvær bleyjur eftir fyrir Somdip. Því hljóp Arnar af stað og fékk Satnam, sem var jú að bíða eftir okkur, til að keyra með sig á Kahn Market til að kaupa bleyjur. Þessi bleyjukaupaferð var farin á algjörri ofurkeyrslu, hlaupið inn og út úr búðinni og keyrt með pinnan í botni (eða eins og hægt er í umferðinni í Delhi). Talandi um reddingu á síðustu stundu ;) Þegar upp á hótel var komið áttum við eftir að ganga frá síðustu spjörunum ofan í töskur og Arnar átti eftir að fara í sturtu og því fór svo að við vorum um 15 mínútum á eftir áætlun niður í lobbý.

Satnam var klár með bílinn og skutlaði þremur risatöskunum upp á þakgrind bílsins og batt smásnæri í kringum til málamynda. Svo var keyrt út af hótellóðinni og stuttu síðar hittum við bróður Satnam á sínum leigubíl og hann tók farangurinn af þakinu og skellti í bílinn hjá sér. Þetta var einhver barbabrella hjá þeim bræðrum, því samkvæmt Satnam vildi hann ekki að hótelið sæji að við værum að nota tvo bíla ... eitthvað með að þeir yrðu svo fúlir með að missa viðskiptin við hótelbílana. Annað hvort heldur þessi skýring vatni eða þá að bræðrunum leist betur á að við borguðum tvo bíla á flugvöllinn frekar en einn! Hins vegar vorum við ekkert að stressa okkur á þessu, við vorum ekkert sérstaklega spennt yfir því að hafa farangurinn hossandi uppi á bílþaki alla leið á völlinn.

Við kvöddum svo þá bræður með virktum á flugvellinum og héldum okkar leið í innritun og í gegnum öryggistékk. Ekki var nú mikið mál að fara í gegnum vegabréfaeftirlitið með Somdip, vörðurinn fletti til málamynda í gegnum dómspappírana, geispaði og stimplaði okkur svo út úr landi.

Flugferðin með KLM gekk afskaplega vel, við fengum að færa okkur í lausa sætaröð og litli kútur fékk sér sæti þar sem hann svaf vært, með smá góli vegna þrengsla af og til, nánast alla leiðina til Amsterdam. Eftir lendingu þar tók við löööööng bið í 8 klukkutíma. Sem betur fór er aðstaðan á Schiphol flugvelli betri en á ýmsum öðrum flugvöllum sem við höfum komið á. Það reyndi samt svolítið á að bíða í alla þessa tíma enda vorum við illa sofin. Munda var með aðgang að priority lounge og þar var voða notalegt að vera, hlýtt og gott og ókeypis drykkir og hressing. En þar sem stubbur var ekki alveg á því að lúra sig strax ákváðum við að fara með hann út svo fólk gæti hvílt sig þarna inni. Við ákváðum því að tékka á barnaherbergjunum sem við höfðum lesið um á síðu flugvallarins. Á labbinu þangað sofnaði drengurinn og við gátum lagt hann beint í rimlarúmið í þessu herbergi...afskaplega hentugt allt saman...en hins vegar voru sætin fyrir foreldrana algert grín. Þetta var í raun eitt stórt herbergi með nokkrum rimlarúmum og skilrúmið á milli þeirra var bara efnislufsa. Þarna geta sem sagt foreldrar setið hjá börnum sínum á meðan þau sofa í almennilegu rúmi en gallinn er sá að fyrir þreytta foreldra er nær ógerningur að koma sér vel fyrir á nútímalegum sætunum. Við náðum að tildra annarri rasskinninni í sætin og leggja bífurnar ofan á kerruna og dormuðum þarna í nokkrar mínútur...eða þar til barnið í næsta bás fór að gráta og barnið í þarnæsta bás fór að leika sér með hávaðadótið sitt (ath. þegar hér var komið við sögu vorum við orðin verulega geðill af þreytu og þessi skrif einkennast aðeins af því ;). Jæja eftir þessa raun þrömmuðum við aftur til Mundu og reyndum að eyða síðustu klukkutímunum í að halda okkur vakandi.

Það voru því verulega þreyttir ferðalangar sem skriðu um borð í Icelandairþotuna og aldrei höfum við verið eins glöð að komast um borð í flugvél. Og Icelandair á skilið mikið hrós fyrir breytingarnar á sætunum og afþreyingakerfinu, ansi þægilegt að fljúga með þeim. Flugferðin heim gekk mjög vel og Somdip svaf næstum alla leið og foreldrar og amma gátu hvílt sig vel og horft á bíómynd :) Það var góð tilfinning að lenda á Keflavíkurflugvelli eftir langt ferðalag og enn betra að sjá fjölskylduna okkar sem kom að taka á móti nýjasta fjölskyldumeðlimnum. Sérstaklega gott var nú að sjá stóra strákinn okkar sem beið spenntur eftir langþráðum litla bróðir.

Þar sem þessari ferðasögu lýkur hér með langar okkur til að þakka ykkur enn og aftur fyrir allar kveðjurnar og hlýhuginn á meðan á ferðalaginu stóð. Gaman að sjá hversu margir lögðu með okkur í langferð í huganum :)

28 janúar 2009

Myndir!



Vorum að dúndra inn vænum skammti af uppáhaldsmyndefni okkar þessa dagana: Brodrene Arnarssen :)

Allt rólegt á heimavígstöðvum :)


Hér á bæ var ræs klukkan 8.30 og hafði sá minnsti þá sofið í einum dúr alla nóttina frá kl. 21...foreldrarnir nokkuð ánægðir með það :) Stóri bróðir rumskaði við hjalið í þeim minni og þeir lágu um stund hlið við hlið bræðurnir og horfðu á hvern annan, klöppuðu og potuðu...bara yndislegt að horfa á þá saman.

Við fórum til Gests Pálssonar barnalæknis á mánudaginn og það var þraut fyrir litla kallinn okkar. Elvar Orri fékk að koma með af því var svo spenntur að hitta Gest og var handviss um að það væri betra fyrir Hauk Mána að hafa hann með ;) Eftir að hafa togað og teygt og stungið og mælt litla manninn sagði Gestur okkur að honum litist afskaplega vel á þetta eintak. Hann virðist vera hraustur og ekkert sjáanlegt sem er mikill léttir þar sem skýrslan hans var nú svolítið áhyggjuefni í fyrstu. Við eigum nú samt að koma aftur á fimmtudaginn til að lesa úr berklaprufunni og svo aftur á næsta mánudag. Þá ætlar Gestur að láta óma hrygginn á gaurnum, bara til að vera alveg viss um að allt sé í góðu.

Þessa dagana tökum við því bara rólega með gaurunum okkar. Við ætlum að halda Hauk Mána eitthvað inn, Gestur ráðlagði okkur að vera ekkert að æða af stað með hann strax, sagði okkur að það væri margt í gangi þessa dagana þ.á.m. RS-vírusinn. Elvar Orri fór í leikskólann í gær, en hann hafði fengið frí á föstudaginn og mánudaginn. Hann er mjög spenntur að koma heim og hitta litla brósa og sá stutti er glaður að sjá hann. Nú eru þeir feðgar frammi í stofu, nýbúnir að fá sér morgunmat...og þeim minnsta fannst greinilega ekki nóg að fá graut í morgun því hann æddi að borðinu þegar hann sá Arnar og Elvar gæða sér á bananabrauði...alltaf hægt að bæta aðeins við ;) Elvar Orri er að fara í heyrnamælingu og fer því ekki í leikskólann fyrr en um hádegi og er að njóta þess að vakna í rólegheitunum og horfa á Simpson Movie.

Segjum það gott í bili,
Bestu kveðjur úr Skaftó :)

25 janúar 2009

Bræðrastuð...


Erum svona hægt og rólega að koma rútínu á lífið hér á bæ, vorum gjörsamlega búin á því eftir ferðina heim en erum öll að koma til. Allt gengur vel, litli snúður blómstrar og við sjáum mun á honum dag frá degi...sefur vel, borðar vel, hlær og knúsast - gæti ekki verið betra, stóri snúður stendur sig líka afskaplega vel og er mjög hjálplegur og áhugasamur um litla bróðir.

Ætlum að skella inn almennilegri færslu á næstunni og fleiri myndum, höfum bara ekki haft orku í það né tíma (hvað er málið með þennan endalausa óhreina þvott!!! þvottavélin fer að brenna yfir um!). En þangað til segjum við takk fyrir að fylgjast með okkur og takk fyrir allar góðu kveðjurnar...vermir svo sannarlega hjartað að sjá hversu margir fylgdust með ferðalaginu okkar :)

Knús og kossar frá sáttum foreldrum og sætum bræðrum :*

20 janúar 2009

Komin til Delhi...

(skrifað 19. janúar)
Þá erum við komin á Hotel Claridges í Nýju-Delhi, afskaplega fínt hótel en stenst engan veginn samaburð við Oberoi í Kolkata. Það var skrýtin tilfinning að kveðja Kolkata aftur, borgina sem hefur gefið okkur tvo yndislega drengi. Borgina sem maður þolir ekki eina mínútuna en elskar hina. Það var átakanlegt að keyra snemma morguns út á flugvöll og sjá fjölskyldur búandi á gangstéttinni, mamman að þvo strákana sína upp úr vatni úr plastflösku. Og á sama tíma lá í fangi okkar drengur sem hefði hefði kannski átt svipað líf framundan. Um leið og við fullnægðum okkar þörf um fleiri börn og stærri fjölskyldu gátum við gefið honum betra líf.

Ferðin til Delhi gekk vel, flugið var á áætlun og Somdip var hinn rólegasti. Það virðist vera trikkið að gefa honum sem mest að eta, þá er hann ánægðastur. Á flugvellinum í Delhi beið okkar bíll frá hótelinu. Bílstjórinn saup hveljur þegar hann sá allan farangurinn en eftir heilmikið braml og brauk tókst með aðstoð tveggja ungra mann frá Kingfisher að troða öllum töskunum og okkur inn í bílinn. Á leiðinni á hótelið benti bílstjórinn okkur á ýmsa áhugaverða staði á leiðinni og reyndi með sinni bjöguðu ensku að útskýra á hvað hann væri nú eiginlega að benda. Í lokin gaf hann okkur nafnspjald og bauðst til að fara með okkur í skoðunarferð um borgina á morgun. Þó það hafi nú ekki verið ætlunin virtist hann halda að við myndum vera komin niður í lobbý kl. 09:30 og þá myndi túrinn hefjast. Við sögðum honum að við ætluðum nú að hugsa málið og myndum hringja ef okkur langaði í bíltúr.

Þegar við vorum komin upp á hótel var Somdip orðinn hinn argasti þar sem hann hafði ekki fengið almennilega að eta í nokkurn tíma. Eftir pelann, sem var nú ekki alveg eins botnlaus og hann hafði greinilega vonað, varð hann alveg gal og svo reiður að það var ekkert hægt að bjóða honum. Hrísgrjón, banani og ýmislegt annað var reynt en allt kom fyrir ekki. Móðgunin var svo mikil að það var ekki fyrr en löngu síðar sem hann samþykkti að borða eitthvað og eftir það steinsofnaði hann. Hann er sem sagt mjög matarsár.

Á meðan á þessum barningi með mat stóð, var faðir hans í öðrum erindagjörðum. Arnar fór yfir í danska sendiráðið til að ganga frá vegabréfsáritun fyrir litla óseðjandi matargatið. Sendiráðið er hinum megin við hringtorgið sem hótelið stendur við þannig að þangað er stutt labb. Hins vegar vantaði ekki upp á áreitið á þessari stuttu leið. Nokkrir tuk-tuk bílstjórar stoppuðu og vildu fá hann með sér í rúnt og einn maður veitti honum eftirför og reyndi að upplýsa hann um hvert best væri að fara ef vera skyldi að hann ætlaði að versla eitthvað. Eftir stutta viðdvöl í sendiráðinu þurfti að fara og láta útbúa ávísun til sendiráðsins, þar sem þeir eru hættir að taka við peningum. Til að komast í banka reyndist nauðsynlegt að nýta sér þjónustu eins af hinum afar almennilegu tuk-tuk bílstjórum og ekki vantaði þjónustulundina þegar ræða átti verðið: “you tell me what you pay”. Niðurstaðan var 50 rúpíur sem við höfum ekki hugmynd um hvort sé mikið eða lítið hér á bæ, en það eru heilar 130 íslenskar krónum talið. Ferðinni var heitið á Kahn Market sem er hér stutt frá þar sem úir og grúir af verlsunum. Það sem kom skemmtilega á óvart á þessum markaði var hversu lítið áreitið var. Maður gat gengið um og kíkt í glugga án þess að vera kaffærður í öllu því sem verslunin hefur upp á að bjóða. Þegar Arnar var búin í þessu stússi lagði litla fjölskyldan sig saman og steinsvaf í 2 tíma, dauðuppgefin eftir erfiðan dag.

Somdip borðaði sem betur fer vel af kvöldmat, foreldrarnir voru með öndina í hálsinum yfir því að barnið myndi ekkert vilja borða og bara drekka mjólk það sem eftir lifir ferðar. En sem betur fer tók hann vel við og var nú hinn hressasti eftir kvöldmat. Hann vill láta strunsa með sig um herbergið og leika við sig á gólfinu, greinilega sæll með hina nýfengnu athygli. Hann unir sér líka vel einn á gólfinu eða í rúminu að týna upp í sig cheerios. Nú er hann loks sofnaði eftir heilmiklar seríu, það þarf að dingla naghringnum, tosa í tærnar á sér, nudda teppinu sínu við nefið og ýmislegt fleira áður en svefninn sækir að. Foreldrarnir ætla fljótlega að fylgja honum yfir í draumalandið, okkur langar aðeins til að setjast niður og anda eftir að ormur gormur er loks komin í ró ;)

Góða nótt frá Delhi

18 janúar 2009

Síðasti dagurinn okkar í Kolkata...

...og við erum að pakka í töskurnar. Somdip steinsefur eftir nokkuð góðan dag, hann svaf næstum 13 tíma síðustu nótt sem okkur finnst nú bara ansi gott. Hann er búin að vera lítill í sér endrum og eins en átt mjög góðar stundir inná milli. Við erum búin að fá bros, hjal, hlátur og meira að segja dans...en svo kemur skeifan á hann greyið endrum og eins. Hann sleppir varla naghringnum sem hann fékk með sér af barnaheimilinu, leikur með hann og sofnar með hann. Við erum að sjá betur og betur að þetta er matargat og mjög oft er það ástæða skeifunnar, enda fer hún um leið og hann fær eitthvað í gogginn.

Anup kom til okkar um 2 leytið til þess að fara með Mundu og Arnar í bókabúðaráp. Hann kom upp á herbergi og dáðist að drengnum, spjallaði heilmikið við hann á hindi enda virðist Anup vera mjög barngóður maður. Hann er búin að skrifa niður fyrir okkur lista af orðum til að segja við hann og kenna okkur að bera þau fram.

Á meðan þau voru í bókabúðinni áttum við Somdip góðan tíma. Hann tók ca. 2 tíma lúr og vaknaði bara í þvílikt góðu skapi, byrjaði að leika sér og hjala. Ég setti hann á gólfið og minn maður byrjaði bara að skríða á fullu og brosa til mín...vildi greinilega fá mig í leik, ég sá sko alveg prakkarann í honum gægjast fram ;) Hann reyndi líka að standa upp hér og þar og vildi líka labba og láta halda í hendurnar á sér. Frábært að sjá þessa hlið á honum :)

Þegar Munda og Arnar komu úr bókabúðinni bauðst Anup til að fara með okkur í búð sem heitir Fabindia, ætluðum í The Good Companion en hún var því miður lokuð. Fabindia er mjög flott búð, svoldið nýtískuleg, en okkur mömmu fannst nú ungfrúin sem afgreiddi okkur heldur frekjuleg. En við náðum nú samt eyða einhverju þarna ;) Því næst ætluðum við að fara í listagallerí með Anup en rétt misstum af því, lokuðu tíu mínútum áður en við komum. Anup kom með okkur upp á hótel til að kveðja okkur og okkur fannst nú erfitt að kveðja þennan góða mann sem hefur reynst okkur svo vel. Hann bað okkur fyrir góðar kveðjur til vina sinna á Íslandi, sagðist kannski ekki muna öll nöfnin en hann myndi eftir öllu þessu góða fólki sem hann hefði kynnst.

Nú var bara ekkert eftir en að pakka...og það er ekkert "bara", töskurnar farnar að þenjast og þyngjast :)

Skoðunarferð um Kolkata 16. janúar -seinni hluti

Við höfðum fyrr um daginn sagt Anup að okkur langaði að skoða myndlist eftir heimamenn. Þegar við komum aftur í bílinn hringdi Anup eitt símtal og sagði okkur svo að hann hefði verið að tala við góðan vin sinn sem væri listamaður og að hann væri að klára að mála myndir fyrir sýningu sem hann ætlaði að halda eftir tvær vikur. Hann vildi endilega fá okkur í heimsókn og sýna okkur myndirnar sínar. Bílstjórinn okkar hann Rabi átti nú ekki erfitt með að finna heimili listamannsins, sem heitir Nitai Saha og er víst frekar vel þekktur hér á Indlandi og reyndar víðar. Hann tók mjög vel á móti okkur og við fengum að fara inn á heimili hans, konu hans og tveggja barna. Þau búa í litlu herbergi, fjögurra manna fjölskylda í plássi sem er ekki mikið meira en 20 fermetrar. Myndirnar hans eru mjög flottar og við ákváðum að kaupa eina af honum. Okkur leist best á þá sem hann var að klára, en vorum hálf hikandi og vorum ekki viss hvort við gætum keypt mynd sem hann væri að mála fyrir sýninguna. Það var nú ekki vandamál, hann sagðist nú vera listamaðurinn og réði því sjálfur hvaða verk færu á sýninguna. Hann bað okkur um að koma um klukkutíma síðar til að ná í myndina.

Til að “drepa tímann”, ef svo er hægt að komast að orði í þessari mögnuðu borg, fór Anup með okkur að skoða musteri sem tilkeyrir þeim sem aðhyllast Jain-isma. Musterið er í raun eins og risavaxið skartgripabox, allt skreytt með gleri og eðalsteinum, ótrúlega fallegt. Það var mjög notalegt að staldra þarna við og það var mikið líf í garðinum fyrir framan. Anup benti okkur á fallega klædda stúlku í fylgd með foreldrum sínum og sagði okkur að hún væri tilvonandi brúður og í þeim erindagjörðum að hitta vonbiðilinn. Þannig er fyrirkomulagið á þessu hjá þeim, unga parið hittist á einhverjum svona stað og athugar hvernig þeim líst á hvert annað. Ef áhugi er til staðar hittast þau aftur en annars ekki. Þegar Anup hafði bent okkur á þetta var auðvelt að spotta fleiri stúlkur í sömu erindagjörðum, sáum t.d. eina í sínu flottasta pússi og mömmuna vera að laga hana til áður en gæinn mætti á svæðið.

Þegar við höfðum skoðað musterið var komin tími til að fara aftur til listamannsins. Hann var akkúrat að klára myndina og við fengum að fylgjast með þegar hann lagið lokahönd á verkið. Á meðan sátum við á rúminu þeirra í litla herberginu og spjölluðum við litla strákinn hans sem talaði afbragðs ensku. Við gáfum honum póstkort frá Íslandi sem hann var hæstánægður með, sérstaklega kort með mynd af Geysir. Hann hafði einmitt verið að læra um hveri í skólanum en aldrei séð mynd af þeim. Jæja, þegar myndin var tilbúin gengum við frá kaupunum og kvöddum þessa indælu og nægjusömu fjölskyldu.

Því næst héldum við heim til Anups, með smá stoppi á Hyatt hótelinu sem er svakaflott og þar kíktum við aðeins á minjagripabúðina. Kona Anups tók vel á móti okkur og litlu strákarnir hans voru algerar perlur, annar lítill grallari og hinn ábúðafullur stóri bróðir. Maturinn sem við fengum var alveg fyrirtak og greinilega mikið fyrir okkur haft. Við borðum djúpsteikt eggaldin, rækjur og 2 tegundir af fiski sem við kunnum ekki að nefna. Allt var þetta gómsætt og að sjálfsögðu borðað með höndunum. Eftir að hafa spjallað við þau hjón um stund héldum við uppá hótel enda þurftum við að rísa snemma úr rekkju til að fara í siglingu um Ganges og að sjálfsögðu til að vera vel úthvíld þegar við myndum hitta litla prinsinn okkar.

Skoðunarferð um Kolkata - 16.janúar (fyrri hluti)



Þessi dagur er búin að vera ótrúlegur...vægast sagt...og við erum búin að upplifa svo mikið af Kolkata á stuttum tíma. Anup hefur aldeilis staðið sig vel við að hjálpa okkur að sjá sem mest.

Eftir morgunmat í morgun kom Anup og fór með okkur í skoðunarferð um borgina. Hann byrjaði á því að fara með okkur til að skoða Victoria Memorial, sem er minnismerki um Viktoríu Bretadrottningu. Þetta er í raun stór og mikil marmarahöll og safn umkringd miklum garði. Við löbbuðum hring um garðinn og skoðuðum höllina frá ýmsum sjónarhornum. Ákváðum að sleppa því að skoða hana að innan þar sem við getum víða séð málverk og skúlptúra frá Evrópu. Það var mjög gaman að hlusta á Anup, sem er fullur af fróðleik, enda búinn að vera leiðsögumaður í Kolkata í 25 ár. Það sem kom okkur helst á óvart við að skoða breska hluta Kolkata var hversu skekkta mynd við höfum af veru Breta hér. Samkvæmt Anup eiga indverjar Bretum margt að þakka og þeir áttu sinn þátt í að varðveita hina fornu menningu Indlands, ólíkt öðrum þjóðum sem komu hingað til að valta yfir menninguna og trú innfæddra.

Næst héldum við í kirkju, sem er víst ekki lengur kirkja sem slík. Hún var byggð árið 1783 og hefur að geyma marga áhugaverða muni. Við fengum að fara óáreitt þangað inn til að skoða og taka myndir. Inni í kirkjunni er lítið herbegi sem hefur að geyma myndir og muni frá þeim mönnum sem stjórnuðu breska Indlandi, m.a. 250 ára gamlan stól sem tilheyrði Warren Hastings, fyrsta ríkisstjóra breska Indlands.

Kirkjunni er haldið við af fjölskyldu sem býr þar rétt við hliðina. Við eyddum smá tíma í að taka myndir af fjölskyldunni, sérstaklega heilluðu okkur tveir litir gaurar sem voru meira en til í að stilla sér upp fyrir okkur. Við gáfum þeim nammi þegar við fórum og sáum þá rífa utan af því þegar við keyrðum í burtu. Svo var brunað af stað áður en þeir trylltust úr sykursjokki ;)

Því næst fór Anup með okkur í smá göngutúr til að skoða mannlífið. Við keyptum hálsfestar af götusala og löbbuðum meðfram langri runu af mönnum sem sátu og pikkuðu á ritvélar eins og vitlausir væru. Anup sagði að þetta væru lögskjalaritarar og þangað kæmi fólk með afsöl og lögfræðingar með dómsskjöl til að fá lögleg afrit. Í þessari götu stoppuðum við einnig og fengum okkur te að drekka hjá götusala einum. Teið er drukkið úr leirbollum sem maður hendir svo í götuna, svo leirinn sem notaður í bollana skili sér aftur út í náttúruna.

Því næst var haldið á mjög sérstakan stað þar sem pílagrímar höfðu safnast saman vegna trúarhátíðar sem hafði verið tveimur dögum áður. Hingað kemur fólk víðsvegar að einu sinni á ári, 14 janúar, til þess að baða sig upp úr hinni heilögu á Ganges. Þetta er eitthvað sem allir hindúar verða að gera einu sinni á lífsleiðinni og við sáum að það var sérstaklega mikið af eldra fólki. Anup sagði okkur að um 1 milljón manns kæmi á þessa hátíð og hefst fólkið við m.a. í tjöldum sem við fengum að skoða. Pílagrímarnir þurfa ekkert að borga fyrir þjónustuna sem þarna er boðið upp á, þarna fá þeir að sofa, borða og geta fengið læknisráð.
Þarna voru einnig heilagir menn, hinir svonefndu nöktu Sadu, þeir sem eru ekta Sadu´s hafa algerlega skorið á öll tengsl við jarðbundna hluti...eða svo til. Þeir koma lengst innan úr skóglendum Indlands til að taka þátt í trúarhátíðinni. Anup sagði okkur að þetta væri "once in a lifetime experience", að sjá þessa menn og við erum alveg sammála því. Við gáfum nokkrum þeirra pening, og í staðinn fékk Magga m.a. blessun frá einum þeirra. En þeir biðja ekki um neitt, þæÍ kaupunum fylgdi einnig typpatogunarsýning frá einum (sjá myndir). Að labba þarna um meðal fólksins var ótrúleg upplifun, allir voru svo áhugasamir um okkur á sama tíma og við vorum sem áhugasömust um alla aðra. Fólkið var svo jákvætt og glatt og ...

Eftir þessa upplifun fór Anup með okkur í "gáfumannahluta" Kolkata. Þar eru ótal básar sem selja bækur af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Við fórum einnig á eitt frægasta kaffihús í Kolkata þar sem fólk kemur til að ræða saman yfir kaffibolla. Þó ekkert okkar drykki í raun kaffi gátum við ekki setið kaffilaus við borðið og litið út eins og illa gerðir og illa gefnir hlutir. Kaffið reyndist í raun hið besta og einnig voru pakoras bögglarnir sem við fengum hinir ljúffengustu. Eftir þetta skoðuðum við fleiri bókabása og keyptum m.a. Tinna bækur sem þýddar hafa verið á Hindi.

Næst lá leiðin að heimili frægasta og virtasta rithöfundar Indverja, Rabindranath Tagore, sem vann til Nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1913, fyrstur Asíubúa. Inverjum finnst mikið til hans koma og er heimili hans og fjölskyldunnar vel varðveitt. Þarna voru ýmsir áhugaverðir munir og myndir af Tagore með m.a. Albert Einstein, því karlinn ferðaðist víða um heim. Held að það sé nauðsynlegt að kynna sér betur verk þessa mikla hugsuðar og rithöfundar.

Eftir rólegheitin og kyrrðina í húsi Tagore var aftur haldið út á götur Kolkata í brjálaða umferðina og hávaðann. Leiðin lá í hverfi þar sem 300 fjölskyldur hafa það að aðalvinnu að útbúa leirstyttur af guðunum til að nota við hinar ýmsu trúarhátíðir.

(Þetta er orðin mikil langloka hjá okkur, spurning hvort einhver endist við lesturinn ;) Og enn er eftir að segja frá fleiru sem gerðist þennan dag.)

17 janúar 2009

Ein í viðbót af barnaheimilinu...

Somdip



Í þessum rituðu orðum liggur lítill maður sofandi í rúminu okkar og sýgur puttann sinn. Að baki er einn stærsti og hugsanlega erfiðasti dagurinn í lífi hans og hann hefur staðið sig eins og lítil hetja. Það reynir heldur betur á svona smáfólk þegar það er rifið úr sínu umhverfi, þar sem hann er búinn að vera í ca. 15 mánuði, og skellt í fangið á ókunnugu fólki.

Eftir að hafa hvílst um stund á hótelinu eftir siglinguna með Anup lögðum við af stað á barnaheimilið. Við vorum með bílstjórann hans Anup og hann vissi svona nokkurn veginn hvar þetta væri. Anju tók á móti okkur í húsnæðinu þar sem skrifstofurnar eru og þar eru einnig þau börn sem eru að verða tilbúin til að fara til foreldra sinna ásamt nokkrum litlum krílum. Eftir að hafa farið með henni í gegnum öll pappírsmál fórum við inn í herbergið þar sem Somdip var. Hann lá í vöggunni sinn ásamt Irani og Iman, hinum krílunum sem eru að koma til Íslands. Hann var ósköp rólegur, enda kominn tími á miðdegislúrinn hans. Við tókum nokkrar myndir þarna og spjölluðum við Anju og fengum að vita margt um Somdip, hvað hann borðar (og samkvæmt þeim er hann algert matargat), hvernig karakter er hann...."Very naughty" sagði Anju ;) Það var tilfinningaþrungin stund að kveðja með Somdip í fanginu...það var augljóst á fóstrunum, sérstaklega einni, að þær áttu eftir að sjá á eftir honum. Og hvernig þakkar maður þessum konum fyrir að hafa séð um barnið okkar í alla þessa mánuði? Fyrir að hafa ekki einungis fætt hann og klætt heldur líka gefið honum ást og umhyggju...Það eina sem við gátum gert var að segja thank you...og reyna að setja okkar einlæga þakklæti í þessi tvö orð...



Somdip var rólegur (sennilega stjarfur) á leiðinni á hótelið, og steinsofnaði í bílnum (alveg eins og stóri bróðir). Hann svaf svo í ca. 2 tíma eftir að við komum á hótelið og við lögðum okkur aðeins með honum. En þegar hann vaknaði kom áfallið hjá honum og hann var mjög aumur. Það er ekki hægt að lýsa því hversu erfitt það er sjá hann svona sorgmæddan og geta lítið gert. Við vitum að þetta tekur tíma...með tíð og tíma mun hann sjá að við erum ekki svo slæm ;) Jæja við náðum nú loks að róa hann með því að gefa honum að borða...sennilega er leiðin að hjarta svona matargata í gegnum magann ;) Hann borðaði vel og drakk pelann sinn og eftir það var hann nokkuð kátur. Hann sat í rúminu sínu og lék með dót...og við fengum meira að segja smá bros hér og þar. Eftir þetta hefur hann verið svona bæði og...gleymir sér í smástund en grætur inn á milli...og rígheldur í naghringinn sem hann fékk með sér af barnaheimilinu.



Nú vonum við að nóttin verði góð og hann vakni öllu sáttari við hina nýju foreldra sína :)

Bestu kveðjur frá Kolkata...og takk fyrir allar hlýju kveðjurnar :*

p.s. reynum að setja fleiri myndir inn á myndasíðuna á eftir